09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flutn.m. (Guðmundur Eggerz):

Eg ætla að leyfa mér að gera grein fyrir því, hver rök liggja til þess, að þessi þingaályktunartillaga er fram komin. En áður en eg vik að þessum rökum, vil eg taka það fram, að í sjálfu sér ætti samþykt þessarar tillögu ekki að vekja neina óánægju hjá bannmönnum og sérstaklega ekki hjá Good-Templurum, því að þeir hafa einmitt haldið því fram, að meginþorri allra kjósenda væri bannlögunum hlyntur. Ef þetta væri rétt, og ný atkvæðagreiðsla 1914 leiddi í ljós að bannvinum hefði ekki fækkað heldur jafnvel fjölgað síðan 1908, þá höfum við flutningsmennirnir gert bannmönnum inn mesta greiða með því að bera fram þessa þingsályktunartillögu. En eg skal reyndar hreinskilnislega játa, að það er mín skoðun á þessu mál, að almenningur sé yfrleitt búinn að fá nóg af þessum lögum og sé orðinn sárreiður á þeim. Þess vegna er það vilji minn, að mönnum sé gefinn kostur á því af nýju að láta í ljós skoðun sína með atkvæðagreiðslu. Eg hygg að þessi skoðun sé ekki á all-litlum rökum bygð.

Eins og menn muna fór fram 10. Sept. 1908 atkvæðagreiðsla um alt land, í sambandi við alþingiskosningarnar, um það, hvort menn vildu innleiða bannlög hér á landi eða ekki. Þessar kosningar fóru svo, að hlyntir banninu reyndust 4900 kjósendur, en móti því voru 2500. Meiri hlutinn, var því sjálfu sér ekki mikill fyrir banninu, og það er eiginlega furða að hann skyldi ekki vera meiri, þegar litið er til þess, hvernig til þessarar atkvæðagreiðslu var stofnað. Atkvæðagreiðslan fór fram –eins og eg benti á — um leið og Alþingiskosningarnar. En þá var einmitt sambandsmálið á dagskrá og það eitt réð úrslitum kosninganna, en bannið hafði aftur á móti engin áhrif á það, hverjir væru kosnir. Þá var eingöngu barist um sambandsmálið, en ekki um aðflutningsbannsmálið, af því mál þetta var svo afar þýðingarmikið fyrir þjóðina. Þess vegna var ekki rétt að setja atkvæðagreiðsluna í samband við þær pólitísku kosningar. Good-Templarafél., sem hefir landssjóðsstyrk til þess að »agitera«, notaði eðlilega tækifærið við þessa atkvæðagreiðslu, sendi menn út um land til þess að tala fyrir banninu og hafði fulltrúa á öllum kjörstöðum. En andbanningar hreyfðu þar á móti engum andmælum og bar tvent til þess. Fyrst það, að þeir höfðu allan hugann við sambandsmálið og í öðru lagi það, að þeir könnuðust við, að Good-Templarareglan hefði unnið margt gott og þarflegt hér á landi og vildu þess vegna ekki leggjast á móti henni í þessu máli á annan hátt en að greiða atkvæði á móti væntanlegum bannlögum.

