08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

109. mál, forðagæsla

Eggert Pálsson:

Eg skal ekki fara að þrátta við háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Það var mín skoðun og mín reynsla, sem eg lét í ljósi, er eg sagði að horfellislögin hefðu ekki komið að gagni, en enginn sleggjudómur eina og háttv. þingmaður sagði. Hann kvaðst hafa reynslu fyrir því, að þau kæmu að miklu haldi og eg skal ekki rengja, að svo kunni raun að hafa orðið á í hans eigin sveit, enda býst eg við að hann sé sjálfur skoðunarmaður í sinni sveit og honum hafi því tekist að láta koma að gagni þar. En það er ekki öllum eins gefið og honum að búa fyrir aðra, og ekki er hægt að dæma lögin eftir því, því að slikir menn eru ekki á hverju strái.

En þótt Suður-Þingeyjarsýsla og þá sérstaklega Mývatnssveit eigi jafnágætum skoðunarmönnum á að skipa, svo sem t. d. háttv. þingm., sem geti búið eins vel fyrir aðra eins og sjálfan sig, þá er því ekki svo háttað í Rangárvallasýslu. Þar eru vandfengnir skoðunarmenn, sem hafi eins gott vit á að búa fyrir aðra sem sjálfa sig, og viti eins vel, hvað hentugast er á öðrum jörðum sem sinni eigin. Enda er það ekki nema eðlilegt, þar sem sumir stunda aðallega sauðfjárrækt og aðrir meir nautgriparækt. Og skal eg nefna til dæmis Æsahrepp. Á efstu bæjunum er aðallega stunduð sauðfjárrækt, en í neðri hlutanum t.d. í Þykkvabæ, er nautgriparæktin aðalatriðið. Og þar sem svo hagar misjafnlega til, en svo er vitanlega víða ástatt hér á landi, þá er það skiljanlega mikið vandaverk, að skipa fyrir um, hverja aðferð skuli hafa á hverjum einstökum stað eða einstakri jörð.

Þetta er orsökin til þess, að horfellislögin hafa ekki komið að almennum notum, heldur orðið eintóm pappírslög, nema þá í Þingeyjarsýslu eða Mývatnssveit, eftir því sem háttv. þingmaður hefir upplýst, og stafar þá sennilega af því hvorutveggja, að þeir hafi sérstaklega góðum mönnum á að skipa til skoðunar og búnaðarhættir og landkostir á inum einstöku jörðum svo nauðalíkir.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Eg þykist vita, að eg geti ekki sannfært háttv. þingm. S.- Þing. (P. J.) fremur en honum hefir tekist að sannfæra mig.