21.07.1913
Neðri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Forseti (M. A.):

Skipulagsskrá hefir legið frammi á lestrarsalnum síðastliðna viku, eins og eg hefi getið um áður, og skal eg leyfa mér að lesa hans upp fyrir deildinni:

“Skipulagsskrá„

fyrir minningarsjóð Jóns alþingismanns Sigurðssonar frá Gautlöndum. Inngangur.

Við undirritaðir, sem á sínum tíma gengumst fyrir að safna samskotam til minnisvarða yfir Jón sál. Sigurósson frá Gautlöndum, er andaðist 26. Júní 1889, vörðum fé því, er þannig kom inn til okkar víðsvegar að, til að láta reisa minnisvarða úr steini með ígreiftri marmarplötu á leiði hans. En afganginn af samskotafénu settum við þegar á vöxtu, og mun það verða á næsta ári með gjöfum, er síðar hafa. bæzt við, 1500 kr.

Allmargir gefendanna tóku það fram, að þeir óskuðu að samskotaféð gengi eigi einungis til minningar Jóns sál., þar sem hann hvílir, heldur einnig til minningar um hann í Reykjavík eða við Alþingi, þar sem hann hefði starfað mest að því að verða þjóðkunnur.

Í anda þessara gefenda, sem við erum fyllilega samdóma, gerum Við eftirfarandi

Skipulagsskrá.

1. gr. Sjóðurinn skal heita:

Minningarsjóður Jóns alþingismanns

Sigurðssonar frá Gautlöndum.

2. gr.

Sjóðurinn skal ávaxtast í Söfnunarsjóði Íslands, og vera innborgaður í hann fyrir 26. Júním. 1914.

3. gr.

Stjórn sjóðsins skipa 3 menn: Forseti Neðri deildar Alþingis og 2 menn, er Neðri deild kýs til 6 ára í senn.

4. gr.

Sex tíundu hlutum af vöxtum sjóðsins skal varið til verðlauna fyrir inar beztu ritgerðir um búnaðarmál, samvinnumál, stjórnmál eða framfarir Íslands, sem fram koma í tímaritum eða beint til stjórnarnefndarinnar, og dæmi hún um það, hvaða ritgerðir eru verðlauna hæfar. Við verðlaunaveitinguna skulu menn af bændastétt sitja fyrir.

5. gr.

Verðlaun skulu veitt þá er stjórnarnefnd þykir ástæða til, þó eigi sjaldnar en tvisvar á hverjum 10 árum, og á því tímabili akal alls veita til verðlauna 6/10 hluta vaxtanna, sem fallið hafa á þessum 10 árum. Hinir 4/10 hlutar vaxtanna leggjast Við höfuðstólinn.

6. gr.

Þegar stundir líða — þó eigi innan næstu 50 ára — má Neðri deild Alþingis breyta til um verðlaunaveitingar úr sjóðnum, eftir því sem kröfur tímans þá kunna að heimta þó má aldrei skerða höfuðstólinn og eigi ganga nær vöxtunum á næstu 100 árum, en að 1/10 þeirra leggist árlega Við höfuðstólinn.

7. gr.

Reikningar sjóðsins skulu samdir fyrir 2 ár í senn, og birtir í B-deild Stjórnartíðindanna. Skulu þar nafngreindir þeir menn, sem fengið hafa Verðlaun úr sjóðnum og fyrir hvað þau verðlaun hafa veitt verið.

Leita skal konungsstaðfestingar á Skipulagsskrá þessari.

Gert að Skútustöðum 8. Maím. 1913.

Árni Jónsson. Steinþór Björnsson.

Þannig hljóðar skipulagaskráin, og vil eg nú skjóta því til atkvæða deildarinnar, hvort hún vill taka að sér stjórn sjóðsins.