Eg hefi í byrjun minst á þessa atkvæðagreiðslu fyrir þá sök, að til hennar er ávalt skírskotað af hálfu bannmanna, ef einhver dirfist að ýta við bannlögunum. Eg vildi benda á, að hún var ekki mikils virði, og að öll ástæða er til að ætla að öðruvís færi, ef nú væri gengið til atkvæða fyrir 1. Júlí 1914. Þótt andbanningar svæfu 1908, þegar atkvæðagreiðalan fór fram, þá vöknuðu þeir — eða rumskuðust dálítið — þegar bannlagafrumv. kom inn á þingið 1909. Þá var sannarlega farið aftan að kjósendunum, því að jafnvel þeir sem bannlögunum voru hlyntir og greiddu atkvæði með þeim, bjuggust ekki við að þau mundu skella svo fljótt á, sem raun varð á. Þeir vöknuðu, segi eg, þegar bannlagafrum. kom inn á þingið, og það var sannarlega engin furða, því að frumv. var víst einhver sá mesti óskapnaður, sem nokkurn tíma hefir komist inn á nokkurt löggjafarþing. Meðal annars lá betrunarhúss- vinna við því að flytja, þó ekki væri nema 1/2 flösku af brennivíni inn í landið. Og ef mótorbátur flutti. 2 potta af brennivíni milli hafna, þá var hann réttilega upptækur. Frjálslyndið var þó svo mikið, að ekki gilti ið sama, ef um stór gufuskip var að ræða, er fluttu áfengi milli hafna. En upp úr þessu geðslega frumv. voru svo bannlögin samin 1909, og var ekki von að vel færi. Eg hefi nýlega lesið umræður þær í Alþingistíðindunum, sem urðu um mál þetta 1909, og hefi rekið mig á, að þeir ókostir, sem bannandstæðingar þá bentu á, eru ýmist þegar fram komnir eða eru enn að koma fram. Reynslan er ólygnust, og því ætla eg að hafa hana sem fyrsta máttarstólpann undir tillögu okkar hér í deildinni.

Svo sem kunnugt er, öðluðust lög þessi að nokkru leyti gildi 1. Jan. 1912. En á þeim stutta tíma hafa þegar komið í ljós slíkir agnúar á lögunum, er hafa það í för með sér, að þau eru í ýmsum atriðum óframkvæmanleg eða litt framkvæmanleg. Samkvæmt lögum þessum mátti ekkert áfengi flytja til landsins eftir 31. Des. 1911, annað en það sem undanþegið er í 2. gr., svo sem til iðnaðar, efnarannsókna og lyfja. Enn fremur er svo að orði kveðið í 5. gr. laganna, sem eg leyfi mér að lesa upp með leyfi hæstv. forasta:

»Hann (skipstjóri) skal og skýra frá, hvort og hve mikið áfengi hann hafi meðferðis sem skipsforða, en óheimilt skal honum, meðan hann er í höfnum inni eða í landhelgi við Ísland, að veita eða selja eða á annan hátt láta af hendi eða leyfa öðrum skipverjum að láta af hendi nokkuð af því áfengi, er til skipsforða er ætlað, til annara manna en þeirra sem eru lögskráðir skipverjar«.

Eg hélt að það væri nokkurn veginn ljóst af þessari grein, að skipstjóra er etranglega bannað með henni að veita nokkurt áfengi inni á höfnum eða í landhelgi eftir 1. Jan. 1912, þó að honum sé vitanlega heimilt að kaupa það í landi. Stjórnarráðið sá þegar vandkvæði á að framfylgja þessu atriði stranglega, og eg get satt að segja ekki láð því, þó að því þætti hart að banna skipstjórum að veita gestum sínum annað en vatn og sódavatn við máltíðir eða í veizlum, en þeim sjálfum var heimilt að neyta hvers konar víntegunda. Það má að vísu segja, að þetta sé ekki mikilsvert atriði, en þó sá stjórnarráðið ástæðu til að veita undanþágu í þessu atriði. Það var gert meðan háttv. þm. Borf. (Kr. J.) var ráðherra. Undanþáguna er að finna í Stj.t. 1911, bls. 241, og hljóðar svo:

»Þar sem svo er í 5. gr. ákveðið, að skipstjóri megi ekki »veita« öðrum en skipverjum áfengi, þá má ekki skilja þetta svo, að skipstjóri megi ekki hafa gesti í boði og veita þeim jafnframt áfengi, meðan að hver sem vili, getur veitt áfengi í landi«.

