14.07.1913
Sameinað þing: 2. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

Þingsetning í sameinuðu þingi

Ráðherra:

Eins og háttv. þingmönnum er kunnugt, hefur eitt af lagafrumvörpum þeim, sem aukaþingið í fyrra samþykti, ekki verið staðfest af konunginum, og er því fallið niður samkvæmt því, er fyrir er mælt í síðustu málsgrein 10. greinar í stjórnarskrá vorri. Það er frumvarpið um stofnun peningalotterís fyrir Ísland, sem borið var upp í neðri deild af þingmanna hálfu, og skömmu fyrir þinglokin afgreitt sem lög frá alþingi.

Þegar jeg lagði stjórnarfrumvörp fram í neðri deild 2. þ. m. og skýrði frá fjárhagsástandinu, lýsti jeg því yfir, að jeg mundi skýra alþingi frá ástæðunum fyrir því, að lotterílagafrv. er ekki staðfest, við fyrsta tækif æri í sameinuðu þingi.

Samkvæmt lotterífrv. þingsins átti landstjórnin að hafa heimild til að veita einkaleyfi til stofnunar íslenzks peningalotterís tilteknum mönnum, er aftur máttu selja það á leigu eða afhenda það hlutatjelagi. Var ákveðið, að stjórn lotterísins skyldi sitja í Kaupmannahöfn; og að þar skyldu drættir þess fram fara. Til þess að koma ekki í bága við einkarjett og hagsmuni danskra lottería var ákveðið, að eigi mætti selja seðla lotterísins í Danmörku nje nýlendum Dana, en hins vegar var heldur ekki leyfilegt að selja hluti í lotteríinu hjer á landi, að því undanskildu, að ráðherra átti að hafa heimild til að leyfa, að selja mætti á Íslandi sjálfu alt að því 1/50 hluta af leyfilegu seðlamagni lotterísins, og var þannig svo tilætlað, að lotteríið aðallega, eða nær eingöngu, hefði tekjur sínar af þegnum annara ríkja, þar sem leyfishafar gætu komið seðlum sínum út. Af þessu lotteríi átti að greiðast gjald til Iandssjóðs Íslands, er nema mundi á ári alt að 100 þús. kr. að minsta kosti, ef lotteríið kæmi á stofn, eins og tilætlað var. Það var þessi mikli væntanlegi tekjuauki, sem gekk í augun á mönnum og aðallega varð þess valdandi, að frumvarpið sigldi beggja skauta byr gegnum þingið, í því trausti, að með banninu gegn sölu seðla í Danmörku væri girt fyrir það, að lögin yrðu talin ríða í bág við einkarjett Klasselotterísins í Danmörku, og að það væri rjett, sem umsækendur höfðu borið fram við nefndina í N. d., að þeir hefðu vissu fyrir því, að mega reka lotteríið í Khöfn, ef þeir fengju leyfi íslenzka löggjafarvaldsins, eins og frá er skýrt í álitsskjali nefndarinnar, þingskj. 144. Alþ.tíð. 1912, bls., 261.

Um þetta mál voru fregnir flognar til Danmerkur löngu áður, en jeg kom til Hafnar 7. okt, f. á. til þess að leggja frumvarp alþingis fyrir konunginn, og höfðu komið fram allmiklar mótbárur móti því í dönskum blöðum, sem mjer voru þá ekki kunnar. Þegar jeg kom til forsætisráðherrans, Klaus Berntsens, til að heilsa honum, skýrði hann mjer þegar frá því, að danska stjórnin neyddist til að setja sig á móti því, að lotterífrv. öðlaðist staðfestingu í því formi, sem það var samþykt hjer, af því að það kæmi í bága við dönsk lög og danska hagsmuni, og skírskotaði hann til fjármálaráðherrans og dómsmálaráðherrans, er hvor um sig hefðu mótbárur fram að bera, hvor frá sínu sjónarmiði.

Mótbárur dómsmálaráðherrans, Bülows, voru aðallega tvær, í fyrsta lagi, að lagafrv., þrátt fyrir bannið gegn sölu seðla í Danmörku, kæmi í bága við dönsku lögin um fyrirkomulag Klasselotterísins frá 6. mars 1869. Eftir að ákveðið hefur verið í 1. grein þeirra laga, að stjórnin skuli láta fram fara undir umsjá sinni drætti í tveimur flokkum ár hvert á þann hátt, sem þar er nánar tiltekið, stendur svo í 2. gr. laganna:

„Al anden Foranstaltning af Lotto„spil her í Riget eller Kolligeren for „samme saavel som al Kolligeren her „i Landet for fremmede Lotteríer eller „Falbydelse af disses Lodsedler, ligesom „Besörgelsen af dermed í Forbindelse „staande Forretninger skal være for-„budt . . .“.

Þetta mætti þýða þannig á íslenzku : „Allar aðrar ráðstafanir til lottóspils „eða kaupendasmölun fyrir lottóspil hjer í ríkinu, svo og kaupendasmölun hjer „í Iandi fyrir útlend lotterí, eða sölu„framboð á seðlum þeirra, og sömuleiðis framkvæmd hvers konar starfa, sem „standa í sambandi við slíkt, skal vera „bannað“.

