21.07.1913
Neðri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (246)

22. mál, eftirlit með fiskveiðum í landhelgi

Bjarni Jónsson:

Það getur verið að þetta hafi ekki mikla þýðingu í þessu tilfelli; en það hefir alt af mikla þýðingu að lögin séu réttlát. Þegar gera skal samþyktir um fiskiveiðar og alþingiskjósendur einir eiga þar atkvæði um, getur farið svo, að margir séu þar útilokaðir, sem eiga þar réttilega hlut að máli, og margfalt meira vit hafa á því sem verið er að gera, en margir alþingiskjósendur. Og þó að það kosti, að semja þurfi nýja skrá yfir þá menn, ætti það ekki að standa í vegi fyrir því, að réttlætinu yrði framgengt. Það er ekki rétt, að það fari alt af saman, að útgerðarmenn séu alþingiskjósendur. Það kemur þráfaldlega fyrir, að stórefnaðir útvegsbændur hafa ekki kosningarrétt, og geta átt mikið í húfi, ef óskynsamlegar ákvarðanir eru gerðar um atvinnuveg þeirra.

Mér er þetta ekkert kappsmál mín vegná. Þó að eg fari að gerast útvegsbóndi, hefi eg kosningarrétt. Það er ekki heldur vegna neins kunningja míns. En mér finst það hlægilegt, að alþingiskjósendur einir eigi atkvæði um þetta mál. Bóndi býr uppi í sveit, hefir aldrei á sjó komið og þekkir ekkert til sjávarútvegs. Hann hefir atkvæði um fiskiveiðasamþyktir, en stór-sjávarbóndi hefir ekkert atkvæði.

Það getur vel verið, að réttara hefði verið að tiltaka, að þeir einir ættu atkvæði um þetta, sem náð hefðu lögaldri. Eg skal gjarnan játa, að það var yfirsjón mín, að eg sló ekki þann varnagla á móti mótbárunum. Þó þykir mér sennilegt, að þetta hefði mátt skilja svo, að hér væri ekki verið að gera neinar undantekningar frá almennum ákvæðum. En ef mönnum er þetta þyrnir í auga, er ekki annað en að taka málið út af dagskrá, svo að eg geti lagfært breytingar.till. mína. Eg vil leyfa mér að skjóta því til hv. nefndar, hvort hún vill ekki unna mér og réttlætinu svo mikils, að hún sætti sig við að atkvæðagreiðslan bíði þangað til eg get komið með breytingartillöguna endurbætta.