Að vísu finst mér þetta stjórnarráðsbréf koma í bága við lögin, en eg get virt stjórnarráðinu til vorkunnar, þó að því virtist að það mundi verða erfitt verk og draga dilk á eftir sér, ef hefði átt að lögsækja og elta skipstjóra út af því, að hann byði út á skipi hjá sjálfum sér vinum sínum glas af víni eða bjór. En þetta er eitt dæmi þess, hvernig reynslan hér sýnt, að gloppur eru í frumvarpinu. Og eg skil það vel, að hæstv. ráðherra hafi tekið nærri sér að troða upp í þessa gloppu. Eg neita því ekki, að stjórnarráðsbréfið sé í sjálfu mjög varhugavert, því að búast má við, þegar ein undanþága er fengin frá lögunum, þá fari fleiri á eftir. Hér er t.d. skipstjóranum leyfð undanþága, en væri þá ósanngjarnt að veita stýrimanni sams konar undanþágu ? Mætti ekki eins veita honum leyfi til að veita gestum sínum ? Eða þá vélstjórum, hásetum og jafnvel kokkinum ? Og ætti jómfrúin vildi þá ekki fá sömu undanþágu og því næst allir farþegar? Mér finst það ekki nema mannúðlegt, að gera þeim jafnt undir höfði.

En menn kunna nú að segja, að þessu séu sýslumenn ekki skyldir að hlýða. Þetta má að vísu segja, en þó að það ríði í bága við lögin, verð eg að segja fyrir mitt leyti, að eg varð bréfinu feginn, því að eg vissi, hvernig var að framfylgja þessu atriði. Það kveður oft við, að lögreglustjórar gæti bannlaganna slælega. En eg hefði gaman að láta bannvini taka að sér eftir litið nokkra daga, og menn skyldu þá sjá, að það kæmi fljótt annað hljóð í strokkinn.

Það er ýmislegt að athuga í þessu efni, sem ókunnugum kemur ekki í hug, og skal eg leyfa mér að nefna nokkur dæmi.

Það bar til í einu kauptúni landsins fyrir nokkru, að lögreglustjóri sektaði bryta um 50 kr. fyrir ólöglega vínsölu. Þetta hafði þau áhrif, að hlutaðeigandi gufuskipafélag feldi niður sex skipsferðir til þessa kauptúns næsta ár, og hefir, jafnvel síðan haft það útundan. Auk óþægindanna bakaði þetta kauptúninu 500 kr. tekjumissi í hafnarsjóð og nokkurn atvinnumissi, og þá þóttu þessi afkifti lögreglustjórans ekki annað en smámunaleg og óþörf afskiptasemi.

Þá skal eg benda á aðra undanþágu, sem veitt hefir verið frá lögunum. Mér er sagt, að danskir strandmælingamenn, sem nú eru vestur í Gilsfirði, — hafi fengið leyfi til að flytja í land eitthvað af áfengi með sér. Það er svipuð undanþága eins og um skipstjórana.

Mér dettur í hug að geta þess, sem yfirmaður landmælingamanna sagði við mig viðvíkjandi bannlögunum. Það er duglegur og reglusamur maður, en hann sagði, að ef sér væri bannað að hafa vín með sér, þá kæmi hann ekki hingað. Mælingamenn þurfa að fara um fjöll og firnindi, þar sem oft er kalsi og fjúk, fjarri öllum mannabygðum, svo að ekki næst í neinar vistir nema þær sem þeir geta flutt með sér, og þegar þeir hafa unnið 12 tíma, þá þykir þeim hart að mega ekki fá sér eitt bjórglas, ef þeir eru þyrstir, og eitt staup, ef þeim er kalt. En í mjólk geta þeir ekki náð, langt frá öllum mannabygðum.

Eg vil geta þess í þessu, sambandi, að eg er ekki í neinum vafa um, að eftir 1915 munu ferðir útlendinga leggjast niður, því að þeim kemur það illa og ókunnuglega fyrir, að mega ekki neyta áfengis á ferðum sínum. Eg gæti trúað að margan munaði um þá atvinnu, sem hann missir við það. Það mundi baka landinu mörg þúsund króna skaða. Og varla mundi ganga greiðlega að leigja Elliðaárnar, ef Englendingum. væri bannað að hafa Whisky, því að mér er sagt þeir séu gefnir fyrir það.

