08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Björn Kristjánsson:

Viðvíkjandi þessu 50 þús. kr. lánshámarki, sem hv. þm Dal. (B. J.) var að fetta fingur út í, þá skal eg geta þess, að það er sett með það fyrir augum, að veðdeildin lánar bæði út á húseignir í kaupstöðum og jarða- og húseignir í sveitum. Þetta hámark er sett til þess að tryggja það, að ekki verði lánuð geypilega há lán út á stórhýsi í kaupstöðum. Það er nokkuð öðru máli að gegna hér og í útlöndum, t. d. í Danmörku, þar hafa jarðeignirnar lánstofnanir fyrir sig, kaupstaðirnir fyrir sig og verksmiðjufyrirtæki sínar eigin lánsstofnanir. Þess vegna var þetta ákvæði sett inn í frumvarpið og háttv. Ed. hefir fallist á það.

Mig furðar á þeim orðum háttv. þm. Dal. að honum þótti það undarlegt, að landssjóðaábyrgð ein nægði ekki til þess að útvega kaupendur að verðbréfunum. Þetta er því kynlegra þar sem háttv. þm. sjálfur hefir sem viðskiftaráðunautur reynt að selja þessi bréf í útlöndum, en honum hefir ekki tekist að selja eitt einasta bréf. Hann hefir sjálfur reynsluna fyrir sér í þessu.

Þá þótti honum það óaðgengilegt, að lánin væru ekki veitt nema til 40 ára. En það liggur í því í fyrsta lagi, að aldrei hefir verið tiltekinn lengri tími í lögunum, og einnig er það upplýst, að því styttri tíma, sem lánin eru veitt til, því betri sölu getur maður vænst á bankavaxtabréfunum. Eg álit því alveg sjálfsagt að samþykkja þetta ákvæði. Eg hygg líka, að það séu harla óarðvænleg fyrirtæki, sem ekki geta borgað sig á 40 árum. Það er þá ekki lánandi fé til þeirra, og allra sízt ástæða til að taka það að láni í útlöndum.

Það er auðvitað rétt hjá háttv. þm., að ákvæðið um varasjóð gengur nokkuð út yfir lántakendurna. En hvar á að taka trygginguna? Nefndin sá sér það alls ekki fært, að stinga- upp á því að landssjóður færi nú enn að taka lán og setja upp á gamla mátann verðbréfin að veði fyrir því. Og satt að segja virðist mér Íslendingar alveg eins geti trygt sín verðbréf eins og bæði Danir og allar aðrar þjóðir verða að gera það.

Þá Var háttv. þm. Dal. að fetta fingur út í það, að auglýsa skyldi í Ríkistíðindum Dana, ef veðbréf glataðist. En meðan við stöndum í sambandi við Dani og höfum viðskifti við þá, verðum við auðvitað að auglýsa þar. Þar með er alls ekki bannað að auglýsa annarestaðar og verður jafnvel gert, ef við höfum verðbréfaviðskifti við aðrar þjóðir.

Svo ber þess líka að gæta, að það eru ekki að eins bankar í Danmörku, sem fylgjast með í bankaauglýsingum í Ríkístíðindum, heldur allir þeir bankar, sem hafa íslenzk og dönsk bréf með höndum. Þeir láta auðvitað viðskiftabanka sinn í Kaupmannahöfn fylgjast með því sem auglýst er um þau í Ríkistíðindum. Háttv. þm. Dal. er kunnugt um það,

hve erfitt veitir að ná í peninga nú. Hann hefir dæmin fyrir sér í því efni héðan af þinginu, þar sem landssjóður getur ekki fengið 1/2 milíón kr. lán, nema með því móti að tryggja það með sérstökum tekjum landsina — þær gengju beint upp í afborganir. Eg skil því ekki, af hverju hann ræðst á þetta frv.

Eg skal svo ekki þrátta meir um þetta, en vil taka það fram aftur, að vilji deildin ekki taka frumvarpið svona, þá er bezt að fella það, því að það verður gagnslaust með öðru móti. Markaðshorfurnar eru sannarlega ekki svo glæsilegar ná, að ekki sé þörf á sem beztri tryggingu. Jafnvel konunglegar »obligationer« standa ekki hærra en í 81%. Og nóg er í heiminum af lántakendum sem bjóða háa vexti; Chile og Argentína bjóða 7–8% í vexti og. fá þó að eins 1/4 virðingarverðs út á eignir sínar. Vilji menn ekki ganga að þessu,. þá er ekki um annað að gera en ákveða að hætta að taka lán og hætta að byggja. Bankastjórnin getur ekki snúið peningaástandinu í heiminum við, og Alþingi ekki heldur.