06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

13. mál, vörutollur

Matthías Ólafsson:

Eg gæti sparað mér sumt af því sem eg vildi segja, því að háttv. 1. þm. K.-G. (B. Kr.) hefir sagt það. Eg skal geta þess, að vélaáburður er aðallega þrens konar, tvær olíutegundir, smurningsolía og cylinderolía, og svo er þriðja tegundin, smjörkent efni, sem kallað hefir verið koppafeiti, og látið er við ásana og bráðnar þar sjálft, þegar vélin hitnar. Ein tegundin er olía, sem er á glösum, sem sjálf smyrja vélina. Ef nú nokkur þessara áburðartegunda ætti að bera hærra gjald, þá ætti það að vera koppafeitin, hún er minst notuð. Hinar tegundirnar slaga langt upp í steinolíuverðið, og bátar hafa eytt nærri jafn mikils virði í smurningsolíu, eins og steinolíu. Þetta ætti því að vera í 10 aura flokknum.