Enn vil eg benda á einn agnhnúa, sem reynslan hefr líka leitt í ljós. Samkvæmt þessum bannlögum mun verða litið svo á, að eftir 1. Jan. 1.912 megi ekki veita farþegum vin inni á höfnum né í landhelgi (Lárus H. Bjarnason: Það er úr öðrum lögum). Já! Það er mikið rétt, að til. eru önnur eldri lög, um þetta, en þar fyrir er líka á þetta minst í 5. gr. bannlaganna, þar sem segir svo, — ef eg má með leyfi forseta lesa nokkur orð:

». . . óheimilt skal honum (c: skipstjóra) meðan hann er í höfnum inni eða í landhelgi við Ísland, að veita eða selja eða á annan hátt láta af hendi, eða leyfa öðrum skipverjum að láta af hendi nokkuð af því áfengi, er til skipsforða er ætlað, til annara manna en þeirra sem eru lögskráðir skipverjar.

Hér er það skýrt tekið fram, að ekki má selja eða veita vín á höfnum eða í landhelgi, öðrum en lögskráðum skipverjum, en það eru farþegar ekki. Mér er einnig kunnugt um fyrirmæli eldri laganna, sem banna vínsölu á höfnum.

En mér er kunnugt um, að það vakti óánægju meðal farþega á fyrsta skipi, sem kom eftir 31. Des. 1911. er þeim var sagt í landhelgi, að nú fengist ekki framar vín. En á hinn bóginn veit eg ekki til, að neinn búist við, að þetta ákvæði sé haldið. Eg hefi jafnvel heyrt Good-Templara segja, að ekki komi, til mála að fást um, þó að þetta atriði sé brotið. Og það er víst, að allir skipstjórar, sem hingað hafa siglt síðan, þeir hafa marg-, margbrotið þessa grein bannlaganna, og meira að segja fleiri greinar. Og þar sem sektirnar eru 50 –100 kr. í fyrsta sinn, en 100–1000 kr. í annað sinn, þá væri þetta óneitanlega orðinn dálaglegur skildingur, ef gengið hefði verið eftir því.

Eg hefi engan veginn talið alla þá agnhnúa, sem eru á þessum bannlögum. Mér þætti t.d. gaman að fá upplýsingar um eitt ákvæði 5. greinar: Skipstjóri má ekki láta af skipaforðanum, meðan skipið er í landhelgi, en aftur á móti undir eins eg skipið er komið út fyrir landhegislínuna. Eða hljóðar ekki ákveðið einhvern veginn á þessa leið? Hvernig á þá að fara að úti á hafi, þegar skip eru að fara héðan, ef svo skyldi takast til, að farþegi fengi eina bjórflösku rétt innan við landhelgislínuna, og væri ef til vill búinn að drekka örlítið úr henni áður en skipið kemst út fyrir landhelgislínuna. Það er ekki gaman, þegar lögin eru svo úr garði gerð, að óhjákvæmilegt er að þau verði brotin. Og það að lögin eru brotin átölulaust af öllum, gerir þau með öllu óhafandi. Því það er ekki nóg með það, að þjóðin hættir að bera virðingu fyrir bannlögunum, heldur getur afleiðingin orðið sú, að virðingin fyrir lögum landsins yfirleitt þverri. Og ekki vex virðing íslenzku þjóðarinnar í augum annara þjóða við það. Af þessum ástæðum vildi eg sem lögreglustjóri, að lög þessi yrðu numin úr gildi.

Því var að vísu haldið fram 1909, að aðalhlutverk Goodtemplard, þegar lögin væru gengin í gildi, ætti að verða það, að snuðra uppi syndir náungana, þefa af þeim og kæra síðan fyrir lögreglustjóra. En reynslan hefir sýnt, að ekkert hefir orðið úr þessu, og ástæðurnar til þessa eru aðallega tvær.