Dómsmálaráðherrann áleit það öldungis tvímælalaust, að þar sem eigi aðeins drættir lotterísins fyrirhugaða, heldur og öll stjórn þess og allar eða mest allar framkvæmdir og störf fyrir fjelagið ættu að fara fram í Kaupmannahöfn, firma þess því skrásetjast þar og varnarþing þess væri þar, jafnvel tryggingarsjóður þess geymdur þar, ef ráðherra Íslands ekki tiltæki annan stað, þá yrði því ekki neitað, að hjer væri að ræða um ráðstsfanir til lottóspils í Danmörku, er kæmu beint í bága við bannið í 2. gr. fyrnefndra laga 6. mars 1869.

Önnur meginmótbára hans var sú, að í frumvarpinu væri ákveðið, að sjerstök nefnd, er konungur skipar, og sem sitja skal í Khöfn, skuli leggja fullnaðarúrskurð á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttanna, hvort sem er meðan dráttur fer fram, eða eftir að honum er lokið. En slíkur fullnaðarúrskurður mundi ella bera undir dómstólana. Taldi hann það augljóst, að ekki væri unt án heimildar í dönskum Iögum að setja á stofn í Khöfn sjerstaka dómsnefnd eða dómstól, og þar með draga undan valdssviði danskra dómstóla mál, sem undir þau lúta að lögum þar í landi. Slíkt yrði ekki gert með íslenzkum lögum.

Fjármálaráðherrann Neergaard, sem er oss að góðu einu kunnur, og oft hefur verið oss Íslendingum vel, bæði er um sambandsmálið hefur verið að ræða og um lánaútveganir oss til handa, ljet í ljósi, að hvernig sem litið væri á lögfræðismótbárur dómsmálaráðherrans, er hann þó taldi á rökum bygðar, þá neyddust Danir samt til að setja sig á móti því, að Khöfn væri notuð sem heimili og verkstæði nýs lotterífyrirtækis, sem hefur það markmið að ná útbreiðslu sinni í öðrum ríkjum; hvað sem lotteríið hjeti, mundi það út á við verða skoðað sem danskt lotterí, sem Danmörk hefði veg og vanda af. Hverja skoðun sem menn hefðu á þeirri fjármálapólitík, að afla ríkissjóði tekna með því að efna til áhættuspila, væri eitt sameiginlegt öllum löndum, að hafa hinn megnasta ýmugust á því, að fje væri dregið út úr landinu með útlendum lotterígyllingum, enda væri það víða bannað með lögum: Danmörk hefði haft og hefði æ meiri og meiri ógagn og örðugleika út á við af lotteríunum, sem þar eru, ekki þó mjög af Klasselotteríinu, sem ekkert gerir til að koma seðlum sínum út í útlöndum og hefur mestan markað sinn inni í landinu sjálfu, heldur sjerstaklega og aðallega af hinu svonefnda Koloniallotteríi, sem hið fyrirhugaða íslenzka lotterí sjerstaklega var sniðið eftir.

Eins og menn vita, var það lotterí stofnað árið 1904 og átti að vera til þess að afla tekna handa nýlendum Dana í Vestindíum. Það átti að láta drætti sína fram fara á St. Thomas, en það kom brátt í Ijós, að það gat ekki þrifizt þar. Var þá sú breyting á gerð með lögum 6. apríl 1906, að leyft var, að drættirnir færu fram í Khöfn, og var einkaleyfið, sem veitt hafði verið tilteknum mönnum, jafnframt selt útlendum bankafjelögum, og er nú í höndum Hamborgar-peningamanna, er láta reka það með miklu kappi og selja ótæpt út um Iönd, án tillits til þess, hvort leyft er eða ekki Þessir menn munu vera hinir sömu, sem herra Philipsen ætlaði að selja íslenzka lotterísleyfið.

Fjármálaráðherrann ljet illa af þeim áhrifum, sem þar af leiðandi óánægja og stöðug kæruefni frá öðrum Iöndum hefði haft fyrir viðskiftin í öðrum fjármálum, kvað eftirgjald það, sem ríkinu áskotnast fyrir þetta lotterí, vera hina dýrustu peninga, sem ríkissjóður hefði, og væri þess kostur, að kaupa leyfið til baka með þolanlegum kjörum, mundi það þegar verða gert og lotteríið lagt niður að fullu. Ef enn væri bætt við í Khöfn nýju lotteríi, sem ræki með álíka áfergju starf sitt út um Norðurlönd og önnur Evrópulönd og á sama hátt og Kolonial-lotteríið, þá mundu vandr æðin enn aukast að mun, því að út í frá yrði öll áherzla Iögð á heimili þess og konungsvald það, er stæði bak við lögin. Þess vegna neyddist hann skyldu sinnar vegna til þess, að sporna við því eftir megni, þótt honum fjelli ,mjög illa, að þurfa að vera meinsmaður Íslands í þessu.

Jeg gat ekki fallizt á mótbárur dómsmálaráðherrans, sízt að öllu leyti, og sendi jeg honum meðal annars innlegg í málinu, sem ritað var af Iögfræðisráðanaut lotterífjelagsins, yfirrjettarmálafl.m. Just Lund í Khöfn. Ennfremur afhenti jeg honum skriflega rökfærslu, samda í íslenzku stjórnarráðsskrifstofunni, fyrir því, að ákvæði lotterífrumvarps alþingis um drætti lotterísins og þar að lútandi störf kæmi eigi í bága við 2. gr. Klasselotterílaganna frá 6. mars 1869, fyrst engir seðlar yrðu seldir í Danmörku nje neinar ráðstafanir gerðar til sölu þar í landi. því að þessi lagaákvæði miðuðu aðeins til þess, að koma í veg fyrir samkepni innanlands, en ekki til þess að vernda útlönd. Hann sat þó fastur við sinn keip, og 21. okt. daginn áður en halda skyldi ríkisráðsfund þann, er jeg átti að bera lög alþingis upp fyrir konungi, ritaði hann mjer ýtarlegt brjef í embættisnafni, þar sem hann endurtekur mótmæli sín og röksemdir, og heldur fast við, að frumvarpið bæði á einn og annan hátt brjóti bág við lög í Danmörku.

