08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

109. mál, forðagæsla

Pétur Jónsson:

Eg ætla að eins tala um eitt atriði. Það er brtill. hv. 2. þm. Rangv. (E. P.), sem eg vildi fara nokkrum orðum um. Fyrri hluti hennar er í samræmi við brtill. á þgskj. 749, um að kaup forðagæzlumanna fari eftir samkomulagi og ekki fram úr 2 kr. á dag, og skal eg ekki fjölyrða um það, en það er seinni hluti tillögunnar, sem eg verð að leggja á móti, að kaup forðagæzlumanna megi aldrei fara fram úr því sem svarar 1 kr. á hvern hreppabúa. Þessi takmörkun hefir það í för með sér, að hér getur ekki orðið um að ræða neitt, sem borgun geti heitið, og ef þetta ákvæði er sett í lögin, þá er það sama sem að taka aftur með annari hendinni það sem rétt er fram með hinni, sem sé að mæla fyrir um eftirlit og 2 skoðunarferðir á ári, sem svo verður ekki unt að framkvæma.

En þó er hitt ekki síður athugavert. Eg veit ekki til að nein slík takmörkun á valdi sveitarstjórna hafi áður ver ið sett af löggjafarvaldinu. Hún er algert nýmæli og athugavert. Þessir forðagæzlumenn geta haft jafnvel meira verksvið en lögin mæla fyrir, það getur farið nokkuð eftir atvikum og staðháttum og hugsunarhætti í hverri sveit, og það geta verið til margir hreppar, sem vilja borga þessi störf vel og hafa sem mest gagn af forðagæzlumönnunum. Það er því hin mesta fjarstæða að taka fram fyrir hendurnar á sveitarstjórnunum í þessu efni. Nei, þessi skerðing á valdi þeirra kemur í bág við allar venjur. Mér er það minnistætt frá Alþingi 1907, þegar sveitarstjórnarlögin voru þá til meðferðar, að mikið var barist á móti því að leggja bönd á vald sveitarstjórna og héraðsstjórna af æðra valdi. Og sú skoðun varð ofan á þá. Eg tel betra að gera enga breyting á lögunum, heldur en að þetta gangi fram.