Fyrst, að stúkum hefir hnignað og þeim hefir fækkað mjög, síðan lögin gengu í gildi, og hitt, að áhuginn fyrir þessu máli hefir dofnað ákaflega siðan reynslan fór að koma á bannlögin. Eg vil ekki beinlínis kenna bannlögunum það, að stúkur hafa lagst niður, heldur er því um að kenna, að stjórnin er nú ekki eins góð eða ströng í Goodtemplarafélagsskapnum eins og var um eitt skeið. Goodtemplarar vilja auðsjáanlega ekki skifta sér af því, þó að bannlögin séu brotin, og þá fer að verða örðugt fyrir lögreglustjóra að skifta sér af því, þegar enginn kærir. Og eg hygg sannast að segja, að mikið áfengi hafi verið flutt inn síðan 1912, en menn munu spyrja: Hvar eru sannanirnar? Það er vitanlega ekki hlaupið að því að koma með þær, en þó hefir það beinlínis komist upp oftar en einu sinni, að vín hefir verið flutt í land, eða átt að flytjast í land. Í annan stað má ráða ýmislegt af líkum, og mér er spurn, hafa ekki flestir þeir sem hér eiga sæti, heyrt þess getið, að vín væri ólöglega flutt inn í landið ? Mér er kunnugt um það, að gerð hefir verið tilraun til að brjóta lög þessi í stórum stíl. Það kom t. d. skip frá útlöndum með nokkra farþega og eitthvað 3000 flöskur af Gamla Carlsberg, mikið af Whisky og önnur vínföng, alt forsiglað að vísu, og þessu átti öllu að lauma í land, en það tókst að vísu ekki í það skiftið. Mér er engin launung á því, að tveir kunningjar mínir hafa sagt mér, að farþegar, sem farið hafa á botnvörpuskipum til Englands, hafi komið til sín og spurt, hvort þeir vildu ekki að þeir keyptu fyrir þá 1 til 2 Whiskykassa á Englandi. Þetta og margt annað slíkt, sem mér hefir borist til eyrna, finst mér benda til þess, að talsvert áfengi sé flutt á laun inn í landið. En úr því að lögin eru komin á, þá er sjálfsagt að framfylgja þeim, segja menn, en eg óttast, að það muni verða mjög erfitt verk. Hvernig getur t.d. lögreglustjóri, sem hefir margar hafnir undir, verið á þeim öllum til að rannsaka skip, sem koma? Og þó að hann aldrei nema forsigli það sem finst af áfengi, þá verður gömlum og reyndum sjómönnum ekki skotaskuld úr að koma einhverju undan. Það er heldur ekki hægt að rannsaka skip, sem eru 4 til 500 tons, öðruvís en að flytja alt í land úr þeim, en allir sjá, hvílík fjarstæða slíkt væri. Ég sé að vísu einn veg til að gera eftirlitið tryggara en nú er. Það er að hafa mann á hverri höfn, eins konar tollgæzlumann, sem rannsakaði hvern kassa sem kæmi á land. Og þó væri það ekki nóg. Vér þyrftum líka að hafa skip til eftirlits úti á sjó, sem gætti þess, að vín væri ekki flutt úr einu skipi í annað. En hvað mundi slíkt kosta? Það mundi kosta fleiri hundruð þúsund krónur, og vér hefðum alls ekki efni á svo kostnaðarsamri tollgæzlu. Það nær alls engri átt.

Reynslan hefir leitt í ljós, að stjórnarráðið hefir orðið að veita undanþágu frá þessum lögum; bindindinu hefir hnignað við þau og drykkjuskapur aukist, og vér höfum ekki efni á að framfylgja þeim. Reynslan sýnir, að bannlögin eru humbug, en hvað segir svo yfirdómurinn um þau? Hann hefir leitt í ljós, að þau eru ekki einungis götótt, heldur öllu fremur eitt stórt gat, sem allir bannfjendur geta að ósekju smogið út um. Dómurinn segir t. d., að áfengið sé komið til landsins, þegar skipið er lagst. Setjum nú t.d. svo, að hingað komi nú útient fiskiskip með brennivínstunnu og einhver komist á snoðir um það, bregði sér fram og kaupi tunnuna, en skipið fari um leið og hann leggur af stað í land. Það væri nú ekki nema eðlilegt þó Good Templarar, sem yrði varir við það, vildu ekki láta hann njóta tunnunnar. En hvað gerir svo þessi maður, ef bannmenn ætla sér að hindra það? Hann sendir til lögreglustjóra og biður um aðstoð lögregluliðsins til að koma tunnunni heim til sín.