Jeg hafði þannig fulla vissu fyrir því, að konunginum yrði ráðið frá að staðfesta frumvarpið, og varð þá að taka ákvörðun um, hvað gera skyldi. Það virtust öll líkindi, svo jeg ekki nú kveði fastara að, fyrir því, að konungurinn mundi ekki, gegn svo ákveðnum mótmælum hins danska ráðaneytis síns, sjá sjer fært að ákveða, að lotteríið skyldi samt stofnast í Khöfn, og að frumvarpinu þannig yrði synjað staðfestingar, þrátt fyrir mínar tillögur. En undir þá synjun hefði jeg ekki sjeð mjer fært að rita með konungi. Jeg hefði þá þegar orðið að beiðast lausnar, og konungur orðið að fá sjer annan ráðgjafa. Jeg þykist nú sjá, að sumum háttv. þingmönnum mundi hafa þótt það nokkur bót í böli, en af ýmsum ástæðum komst jeg að þeirri niðurstöðu, að það mundi eigi vera rjett gert af mjer, að svo stöddu, að stofna til slíks. Í fyrsta lagi græddi málið sjálft alls ekkert á því, að því væri telft til skipbrots þá þegar, áður sjeð var fyrir endann á því, hvort ekki mætti lánast að bjarga málinn við á einhvern annan hátt. Í öðru lagi stóðu fyrir dyrum málaleitanir um annað margfalt stærra og mikilvægara mál, sem mikill meiri hluti alþingis hafði falið mjer að framkvæma sem ráðherra. Enginn gat vitað þá, til hvers þær málaleitanir mundu geta leitt. Jeg varð að álíta það einslegan vilja mikils meiri hluta þingsins, að tilraunin yrði gerð; en ef jeg hefði sett þetta mál á odd og farið frá vegna ágreinings um það við konunginn og hið danska ráðaneyti hans, þá voru allar þær málaleitanir fyrirfram útilokaðar og að engu gerðar.

En auk þess var það fyrir mjer aðalatriðið í þessu efni, — að jeg gat ekki betur sjeð, en að það gæti verið háskalega villandi að gera þetta mál, eins og það lá fyrir, að stjórnskiftamáli. Það hefði út á við getað skilizt svo, að það væri vilji þings og stjórnar að halda því til streytu, að íslenzkt löggjafarþing gæti beitt sjer í Danmörku til þess að gera þar ráðstafanir um störf, framkvæmdir eða stofnanir þar í landi, að fornspurðu hinu danska löggjafarþingi, eða jafnvel í óþökk þess eða danskra stjórnarvalda. En þetta er og hefur verið fjarri til ætlun og vilja alþingis og stjórnar. Alþingi samþykti lotterílögin í þeirri sannfæringu, að þau kæmu ekki í bága við dönsk lög nje hagsmuni, og í því trausti, að Danir hefðu ekkert á móti því, að störf þau, sem lögin gera ráð fyrir að fari fram í Danmörku, væru framkvæmd þar, heldur mundu fremur góðfúslega vilja styðja að því, að landssjóður gæti náð þeim tekjum, sem þingið hugði — hann mundu geta náð með þessu móti, Dönum að meininagalausu, á líkan hátt og þeir áður hafa samþykt og stutt að því, með umboðslegum fyrirskipunum, að ákvæði í farmannalögum vorum, skrásetningarlögum, tolllögum o.fl., er gera ráð fyrir störfum af hendi danskra embættismanna, gætu komið að notum.

Hefði þingið vitað það, sem nú er fram komið, en tímaleysi og annríki gerðu ómögulegt að rannsaka á þeim stutta tíma, er frumv. var til umræðu á þinginu, þá hefði annað orðið uppi á teningnum.

Jeg varð að telja það nauðsynlegt, ekki sízt með tilliti til væntanlegra samninga um aukið sjálfstæði Íslandi til handa, að ekkert það væri gert, sem átyllu gæti gefið til þess að segja, að alþingi vildi teygja sig út fyrir valdsvið sitt, inn á valdsvið Dana, enda þarf ekki mikla skarpskygni til að sjá, til hvers ofmikið harðfylgi við Khafnarákvæði frumvarpsins gæti leitt; ef Danir af sinni hálfu vildu fara inn á samskonar braut gagnvart Íslandi, og setja hjer á landi upp með dönsku lagaboði stofnanir eða fyrirtæki, sem Íslendingar teldu heyra undir sitt löggjafarvald, og jafnvel teldu sjer skaðleg, í því skyni að útvega ríkissjóði tekjur eða aðra hagsmuni, og undanskyldu það með dönskum lögum íslenzku dómsvaldi.

