21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

94. mál, kosningar til Alþingis

Þórarinn Jónsson:

Það var sjerstaklega eitt atriði, sem jeg vildi skjóta til háttv. nefndar, en málinu í heild sinni er jeg fremur mótfallinn og efast um, að breytingarnar verði til nokkurra verulegra bóta. Menn munu fara að æfast í að gera krossana, svo að ónýtum seðlum fari fækkandi.

Jeg get ímyndað mjer, að ef gamall og skjálfhentur kjósandi á í hlut, að þá geti orðið ofurlítið horn útundan hjá honum við stimplunina, eða að stimplingin lýsist svo að lítið beri á henni, þegar hún þornar. Jeg tel ávalt varhugavert að breyta lögum, sem eru að fá festu, og menn eru að venjast.

Aðalatriðið í þessu máli eða þessum kosningum er það, að kjörstjórnin sje ekki sundurþykk. Er þá vanalega það tekið gott og gilt, ef vilji kjósandans kemur í ljós, þótt ekki sje eftir laganna bókstaf út í æsar. En sje kapp og stýfni i kjörstjórninni, ,mun það sýna sig, að þó að breytt verði um kosningaraðferð, verða deilurnar ávalt til um pað, hvort atkvæði sjeu gild eða ekki. — En játa skal jeg það, að breytingin á skipun kjörstjórnar er til bóta.

Það atriði, sem jeg vildi skjóta til hv. nefndar, er, hvort ekki væri ástæða til að ákveða, hve lengi kjósandinn mætti lengst vera inni í kjörherberginu, Jeg minnist á þetta af því að jeg hef sannar sögur af því, að kjósandi, sem var dálítið við skál, fór að tala við sjálfan sig inni í kjörherberginu og halda ræður um frambjóðendur, en kjörstjórnin stóð ráðalaus, og gæti svo farið, ef margir gerðu slíkt, að allir kjósendur gætu ekki kosið, þrátt fyrir það, hve tíminn er langur.

Annars held jeg, að ekki sje mjög mikið unnið við að lengja kjörtímann, það venur menn á að trassa að sækja fundi. Aftur á móti getur tept ófært veður, en við því verður ekki spornað. Jeg hýst ekki við, að greiða atkvæði með frv. þessu, en láta það afskiftalaust.