Eg kann alveg utanbókar það sem mótstöðumenn mínir í þessu máli hafa fram að færa. Þeir segja, að þetta breytist alt við 1. Janúar 1915, því þá megi ekki framar selja áfengi hér á landi.

En það verður áreiðanlega auðveldara en þeir hyggja, að hafa vin um hönd eftir 1915. Bannmenn gæta ekki að því, að það er hverjum manni heimilt að eiga vín, og hafa til eigin afnota eftir 1. Jan. 1915. Eg er mjög hræddur um að það fari svo, að enginn kæri, þótt hann gruni að brot hafi verið framið. Eg er hræddur um, að þau ákvæði laganna, sem ganga í gildi 1915, verði ekki síður brotin en ákvæðin, sem gengu í gildi 1912, voru brotin og eru brotin.

Eg skal benda á eitt atriði, sem gengur í gildi 1. Jan. 1915. Í 11. gr. bannlaganna er svo á kveðið, að enginn megi flytja neitt áfengi út af heimili sínu, nema hann flytji búferlum eða það sé gert ófært til drykkju. Enginn maður má taka með sér »whisky« í vasann ef hann ríður sér til skemtunar inn að ám. Hann má ekki taka með sér, þótt ekki sé meira en 50 gröm — ekki einn einasta dropa. — Dettur nú nokkrum manni í hug, að lögreglan færi að þjóta upp til handa og fóta, þótt símað yrði frá golviðarhól, að þar væri maður með 100 gröm af »spiritus«. Mér dettur það ekki hug. Og eg býzt ekki við að nokkrum heilvita manni detti það í hug. Nei ! lögin verða aldrei annað en pappírsgagn.

Annað atriði, sem gengur í gildi 1. Jan. 1915, er það, að þá er hver maður skyldur að gefa lögreglustjóra skýrslu um, hve mikið áfengi hann hafi í vörzlum sínum. Eg er ákaflega hræddur um að framtalið verði ekki alstaðar ábyggilegt. Ef nokkur von á að vera um, að hægt verði að hafa eftirlit með því að framtalið sé rétt, þá verður hver lögreglustjóri að fara heim á hvert einasta heimili, snuðra þar í hverju horni og þefa upp úr hverri kirnu og hverjum dalli. Í þessu atriði geta lögin aldrei orðið annað en pappírsagn, fremur en í því atriðinu, sem eg nefndi áðan.

Úr því eg annars mintist á 11. gr., verð eg að halda áfram með 12. og 13. gr.: Ef maður sést ölvaður þá má draga hann fyrir dómara. Svo er ákveðið í þessum hávitru lögum. Má eg nú spyrja, hvenær er maður ölvaður. Hve mikið af »spiritus« þarf hann að hafa drukkið til þess að hann geti talist ölvaður. Er hann ölvaður þegar hann hefir drukkið 1 bjór? eða þarf hann 3 bjóra eða ef til vill meira ? Ef einhver maður er »blindfullur«, þá má ekki draga hann fyrir dómara, því að þá er hann viti ! sínu fjær, og það er óverjandi að halda halda rétt yfir slíkum manni.

Það sem eg hefi nú talað um til þessa, er, hvernig lögin hafi reynst og hvernig þau muni reynast. En eg á eftir að tala um þá hlið málsins, sem er einna svörtust af þeim öllum og það er fjárhagshliðin. Við höfum orðið varir og það til muna — við afleiðingarnar af því glapræði, er þingið 1909 dembdi bannlögunum yfir þjóðina algerlega fyrirvaralaust. Og það er engin furða að við höfum orðið varir við áhrifin. Árin 1906-07 nam tollur af áfengi 427 þús. kr. Þessari tekjulind landssjóðs kipti þingið í burtu án þess að setja nokkurn hlut í staðinn. Eg man, hvað framsögum. bannmálsins sagði um það, þegar hann var spurður um, hvaða tekjur ættu að koma í staðinn, þá segir hann: »Það liggur ekki fyrir á þessu þingi að svara þeirri spurningu«. Það var ein af mörgum dauðasyndum þess þings, hvernig það skildi við það mál.