Jeg varð því að álíta heppilegast, eins og á stóð, eða skyldu mína gagnvart þjóð og þingi, að fresta því að svo stöddu, að bera málið upp fyrir konungi. Tillöguskjal mitt til konungs, sem hafði verið tilbúið, var því ekki lagt fram á ríkisráðsfundinum 22. október, þegar hin önnur ,frumvörp voru þar uppborin og staðfest, og málinu ekki hreyft í það skifti.

Ríkisþingsmenn, er jeg siðan átti tal við um málið, tóku því fjarri, að nokkur von gæti verið um, að ríkisþingið gæti fengizt til að samþykkja lög, er viðurkendu íslenzka lotteríið í Khðfn eða gæfu samþykki til starfsemi þess þar. Jeg átti þá tal við hr. Knud Philipsen, hinn eina af leyfisbeiðendum, sem staddur var í Khöfn, og inti hann eftir, hvort þess mundi ekki kostur að leyfið væri notað, þótt þær breytingar væru gerðar, að stjórn lotterísins og drættir væri flutt til Reykjavíkur Hann taldi á því ýms tormerki, sennilega hin sömu, sem hann hafði áður látið í ljósi við þingnefndina. En auk þess kom hann með eitt, sem jeg hafði ekki heyrt áður. Hann sagði, að það mundi vekja alt of mikla athygli á pósthúsum annara landa, ef svo mörg brjef kæmu frá Íslandi í einu, sem lotterístjórnin mundi þurfa að senda út til þess að bjóða fram seðla sína o. s. frv. Sagði hann mjer, að Koloniallotteríið þyrfti stöðugt að skifta um lit og lag á umslögum sínum og gera brjefin torkennileg, því ella ættu þeir á hættu, að póststjórnin í Hamborg, eða annarstaðar á Þýzkalandi, tæki öll brjefin og brendi þau, ef hún vissi, hvaðan þau væru, og eins mundi fara med brjef „íslenzka lotterísins“. Þó lofaði hann að bera þetta undir peningamenn frá Hamborg, sem hann var í samningum við eða var umboðsmaður fyrir viðvíkjandi lotterísleyfinu, og kvað þeirra von innan skams til Khafnar.

Nokkru síðar kom hann til mín eitt kvöld og sagði mjer, að nú sætu lotterímennirnir á ráðstefnu á tilteknu Hóteli, og hefðu sent sig til þess að tjá mjer, að þeir vildu ekkert hafa með lotteríið að sýsla, ef það væri ekki í Khöfn, eins og frumvarpið fyrirhjeti. En hinsvegar vildu þeir gera annað tilboð, sem verða mundi; bæði þeim og Íslandi ennþá arðsamar en nokkurn tíma lotteríið. Það var það, að þeim yrði veitt einkaleyfi til þess að setja upp á Þingvöllum ofurlítinn spilabanka fyrir veðspil, í líkingu við MonteCarlobankann; þar mundu þeir reisa vegleg stórhýsi með öllum nútíðar vellystingum fyrir bankann og gesti hans, og þangað mundu streyma þreyttir lífsnautnamenn, sem vanir væru að vera í Monte Carlo á veturna, þegar þeim banka væri lokað á sumrin, og brúka ógrynni fjár. Ljet hann sem Ísland mundi geta fengið alt að því hálfa miljón á ári fyrir þetta, án nokkurrar áhættu, því umbjóðendur sínir mundu ganga að því, að banna öllum Íslendingum stranglega allan aðgang að spilabankanum. — Jeg sá mjer ekki fært að takast á hendur að koma þessari nýju gullflugu í munn alþingis, og skyldum við talið þar með. Síðan sá hann sig þó um hönd og vildi, að lotterílögin væru útgefin sem bráðabirgðalög með sama innihaldi eins og alþingisfrv., að öðru leyti en því, að drættir og heimilisfang lotterísins væri flutt til Reykjavíkur; en með því það kom á daginn, að þessi síðari málaleitun var á því bygð, að öll framkvæmdarstjórn fjelagsins mundi geta farið fram í Khöfn eftir sem áður, í blóra við Dani, og frágangssök þótti að grípa til svo óvenjulegra ráða, sem bráðabirgðalög eru, nema þá því aðeins, að full trygging væri fyrir því, að leyfisbrjef yrði þá tekið og notað í nokkurt árabil, svo að tekjur, sem landssjóð munaði nokkuð verulega um, væru vísar honum til handa, fjell þetta brátt niður. Þess skal getið, að mjer bárust skömmu síðar brjef og áætlanir frá dönskum manni, að nafni Birger Hansted, þar sem hann gerir mjög lítið úr þeim hagnaði, sem landssjóði var ætlaður eftir lotterífrumvarpinu, og býðst til að láta stjórninni í tje plön til annars lotterís, sem geti gefið landssjóði tekjur frá 800 þúsund til miljón kr. á ári, ef landstjórnin vilji reka lotteríið sjálf. Ef menn hugsa til að taka lolterímálið upp að nýju, gæti þetta brjef og útreikningar þess ef til vill verið til samanburðar; en jeg fyrir mitt leyti gat ekki tekið það í fullri alvöru, og hvarf heim til Íslands aftur í hsust saddur af lotterí-tali að sinni.

