13.09.1913
Sameinað þing: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Jón Ólafsson:

Háttvirti forseti ! Það var sitt hvað í ræðu hv. 6. kgk, þm., sem jeg vildi svara. Meðal annars tók hann óstint upp orð hv. 1. þm. K.-G. um, að Danir væri fyrirmyndarmenn í fyrirkomulagi bankamála og lánsstofnana. Ef hann hefur ekki heyrt þetta fyrri, þá er það af því, að hann, svo margfróður maður sem hann er, les annað meir en fjármálafr æði. En jeg get sagt, að þeir þykja fyrirmyndarmenn í að setja upp fyrirmyndarstofnanir í þessum efnum, t. d. „Landmandsbanken“ og „Kreditforeningerne“. Og þetta er viðurkent um allan heim, og það svo, að próf. Frederiksen var fenginn til Ástralíu, til þess,að koma þar upp stofnunum með líku fyrirkomulagi. Og virðist það nægileg sönnun þess, að slíkar stofnanir Dana eru taldar fyrirmynd. En þótt þeir eigi einstaka rotna fjármálamenn eða einstöku rotin fyrirtæki, þá kemur það fyrir í öllum löndum, og snildarfyrirkomulag beztu stofnana getur ekki fyrirbygt, að aðrar stofnanir Ijelegar sjeu til í Iandinu. Þá þótti mjer hann nokkuð gamaldags, þegar hann sagði, að við gerðum okkur að leigu í liðum útlendra auðkýfinga. Jeg held, að maður hafi heyrt þann són áður. Hann klingdi furðanlega í eyrum vorum um það leyti, sem Íslandsbanki var stofnaður.

Það er kynleg og merkileg sjón, sem jeg sje fyrir augum mjer og allir geta sjeð, sem ekki eru blindir. Hvar sem við lítum, blasa við oss óþrotlegar auðsuppsprettur þessa lands, og lítt notaðar eða , alls ekki. Þá miklu gullnámu, sjóinn, við strendur vorar, nota útlendingar miklu meira en vjer, af því að þeir hafa fje til þess, en oss brestur það. Og þó hafa þeir fáu Íslendingar, sem kraft hafa til að nota hann, tiltölulega meiri arð af honum, en útlendingarnir, því landinn fiskar meira og verkar betur fiskinn. Í grasrækt og heyskap erum vjer mörgum öldum á eftir tímanum. Gullkista Íslands á landi, suðurlandsundirlendið, liggur lítt notað og þá með fornaldaraðferð — nokkuð fyrir þekkingarleysi, en mest fyrir fjeleysi og fyrir hreppapólitík og skammsýni þjóðfulltrúanna.

Á hverjum þingmálafundi í hverju kjördæmi er ár eftir ár þingið beðið, að efla landsbankann og útvega fje inn í landið til nytsamra atvinnufyrirtækja.

Það er fjeleysi, til að reka atvinnu sína, sem mest bægir alþýðu þessa lands. En þegar menn skortir gullið, þá verða þeir að kaupa það. Gullnámurnar íslenzku hafa ekki reynzt að geyma annað en tál og vonbrigði — sem við var að búast. En gullsins þurfum vjer, eða gjaldeyris, sem á því hvílir, þ. e. lánstrausts. En gullið eða lánstraustið hefur sitt verð eins og annað. En vjer getum ekki ráðið verðinu á því; því ræður heimsmarkaðurinn. Og ef vjer þurfum lánstrausts, verðum vjer að kaupa það því verði, sem það er falt fyrir. Það fæst, ef nógu vel er gefið fyrir það. (G. B.: Gamla sagan um hljóðpípuna !) Hún á hjer ekki við, sagan sú, því að hljóðpípan var glingur. Fasteignalánskjör hjer á landi eru alt of ódýr. Hvergi í öllum heimi eru lán gegn fasteignum veitt svo ódýr sem hjer, það mjer er kunnugt. Þó menn yrðu að borga 6% árlega af þeim eða vel það, þá væru það vildarkjör. Það, sem bagar mönnum hjer, er það, að peningar fáist alls ekki eða þá alls ónógir, en alls ekki vaxtahæðin nje afborgunarkjörin. Fje, sem varið er til arðsamra fyrirtækja, gefur svo mikinn arð hjer á landi, að vel er tilvinnandi að borga 6% og vel það. Annarsstaðar í heiminum er víða borgað 8%, 10% og 12% í vöxtu af fje. Það, er hvervetna svo, að þar sem gæði lands og lagar, auðsuppsprettur lands eru lítt notaðar, þar standa menn sig við að gefa hæsta vöxtu, og svo er einmitt hjer. Það, sem fyrst er á að líta fyrir lántakandann, er það, hvern arð lánsfjeð getur gefið honum. Eftir því, hvern arð peningarnir geta gefið lántakanda, skynsamlega notaðir, eftir því (og því einu) fer það, hvað háa vöxtu hann stendur sig við að borga.

Jeg hef einu sinni tekið 80 kr. til láns í 15 daga, og borgað 40 kr. fyrir; það eru 50% í 15 daga, sama sem 100% um mánuðinn eða 1200% um árið, Þetta voru dýr lánskjör. En jeg hefði tapað 800 kr., ef jeg hefði ekki fengið fjeð, og græddi því 760 kr. á því að fá það, þótt með þessum kjörum væri.

Þeir menn, sem vilja fá lán, til svo arðlítilla fyrirtækja, að þeir geta ekki staðið sig við að svara 6% að minsta kosti af lánsfjenu, þeir eiga alls ekki að taka lán — og ættu helzt ekki að fá það, að minsta kosti ekki þá nema stutt lán í bili.

