08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Skúli Thoroddsen:

Eg skal geta þess, að eg verð eindregið að mæla á móti 4. brt. nefndarinnar við 11. grein frumvarpsins.

Yfirleitt verða bæði bankastjórn og þingmenn að gæta þess, að bæði Veðdeildin og bankinn er stofnaður almenninga vegna. — En, því miður, virðist mér margt benda á það, að bankastjórninni hætti eigi sjaldan til þess, að líta stundum meira á hag bankans og veðdeildarinnar, en á hag almennings, enda löggjöfin ekki gætt þess sem skyldi, að gera almenningi stofnanirnar sem hagkvæmastar.

Á þetta bendir t.d. það, er maður fær 100 kr. bankavaxtabréf í bankanum, en getur síðan ekki selt það nema fyrir 94–96 kr. og verðar þó að gjalda vexti af 100 kr.

Þetta á í raun og veru ekki annað nafn skilið, en að vera nefnt okur, og gegnir sannast að segja stórri furðu, að svo skuli líða þing eftir þing, að eigi er úr þessu bætt.

En nú á að fara enn þá lengra, þ.e. gera veðdeildina, sem hér um ræðir, enn óaðgengilegri. Nú á að skylda hvern þann er fasteign kaupir, er veðdeildarlán hvílir á, til þess að greiða 1% af eftirstöðvum fasteignaveðslánsina í varasjóð bankana, og það, hve oft sem eignin gengur kaupum og sölum.

Þetta eru með öllu óaðgengilegir kostir: Eða því á að gera þau lánin þá dýrari en hin ?

Þegar menn fá veðdeildarlán, þá er einatt miðað við virðingarverð, eða verðmæti eignarinnar sjálfrar, en alls eigi við hitt, hversu fjárhag viðkomanda er háttað.

Veðsett eign getur og gengið kaupum og sölum, þar sem veðhafi missir ekki rétt sinn við eigandaskiftin, og tel eg hæpið, að tilkynningar til veðdeildarinnar um eigandaskiftin sé þarfar. Veðhafi, í þessu tilfelli veðdeildin, getur gengið að veðinu, ef skilyrðunum, að því er til greiðslu lánsins o. fl. kemur, er ekki fullnægt.

En þessi skattur, sem hér ræðir um, ofan á ýmis önnur miður aðgengileg lánskjör veðdeildarinnar, virðist mér alveg óþolandi.

Eg vona því, að menn hugsi sig vel um, áður en þeir greiða þessari brtill. nefndarinnar atkvæði, og mun eg fyrir mitt leyti fremur kjósa að greiða atkv. með 11. gr. frumv. óbreyttri, eins og hún er komin frá Ed.