Í febrúar barst mjer enn brjef frá hr. Philipsen, þar sem hann gerði mjer aðvart um, að dómsmálaráðherra Dana, sem hafði haldið því svo fast fram, að það. væri brot á móti Klasselotterílögunum, að íslenzka lotteríið hefði drætti sína í Khöfn, hefði nú lagt fyrir ríkisþingið nýtt lagafrumvarp um takmörkun á rjetti til verzlunar með lotteríseðla, og væri bannað í því frumvarpi, að láta lotterídrætti fram fara í Danmörku utan lögviðurkendra lottería, eða selja lotteríseðla frá Danmörku til útlanda, er óneitanlega bendir í þá átt, að hann hafi síðar komizt að annari niðurstöðu um röksemdir sínar, þótt hann hinsvegar haldi því fram, enn þann dag í dag, að þetta hafi verið sett í hið nýja frv. hans aðeins til vonar og vara og til þess að fyrirbyggja misskilning, en frumvarpið hafi verið framkomið af öðrum ástæðum, út af sænskum kærumálum um ólöglega sölu á lotteríseðlum eða ávísunum upp á hluta af rjettindum eftir lotterí- seðlum. — Ætlaðist hr. Philipsen til, að jeg gerði tilraun til að fá ráðherrann til að hætta við þetta frumvarp. En það var hvorttveggja, að jeg vissi vel fyrirfram, að það mundi ekki vera til neins, enda var það, eins og jeg áður hef tekið fram, alls ekki skírskotun dómsmálaráðherrans til Klasselotterílaganna, sem í minum augum gerðu það ófært að halda málinu til streytu, heldur alt aðrar ástæður. Og önnur meginástæða dómsmálaráðherrans, um dómnefndina, stóð eftir óhögguð af þessu.

Þetta nýja frumvarp gekk óbreytt og umræðulítið gegnum ríkisþingið, og var staðfest af konungi sem lög 1. apr. þ. á. —Þegar jeg kom til Hafnar nú fyrir þing, var það þannig útilokað þegar af þessari ásæðu, að lotterífrumvarp alþingis gæti öðlast konungsstaðfestingu, án þess að hreyfa þyrfti neinum öðrum ástæðum móti frv. Á ríkisráðsfundi 28. maí þ. á. bar jeg þó lotterífrumvarpið upp fyrir konunginum á þann hátt, að jeg gerði grein fyrir efni þess og tilgangi, og skýrði frá því, að jeg hefði verið búinn að skrifa staðfestingartilllögur í haust, en vegna ýmsra mótbára gegn frumvarpinu frá hlið danskra ráðgjafa, sem jeg hefði eigi getað fallizt á, en viljað rannsaka nánar, hefði jeg talið rjett að fresta málinu til vorsins. En á því tímabili hefðu verið samþykt í Danmörku ný lög þess efnis, er gerði það að verkum, að nú yrði því ekki mótmælt, að alþingisfrumvarpið kæmi í bága við dönsk lög. Undir þeim kringumstæðum kvaðst jeg ekki geta vænzt eftir því, að konungurinn staðfesti lotterífrv. alþingis, eins og það liggur fyrir, beint ofan í lög, er hann sjálfur hefði nýstaðfest, en hinsvegar vildi jeg heldur ekki ráða til synjunar, og lagði því til, að mjer væri falið að skýra alþingi frá hinum breyttu kringumstæðum, frá því er alþingi samþykti frumv. og þangað til það var borið upp fyrir konungi, svo alþingi gæti tekið til nýrrar yfirvegunar, hvað gera skyldi. — Konungurinn fjelst á þetta form, og lýsti ánægju sinni yfir því.

Það er þannig ekki rjett, sem einstöku menn hafa verið að breiða út og bera í eyru þingmanna, að jeg hafi látið fyrirfarast að bera mál þetta upp fyrir konungi. Hvorki í stjórnarskránni eða í öðrum lögum er neitt fyrirskipað um það, hvenær málin skuli uppborin. Það liggur í hlutarins eðli, að það á að gera svo fljótt sem atvik leyfa fyrir hvert einstakt mál. En ástæður geta verið svo misjafnar. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir því, eins og jeg vjek að í upphafi máls míns, að það komi fyrir, að konungur hafi ekki staðfest lagafrumvarp, sem alþingi hefur fallizt á, á undan næsta reglulegu alþingi, og ákveður, að þá falli frv. niður, án synjunar. Biðin getur þannig, þegar ekki er um aukaþing að ræða, orðið alllöng, alt að tveim árum, sem það er óafgert, hvort lagsfrv. verður staðfest eða ekki, án þess nokkurri ábyrgð varði. En hitt er ábyrgarhluti, að flana að staðfestingarleitunum, sem orðið geta til tjóns.