Af þessum ástæðum er það, að hver bankastjórn og lánsstofnunarstjórn í heimi spyr ávalt lántakanda um það, hvað hann ætli við fjeð að gera. Það er alstaðar talið sjálfsagt, nema hjer — af skilningsleysi fólksins á eðli lánstraustsins og tilgangi lánsstofnana, sem á að vera sú, að efla atvinnuvegi og velmegun laodsmanna. Það er auðvitað, að sjeu peningar af skornum skamti, þá vilja lántakendur heldur láta fje í þeirra hendur, sem verja því til arðsamrar framleiðslu, heldur en í hendur braskara og spekúlanta, þótt trygging sje næg, hvað þá heldur til þeirra, sem sýnilega ætla að jeta þá upp.

Og það er nóg af þeim mönnum hjer í landi, sem þurfa á peningum að halda til arðsamrar framleiðslu. AIstaðar kveður við kvörtunin um peningaleysi. Og hvaðan eiga peningarnir að koma? Þeir spretta ekki upp úr gólfunum í bönkunum. Þeir verða að koma frá þeim, sem hafa peninga aflögum og fást til að lána þá; en um þá er lítið hjer í landi, eins og í öllum Iöndum, sem annað hvort eru nýbygð eða hafa auðsuppsprettur, sem eru lítt notaðar. — Með öðrum orðum : Þeir verða að koma frá útlöndum. Svo hefur það verið og er hvervetna, þar sem eins stendur á. Allir bankar í Bandaríkjunum voru upphaflega annaðhvort eign útlendinga eða störfuðu með útlendu fje. Allar járnbrautir þar í landi voru upphaflega bygðar fyrir lánsfje frá Evrópu. Sama er um Brasilíu, um Argentínu, og um mörg önnur lönd. Allar þjóðir hafa verið um eitt skeið, og margar eru enn, skuldunautar útlendinga. Því fylgir engin hætta, þar sem fjenu er varið til arðsamra fyrirtækja. Innlendir menn auðgast við lánsfjeð og leysa smámsaman til sín útlendu hlutabrjefin og útlenda fjeð.

En hjer á landi eru til menn, aðallega embættismenn og aðrir, sem lifa á föstum launum og hafa sitt á þurru — þurfa. lítt á lánsfje að halda, og þessa menn blindar lánsgullið, eins og sólin blindar uglurnar. Þeir æpa um, að vjer verðum „skuldaþrælar útlendra auðkýfinga“, og að vjer sama sem „seljum undan okkur landið okkar“, ef vjer fáum útlent fje í lánsstofnanir vorar, til að lána út á jarðir. Þetta er misskilningur fullkominn; eigendur veðdeildarbrjefa. útlendir sem innlendir, eiga ekkert tilkall til jarðanna; það er bankinn, sem borgar út hvert veðdeildarbrjef, jafnótt sem það er dregið út til greiðslu. Standi lántakandi eigi í skilum, lætur bankinn selja jörðina (eða leggja sjer hana út og selur hana svo: undir hendinni) og þá kaupa ávalt innlendir menn jarðirnar, menn sem kunna að láta lánið borga sig. — Nei, vilji útlendingar eignast landið okkar, þá geta þeir keypt það, og kaupa það, sem þeir vilja af fossum og jarðeignum tugum saman og Geysi með ! — án þess að veðdeild eða banki eigi þar nokkurn hlut að. Landinn er aldrei ófús að selja. Og vjer höfum engin lög til að hefta fasteignasðlu til útlendinga.

En svo er annað, sem menn bera fyrir sig að lántakendur kunni ekki með fjeð að fara — sólundi lánsfjenu og tapi svo á því — verði öreigar. Hver getur aðgert? Vjer höfðum áður, og höfum að nokkru leyti enn, lög um okur, svo kallað, lög, sem bönnuðu að taka hærri: en tiltekna vöxtu af lánsfje — og banna þetta enn, að því er til fasteignalána kemur, öllum nema bönkum og spsrisjóðum. hvað gagnar það? hvað lágir sem vextir eru, verða óspilunarmennirnir óspilunarmenn, og fara á hausinn. Ráðleysi manna verður ekki læknað með lögum. Jefnvel ekki þótt öll lán yrðu bönnuð. Nei, þeir sem ekki kunna með fje að fara, verða að brenna sig. En væri nokkurt vit í því, að meina fyrir það atorkusömum og fjehygnum mönnum að fá lán fyrir það verð, sem þeir álíta sjálfir, að borgi sig að gefa fyrir það.

Vita þingmenn ekki, að svo að segja öll verzlun heimsins er rekin með lánstrausti, öll stórfyrirtæki heimsins, hafnarargerðir, eimskipafjelög, vatnsleiðslur í bæjum, gasleiðslur, rafmagnsleiðslur, búnaðarbætur, járnbrautir og ótal fleira, er alt unnið alstadar með tómu lánstrausti.

Lánstraustið er fyrir atvinnufyrirtækin og allar verklegar framfarir það sama sem sólin með Ijósmagni sínu og hita er fyrir jurtagróðurinn. Það er skilyrðið fyrir, að efnalegar framfarir geti orðið til og þróast. Villiþjóðir einar geta án þess lifað.

Vilji þjóð vera menningarþjóð, verður hún að gera sjer eðli lánstraustsins ljóst, og læra að hagnýta sjer það.

Jeg vona, að vjer sýnum það í dag, að vjer viljum láta oss skiljast þetta.

Vona, að vjer sýnum þess merki í meðferð þessa frumvarps, hvort vjer erum því vaxnir, að teljast menningarþjóð eða ekki.