12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Steingr. Jónsson:

Háttv. frsm. sagði, að það væri tilgangslaust, að vera nú að gera breytingar á frv. hjer í deildinni. Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett. Það er fyrir það fyrsta ekki tilgangslaust, ef háttv. deild er sannfærð um, að breytingar sjeu nauðsynlegar, og í öðru lagi er alls ekki vonlaust um, að brtill., sem jeg og háttv. 6. kgk, höfum borið fram hjer í deildinni, hafi meiri hluta sameinaðs þings með sjer. Frv., eins og það nú liggur fyrir, fjekk ekki nema 17 eða 18 atkv. í Nd. En þó svo færi, að frv. kæmist ekki í gegnum þingið að þessu sinni, þá virðist ekki hundrað í hættunni, því að málið getur vel beðið aukaþingsins að sumri. — Háttv. framsm. sagði, að bankastjórnin gæti ekki sett verð á brjefin eftir eigin vild. En hvernig á maður ofan úr sveit að sanna bankastjórninni, að hún bjóði of litið fyrir þau? Þó að þeir menn sjeu til, sem hafa vit og kjark til þess að gera það, þá eru þó hinir miklu fleiri, sem hvorki vita upp nje niður í slíkum efnum. Það er því meira í orði en á borði, að bankastjórnin sje ekki einvöld gagnvart lántakendum. — Þá sagði hv. frsm., að bankastjórnin mundi aldrei gera þá fásinnu, að selja stóra hrúga af brjefum í einu, nema mjög gott verð fengist fyrir þau. En mjer er sagt, að veðdeildarbrjefin standi nú í 92, en í júlímánuði hafi fengizt 94 fyrir þau. Þegar nú svona stendur á, er þá ekki freisting til að losa sig við sem mest af brjefum, áður en hrunið er orðið altof mikið? — Háttv. frsm. viðurkendi, að hjer væri um spekúlation að ræða. Allar þessar kvaðir eru lagðar á menn til þess að bankastjórnin geti spekúlerað með brjefin ! En ætli það hafi verið hugsun manna, þegar Landsbankinnvar stofnaður, að hann ætti að fást við spekúlationir, sem nálgast hina hættulegustu fjesýslu, sem nú tíðkast í útlöndum.

Jeg verð að endurtaka það, að jeg mun greiða atkvæði móti frv., ef brtill. okkar verða ekki samþyktar. Jeg sje ekki, að neitt reki á eftir að samþykkja frumvarpið endilega á þessu þingi. Í júlímánuði voru óseld veðdeildarbrjef fyrir 261.000 kr., svo að nauðsynin virðist ekki brýn. Og fyrir næsta þing ætti stjórnin að geta lagt rækilega undirbúið frumvarp um þetta mál.