Það er gert mikið úr því af sumum mönnum, hversu mikla fjárvon landssjóður missi með því að verða af þessum lögum, og er það ekki sparað, að kenna mjer um, að landssjóður verði af stórmiklum og örnggum tekjum árlega. Jeg vil gagnvart þessu leyfa mjer að leiða athygli að því, að jafnvel nefndin í neðri deild 1912 tekur það fram í nefndaráliti sínu, að valt væri að byggja á mjög miklum tekjum af lotteríinu til frambúðar, og í umræðunum á þingi kom það einnig fram, að sumir bjuggust við, að hjer gæti verið um fallvalta fjárvon að ræða. Jeg fyrir mitt leyti hef ekki getað varizt þeirri tilfinning, eftir að jeg kyntist málinu nánar, heyrði frásagnir og skýringar hr. Philipsens um fyrirhugaða starfsemi, starfsaðferð og starfsvið lotterísins, tillögurnar um spilabankann á Þingvöllum í lotterísins stað, tilboðið um að flytja heimili og drætti lotterísins hingað heim, ef um það fengjust brágabirgðalög, en án alls áframhalds í því efni nú, er hægðarleikur væri að fá lögin með þeim breytingum samþykt aftur í skjótu bragði og á löglegasta hátt, — jeg hef ekki getað varizt því, segi jeg, að sú tilfinning hefur orðið æ ríkari hjá mjer, að hjer væri meira en lítið laust og losaralegt í spili, og er mjer næst að halda, að lotteríið hefði annaðhvort aldrei komizt á fót, jafnvel þótt lögin hefðu öðlast staðfestingu óbreytt, eða fallið fljótt niður aftur. Í því sambandi minnist jeg þess, að hr. Philipsen neitaði því í Khöfn, að það hefði nokkurntíma komið til mála, að leyfisbeiðendur settu nokkra tryggingu fyrir því, að Concession yrði notuð, og um ábyrgð fyrir framhaldi gat þá auðvitað ekki verið að ræða. Skorður þær, er ríkin reisa við ólöglegri lotterísölu frá öðrum löndum, sem þetta fyrirhugaða lotterí svo mjög átti að lifa á, Islandi til lítils sæmdarauka eða lánstraustsbóta, verða æ sterkari og sterkari. Bæði Noregur og Svíþjóð eru að undirbúa ný lög og ráðstafanir í því skyni að koma í veg fyrir fjárdrátt út úr landinu með erlendum lotteríviðskiptum; annarsstaðar, þar sem markaðar er von, eru einnig takmarkanir vaxandi.

Jeg þykist fyrir mitt leyti sannfærður um, að úr því sem komið var, hafi eigi verið unt að gera annað en jeg gerði, eftir að það var orðið augljóst, að Danir þóttust ekki geta unað því, að lotteríið hefðist við og færi fram í Khöfn í blóra við þá. Mjer þykir það vel sloppið, að þetta frumvarp líður hjá, án þess að nein viðurkenning liggi fyrir af Íslendinga hálfu um það, að alþingi hafi farið út fyrir valdsvið sitt í samþykt þess, og hverfi úr sögunni eingöngu með þeim rökum, að kringumstæður hafi breyzt frá því, að alþingi samþykti frv., þangað til það var borið upp fyrir konungi. Jeg álít, að jeg eigi fremur þakkir skilið en aðfinslur fyrir það, hvernig jeg hef farið með málið úr því sem ráða var, er Danir gátu ekki samþykt það, en vjer höfðum bygt á samþykki þeirra. En um það er þingsins að dæma, en ekki mitt. Jeg skal svo ekki hafa þessa skýrslu lengri. Hún mun þykja orðin nógu Iöng, en jeg er auðvitað fús til þess, að svara spurningum um einstök atriði þessu máli til skýringar, ef óskað er eftir og mjer er unt.

