09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í C-deild Alþingistíðinda. (2573)

92. mál, sauðfjárbaðanir

Sigurður Sigurðsson:

Eg álít ekki þörf á því að svara háttv. þingm. Dal. (B. J.) miklu, enda býst eg við, að hvorugur okkar muni sannfæra annan héðan af. En út af því sem hann sagði, að ef þetta frumvarp ætti að verða að lögum, þá ætti einnig að gefa lög um annað, sem að fjárrækt lýtur, skal eg minna hann á það, að hér hefir legið fyrir á þinginu frumvarp í þá átt, nefnilega um forðagæzlu. Innihald þess er um fóðurbirgðir manna og skyldu til að hafa eftirlit með þeim. Hér er því ekki um neina nýja stefnu í löggjöfinni að ræða. Sams konar ákvæði eru líka til í mörgum öðrum lögum.

Háttv. þingmaður var að gera ráð fyrir því, líklega meir a í gamni en alvöru, að fara að koma með þingsályktunartillögur um það, hvenær menn ættu að þvo sér og kemba o. s. frv. En hér er ólíku saman að jafna. Mennirnir eru eða eiga að vera sjálfs síns herrar í því efni og finna og víta, hvað þeim er þar fyrir beztu. En þegar verið er að lögskipa þrifabaðanir á sauðfé, þá miðar það að því, að skepnunum geti liðið betur en ella og eigendum þeirra er það hagnaður.

Eg vil aftur minna á það, að það hafa komið fram margar óskir frá þingmálafundum, bæði í Borgarfirði og víðar, um að fá slik lög sem þessi, svo að það ætti ekki að koma mönnum á óvart að lögin eru gefin. Þvert á móti hygg eg, að þau muni víða verða kærkominn gestur.

Um samþyktarlög í þessu efni skal eg lýsa yfir því, fyrir mitt leyti, að eg er þeim algerlega mótfallinn. Ef setja á lög um þetta á annað borð, þá verða það að vera almenn lög, sem fyrirskipa sauðfjárbaðanir um alt land. Það verður að skylda menn til þess að baða fé sitt; heimildarlög mundu reynaat þýðingarlaus.

Um eftirlitskostnaðinn skal eg ekki fjölyrða. Háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) mintist á það atriði, og get eg tekið undir með honum, að ekki sé þörf á frekara eftirliti en því, að þess sé gætt að allir baði. Hinu er nokkurn veginn treystandi, að menn setji baðlöginn saman eftir því sem reglur mæla fyrir, og að þeir baði allar þær kindur, sem þeir ná til. Hitt getur komið fyrir, að menn nái ekki í alt fé sitt til böðunar, og það mundi engu síður vilja til, þó að skipaðir væru fastir eftirlitsmenn, kostaðir úr landssjóði.

Eg er þess vegna á því, að frumvarpsgreinin, eins og hún er nú, nái ekki betur tilgangi sínum en breytingartillaga meiri hl. nefndarinnar á þskj. 733.

Að öðru leyti skal eg ekki fjölyrða um málið, en vona, að því verði vel tekið.