08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

93. mál, hallærisvarnir

Kristinn Daníelsson:

Háttv. 1. þm. S.-MúI. (J. Ól.) hjó eftir því sem eg sagði, að hér væri verið að fara ofan í vasa einstaklinga, og spurði svo, úr hvers vasa ætti að taka þetta gjald, ef eigi landsmanna. En eg tók það þó greinilega fram, að það væri verið að taka það beint úr vasa einstaklinganna, og það er munur, hvort það er tekið þannig eða úr almennum sjóðum. t. d. landssjóði.

Sami háttv. þingmaður sagði, að þetta væri skattur á þjóðina, ef það væri tekið úr landssjóði; en það sjá þó allir, hver munur er á þessu tvennu. Menn kenna ekki fyrri en kemur að hjartanu, þegar á að fara að heimta persónuleg gjöld af fátæklingum og buddan er tóm. Mér virtist ekki laust við að háttv. þm. sneri út úr fyrir mér, í þá átt, að eg ætlaðist til að koma þessu gjaldi á útlendinga. Það dettur mér ekki í hug, en hitt er þó víst og satt, að ýmis gjöld renna í landssjóðinn frá útlendingum, og þau gjöld geta vaxið.

Eg skal geta þess, að þessi sami hv. þingmaður var ekki svo fjarri því, undir meðferð málsins, að héruðunum væri í sjálfavald sett hluttaka þeirra í þessu máli. Eg hefði því fremur getað búist við því, að hann fylgdi mér að tillögu minni eða jafnvel flytti hana, sem eldri og reyndari þingmaður, en eg stutt hana.

Eg er þakklátur háttv. framsögum. fyrir það, að hann tók ástæður minar til greina, þótt hann gæti ekki fallist á þær. Hann áleit ekki rétt að fresta málinu, þar sem nú væri þegar fengin föst niðurstaða. Eg veit nú ekki, hvort hér er hægt að tala um fasta niðurstöðu, þar sem málið er fyrst fram komið á þessu þingi, og hefir auk þess sætt hér töluverðum mótmælum.

Háttv. framsögumaður sagði, að það hefði átt að vera búið að þessu fyrir mörgum öldum. Eg skal ekki bera á móti því, að það hefði verið æskilegt, en úr því að það hefir nú dregist svona lengi, þá finst mér ekki muna miklu um eitt eða tvö ár enn. Og ef spurt er, hvað sé unnið við þann drátt, þá er því fljótsvarað, að þá fengi stjórnin umhugsunarfrest til að undirbúa málið, meðal annars til þess að athuga alt, sem lagt hefir verið til þess með og móti á þessu þingi, og það er mikið, og svo vitanlega bæta þar við því sem hún kann að finna málinu til upplýsinga. Málið er ekki glatað fyrir því og þá gæti þingið gengið að samþykt þess með betri samvizku, ef þjóðin hefði áður fengið að dæma um það.

Háttv. þingm. Dal. (B. J.) bar saman kvaðir, þær sem frumvarp þetta leggur á menn, við skyldu embættismanna til þess að leggja fé í ekknasjóð. Þetta á ekkert skylt hvað við annað, því að þessari skyldu embættismanna er svo fyrir komið, að gjald þeirra er að nafninu sniðið eftir launahæð þeirri, sem þeim er veitt af inu sama löggjafarvaldi, sem leggur á þá skattinn. En það vald hefir ekki ætlað álþýðu manna neinar sérstakar tekjur til þess að taka þetta gjald af.

Og svo er eitt. Hvar höfum við bréf fyrir því, að harðindi komi ekki strax á næstu árum ? Ef svo færi, þá væri lítið unnið. Eg geri mér ekki vonir um það, að þessi sjóður komi að notum fyr en hann er orðinn nokkuð stór, og mest gagn yrði auðvitað að honum, ef hann gæti orðið mjög stór. Hitt væri ekkert vit, að fara að smá-mjatla úr honum áður en honum væri almennilega vaxinn fiskur um hrygg.

Sami háttv. þingmaður talaði mjög geist um það, að við, sem viljum fara mjög varlega í þessu máli, hefðum ekkert fyrir okkur að bera. Hann hefir víst ,ekki tekið eftir því, að eg færði full rök að því, að ástæða væri til að leggja þetta undir samþykt þjóðarinnar sjálfrar. Hann var sannfærður um það, að þjóðin mundi heimta þetta. Jæja, það er ágætt ef svo er. Þá er eg líka með því og þá er engu spilt. En hitt þarf hann ekki að halda, að eg sé hræddur um að kjósendur áfellist mig fyrir framkomu mína í málinu nú. Eg er viss um, að eg fæ þakklæti fyrir það að farið var varlega og viljað að málið væri athugað sem bezt. Og eg er enn á því, að full ástæða væri til þess að bera málið undir fleiri menn en þá sem þjarkað hafa um það hér í sumar.