Þá skal jeg ennfremur gefa stutta skýrslu um tvö mál önnur. Í fyrsta lagi um afstöðu málaleitana þeirra við Norðmenn, sem háttv. þingmenn vita að fram hafa farið, útaf þingsályktun þeirri, sem, að gefnu tilefni frá hálfu utanríkisstjórnarinnar í Noregi, var samþykt á síðasta þingi, þess efnis, að neðri deild. tjáði sig ekki ófúsa á að nema úr gildi lög nr. 27, 11. júlí 1911, þar sem útlend síldveiðaskip eru skylduð til að hafa jafnan báta sína uppi á skipinu og nætur inni á skipinu, þegar þau koma á landhelgissviðið, ef stjórnin gæti komizt að samningum við Norðmenn um afnám tolls á íslenzku saltkjöti og álitlega lækkun á tolli á innfluttum íslenzkum hestum. Út af þessu erindi fór jeg til Noregs í fyrra haust, til þess í samvinnu við sendiherra Dana í Kristjaníu, að eiga tal við þáverandi utanríkisráðherra Noregs og ýmsa aðra stjórnmálamenn um málið. En svo vildi til, að þá stóðu yfir kosningar til stórþingsins, sem höfðu það í för með sjer, að stjórnin varð að fara frá völdum. Öll flokkahlutföll breyttust, og var þá þegar augljóst, að ekki var hægt að gera neina samninga á því stigi, eða að minsta kosti vildi stjórnin þá ekki afgera neitt, enda var hjer um ágreiningsmál að ræða milli bændaflokks og þeirra, er að sjósókn og fiskiveiðum vilja sjerstaklega hlynna. Það varð þessvegna ofan á, eftir nokkra viðtalsfundi um málið, þar sem það þegar var orðið Ijóst, að af hálfu Norðmanna mundu verða gerðar kröfur til meira en afnáms laganna, sem jeg nefndi, gegn þeim tilslökunum, er hjer var krafizt, ef nokkur kjöttollslækkun væri framkvæmanleg þar á annað borð, að bíða með frekari samningatilraunir þangað til í maí í vor. Þá bjóst jeg við að koma þar aftur og eiga þá tal við hina nýju stjórn, og það gjörði jeg Þá var Gunnar Knudsen orðinn „Statsminister“, og hann er eindreginn tollverndarmaður, og þeim megin eru einnig bændur og meiri hlutinn, svo að líkurnar voru nú enn minni en áður fyrir því, að samningar tækjust. Að vísu eru þeir menn í ráðaneytinu, sem ekki eru máli þessu fráhverfir, en þeir eru þar í minni hluta. Síðan í fyrra hefur mikið verið um þetta skrifað í blöðin í Noregi. Það hefur meira að segja verið sótt af allmiklu kappi af blöðum og fulltrúum fiskiveiðabæjanna á suður- og vesturströnd Noregs, að fá þessum samningum komið á við Íslendinga, og hafa verið sendar ýmsar sendinefndir og áskoranir til Stórþingsins í því skyni. En bændurnir á þingi standa hins vegar eins. og veggur á móti, og hyggja, að norskar sveitaafurðir, kjötið, muni falla í verði, ef slakað er til á tollinum, og hafa þeir yfirhönd. Hjer á Íslandi er þetta sveitamanna hagsmál, en fremur á kostnað sjáfarmanna. Í Noregi alveg þvert á móti. Að vísu er enn þá ekkert endanlegt ákveðið um það af Norðmönnum, að hafna samningum í þessa átt, en jeg fyrir mitt leyti hygg, að þeir muni ekki verða afgjörðir fyrst um sinn. Og í rauninni álít jeg, að það sje enginn skaði fyrir Íslendinga. Jeg álít, að vjer ættum ekki að leggja mikið í sölurnar til þess, að fá afnuminn hinn norska kjöttoll. Hjeðan af landi fluttust 1912 um 20 þús. tunnur af kjöti alls, og þar af vorn seldar og notaðar 10–11 þús. í Danmörku, 4 þús. í Svíþjóð og til Noregs fluttust um 5 þús. tunnur alls. En af þeim er ekki tekinn tollur nema af svo sem 2 þús., því að „proviant“ skipa er ekki tollaður í Noregi, og það kjöt, sem ætlað er til þess að selja það skipum, er lagt á „Frilager“. Þannig verður tollurinn, sem nú er 5 au. á pd., fremur lítill og vandasamt að vita, hverjum það yrði að góðu, ef hann væri af tekinn. Vjer hugsum oss, að Ísland fái þeim mun meira fyrir kjötið, sem tollinum nemur, en Norðmenn vilja fá kjötið þeim mun ódýrara. Líklega skiptist hagurinn milli beggja og er þá ekki mikið í hlut. Og ekki er nauðsyn á þessu til þess, að útvega meiri markað fyrir kjötið, þess er engin brýn þörf, því að hann höfum vjer meiri en vjer getum fullnægt. Það er hægt að selja miklu meira kjöt, en vjer eigum til, fyrir hátt verð, hærra en nokkurn tíma fyr.

Jeg varð var við það í Noregi, að ýmsir þeir, er í blöðin rita, álíta, að Norðmenn sjeu hjer hörðu beittir í álögum og atvinnuhöftum. En þetta er alls ekki rjett á litið. Undanfarin ár hefur einmitt verið farið svo væglega í sakirnsr við þá, t. d. að því er snertir. heimilisfang þeirra, er fiskað hafa fyrir Norðurlandi, að aðrar þjóðir hafa fengið þá skoðun, að Norðmenn nytu hjer einhverra sjerstakra vildarkjara. Þannig hef jeg orðið fyrir því fyrir nokkrum árum, að sendiherra annars ríkis kom til min á skrifstofuna í Kaupmannahöfn, til þess að fara þess á leit, að hans landar fengju sömu rjettindi í fiskveiðum við Ísland, eins og Norðmenn hefðu. Þetta sýnir, að vjer höfum ekki verið harðir við þá, heldur vægir. Það sjest opt í norskum blöðum, að vjer höfum lögtekið ákvæðið frá 11. júlí 1911, um að skipin skuli hafa báta sína á þilfari í landhelgi, af klókindum, til þess þar með að geta neytt þá til tolllækkunar. En jeg vil grípa tækifærið til þess að lýsa því yfir, að þetta er ekki rjett, eins og allir menn hjer vita. Það var gjört beint eftir ósk eftirlitsskipsins, með því að ókleyft þótti ella að hafa eftirlit með útlendum síldveiðaskipum, er reka veiðiskap nyrðra. Síðan hafa menn að vísu komizt að raun um það, að þessi regla getur komið órjettlátlega niður, því að stórskipum gerir þetta ekkert til, en það er mjög örðugt fyrir smærri skip, svo að segja má, að þetta sje að leggjast á þá, sem fátækari eru, þótt engin lögbrot sje höfð í frammi af þeim í veiðiskapnum. Þessvegna var það ekki nema rjett og mannúðlegt, að gera Norðmönnum kost á að fá þessu breytt, ef hitt kæmi í móti, en eins og jeg hef sagt, eru litlar líkur til þess, að svo verði, altjend fyrst um sinn, og hef jeg ekki frekara frá þessum málaleitunum að inna í bráðina.

