13.09.1913
Sameinað þing: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jósef Björnsson:

Jeg hef ásamt tveim háttv. þm. leyft mjer, að koma fram með brtill. á þgskj. 879, og vænti jeg þess, að þessi brtill. verði samþykt, því hún miðar ekki til annars, en að tiltaka hversu mikið áfengi sendiræðismennirnir megi flytja inn á ári. Og mjer þykir það sjálfsagt, að fyrir því sjeu sett takmörk, því þótt mönnum þessum megi treysta til að fara ekki lengra en leyft er, þá á og má leyfið ekki vera takmarkalaust, því það gæfi tilefni til þess, að einhver kynni að finnast, er misbrúkaði það. Á móti þessu sje jeg enga ástæðu, er hægt sje að telja frambærilega. Verði þessi brtill., mót von minni, ekki samþykt, þá greiði jeg óhikað atkvæði á móti frumvarpinu.