08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

109. mál, forðagæsla

Matthías Ólafsson:

Eg hafði ekki búist við að frumvarpið fengi svo mikla mótspyrnu, sízt frá háttv. 2. þm. Rang. (E. P.). Hér er virkilega um þarft lagafyrirmæli að ræða, sem mikið er aðgengilegra og nýtilegra til gagnsemi en horfellislögin hafa nokkurn tíma verið. (Eggert Pálsson: Alveg það sama!) Eg býst ekki við að sannfæra háttv. 2. þm. Rang., en vil leyfa mér að benda á nokkurt ósamræmi, sem kom fram í ræðu hans. Það þarf ekki að óttast að menn skorist undan kosningu, því að samkvæmt 2. gr. eru menn skyldir að taka við henni, eins og í hreppsnefndir, og fá þó hreppsnefndarmenn enga borgun fyrir sitt starf. Það þarf ekki að fara í grafgötur um það, hvort semja eigi á undan eða eftir. Auðvitað samið á eftir, eða með öðrum orðum, sveitarstjórnin getur skamtað mönnum úr hnefa. Háttv. síðasti ræðumaður virtist þekkja marga akussa, sem sækjast mundu eftir þessu starfi. Getur vel verið, að svo sé, þar sem hann þekkir til, en það er ekki hætt við slíku þar sem eg þekki til. En þó að svo færi að slikir menn kæmist að þessum störfum, þá mundu þeir missa þau eftir 3 ár, ekki verða endurkosnir, og þar að auki glata tiltrú sveitunga sinna. Eg neita því algerlega, að frv. þetta verði til þess að ríra álít þjóðarinnar út í frá. Það sýnir þvert á móti, að hún vill vera sannarlega sjálfsæð, og það mun enginn kalla þetta frumv. »humbug«, nema hv. 2. þm. Rang. Það er fjarri öllum sanni, að verið sé að skipa mönnum eða neyða þá með frv., heldur er verið að leiðbeina þeim og gefa holl ráð, sem eru þeim sjálfum fyrir beztu. Eg vona að ræða háttv. 2. þm. Rang. verði til þess að auka frv. fylgi.