Þá vildi eg minnast örfáum orðum á horfurnar fyrir framkvæmd laga um einkasölu á steinolíu. Þessi heimild, sem stjórninni var gefin á síðasta þingi, var sprottin af því, að steinolía þótti þá óhóflega dýr, sjerstaklega til þess að reyna að vernda „motor“-bátaútgerðina, sem þá þótti þurfa að borga meira en góðu hófi gegndi fyrir olíuna. Jeg gerði þá og þegar eftir þing ráðstafanir til þess, að reyna fyrir mjer á Englandi, í Ameríku og víðar, til þess að vita hvort þess væri hvergi kostur, að fá steinolíu með vægara verði í stórkaupum. Jeg komst fljótt að þeirri niðurstöðu, að óframkvæmanlegt væri, að landssjóður tæki að sjer þessa einkasölu, eins og jeg þegar hafði sýnt fram á og rökstutt á þingi. Hitt var hugsanlegt, að sterkt innlent fjelag gæti gjört tilraun, en þá þurfti að grenslast eftir því, hver trygging væri fyrir forsvaranlegum framkvæmdum. Jeg fjekk eitt skilyrðisbundið tilboð frá auðugum manni útlendum að vísu, en sem mundi verða í sambandi við hjerlenda menn, svo að allt væri löglegt. Hann er enskur að ætt, dugnaðarmaður mikill, og bjóst hann við, sð þetta mundi hepnast fyrir sjer og að hann gæti sett fulla tryggingu fyrir því, að olíaan fengist næg og með sömu sæmilegum kjörum um land alt. En þegar jeg kom til Leith í september, var maðurinn þar kominn í veg fyrir mig til þess að finna mig og taka tilboð sitt aftur. Kvaðst hann þá hafa reynt fyrir sjer á einum 7–8 stöðum í London, Ameríku og viðar, en alstaðar var sama svarið. Að ekki væri mögulegt að útvega steinolíu fyrir það verð, er hún var þá seld hjer fyrir um land allt, því að eftirspurnin væri svo mikil, að ekki væri einusinni unt að fullnægja gömlum viðskiftavinum. Jeg hef brjef þessu viðvíkjandi, en hjer er ekki tími eða tækifæri til að fara nánar út í að skýra frá þeim þau staðfesta hið sama, að kjör þau, er menn njóta hjer, sjeu ekki lakari en annarsstaðar, í álfunni og ekki nein líkindi til betra í bráð. Þó varð eitt fjelag, „Fiskiveiðafjelag Íslands“ til að sækja um einkarjett sjer til handa til steinolíuflutnings hjer í land. En það gat ekki sýnt skilríki fyrir því, að það hefði bein í hendi til þess að taka verzlun þessa að sjer, svo að stjórnin varð að álíta það óforsvaranlegt uppá lausa von þeirra manna, er að því stóðu, að banna öllum öðrum innflutning á vöru þessari víðsvegar um landið, og hefði að minni hyggju getið af því flotið hinn mesti hnekkir, ef veitt hefði verið einkaleyfi án fullnægjandi trygginga. Hið eina, sem jeg hef getað fengið framgengt í þessu máli er það, að D. D. P. A. hefur lofað því, að hækka ekki verðið hjer þrátt fyrir vörutollinn og hækkuð flutningsgjöld hjá sameinaða gufuskipafjelaginu, heldur skuli því verða haldið í sömu skorðum og í öðrum löndum að rjettu tilliti til afstöðu Íslands. Oss verður þannig ekki misboðið fremur en öðrum þjóðum í Evrópu.

Jeg hef ekki sjeð ástæðu til þess, að fara að semja nýtt lagafrv. um þetta mál, því að þótt Iögin frá því í fyrra sjeu gölluð, þá mætti þó ef til vill grípa til þeirra, ef úr hófi keyrði, og eitthvert tækifæri byðist. En það er erfitt við þetta að fást og það er svo víðar í heiminum, en hjer. „Hringarnir“ eru svo voldugir, að naumast má rönd við reisa. Þýzka ríkið hefir reynt það, en ekki tekizt, og er þó ólíku hægra um vik fyrir aðra eins stórfiska og þýzka ríkið er, heldur en okkar litla landi, sem ekki notar meiri olíu samtals en einn stórkaupmaður umsetur erlendis. Jeg veit, að því hefur verið haldið fram hjer í blöðum, að það sje miklu hægra fyrir svo litla þjóð, sem vjer ernm, að útvega sjer nægar birgðir, heldur en fyrir stórt ríki. En þetta er misskilningur. Þýzkaland getur keypt upp alla steinolíuframleiðslu heilla stórfjelaga, svo að þau þurfa enga samkeppni að hræðast. En þau steinolíufjeIög, sem í trássi við „hringinn“, selja smáslatta, eins og við þurfum, og hafa í mörg önnur horn að líta, eiga allskonar samkeppniskúgun á hættu.

Það er margsjeð og reynt, að þegar einhver fjeiög, lönd eða landspartar, hafa ætlað að fara að taka sig útúr, þá hafa stórfjelögin neytt þau með samkeppninni til þess að hætta. Þessvegna er það hæpið, að nokkurt steinolíufjelag færi að hætta á þetta fyrir okkur næsta ár, eða næstu ár, og hygg jeg, að, að svo stöddu sje ekki frekara við þetta mál að gera.

Jeg hafði ætlað mjer að gefa ennfremur stutta skýrslu um tilboð, sem jeg býst við að komi frá Noregi um gufuskipaferðir hingað með hringferðum kringum landið. Jeg bjóst við að fá fulla vitneskju um þetta með skipinn „Flóra“ frá forstjóra fjelagsins. Þetta varð þó ekki, en samkv. brjefi sem jeg fjekk frá honum er von á nánari upplýsingum eptir fáa daga, og mun jeg því geyma þetta þangað til, og gefa þá samgöngumálanefndinni skýrslu mína.