Þegar atkv.gr. um bannið fór fram 10. Sept. 1908, þá var ekki gerð in minsta grein fyrir því, hvað koma ætti í staðinn fyrir þær tekjur, sem landið hefði af víninu. Það var svo sem ekki verið að gera kjósendum það ljóst að um stórkostlega hækkun á tollum og sköttum var að ræða, ef bannlögin yrði að lögum. Léttúðin var jafn vel svo mikil, að á þinginu 1908 þótti það ekki liggja fyrir að benda á tekjur í staðinn fyrir vintollinn, sem var verið að afnema. En spurningin lá fyrir seinna. Hún lá fyrir þinginu 1912, og það fann enga leið heppilegri en að leggja toll á allar vörur, sem til landsins flyttust. Þá var lögleiddur hinn svonefndi »vörutollur«, sem orðinn er alræmdur hér á landi, þótt hann sé ekki gamall.

Ef menn nú hugleiða, hvernig vörutollurinn kemur niður á landsmönnum, geta menn skjótt gengið úr skugga um, að hann kemur ærið hart niður á fátæklingum, svo að það er ekki ofhermt, að nú bera fátæklingarnir mestan hluta af þeirri byrði, sem áður hvíldi á efnamönnum og útlendingum, því að þessir tveir flokkar keyptu mest áfengið og greiddu þar afleiðandi bróðurpartinn af áfengistollinum. En nú þegar allar vörur eru tollaðar, þá er tollabyrðinni að miklu leyti velt af efnamönnum og útlendingum yfir á fátæklingana, sem margir hverir hafa aldrei keypt einn dropa af áfengi og þar af leiðandi ekki goldið einn eyri af áfengistollinum.

Eg geri ráð fyrir að áfengistollurinn næmi nú um 700 þús. króna, ef bannlögin hefðu ekki orðið til. Skyldi ekki mörgum fátæklingnum veita léttara að komast áfram, ef að hann losnaði við þau gjöld, sem hann nú verður að gjalda til þess að fylla í skarðið fyrir þessa fúlgu? Mikill hluti áfengistollsins var áður greiddur af útlendingum. Það voru næstum því þau einu gjöld, sem þeir greiddu í landssjóðinn. Það er ekki gott að segja, hve mikið þeir keyptu hér á landi af áfengi, en víst er um það, að það var talsvert.

Eg veit til dæmis að taka, að í einu kauptúni á Vesturlandi var stundum á einum degi útlendingum selt áfengi fyrir 2000 kr. Og það mun ekki vera eins dæmi, að þeir keyptu fyrir svo stórar upphæðir. Við erum of fátækir til þess að við höfum efni á að kasta frá okkur slíkum fúlgum. Það má margt gott gera fyrir 1/2–3/4 milíón króna; eg er viss um, að eg stend ekki einn uppi hér í deildinni með þá skoðun.

Þá er enn eitt atriði, sem eg hefi ekki enn minst á.

Það eru margir mjög góðir, nýtir og löghlýðnir borgarar til á þessu landi, sem ekki hafa ef til vill nokkurn tíma brotið nein lög, sem munu ekki telja sér mikla vansæmd í því að brjóta þessi lög. Þeim finst gengið of nærri persónulegu frelsi manna, þegar löggjöfin fer að hlutast til um það, hvað menn mega drekka og hvað ekki. Og að hverju leiðir slík íhlutunarsemi frá löggjafarvaldsins hálfu, þegar hún er einu sinni komin á ? Því er fljótsvarað. Til yfirdrepskapar og lögbrota.

Eg get vel ímyndað mér, að haldið verði áfram með þessa bannstefnu. Og eg þykist hafa séð dálitla byrjun til þess hér á þinginu nú þegar. Menn munu minnast þess, að hér hefir legið fyrir frumvarp, sem fór í þá átt að takmarka sölu á tóbaki. Rangar átti það bann að eins að ná til unglinga; en hver veit, nema af því banni gæti sprottið bannlög gegn allri tóbakssölu hér á landi? Þótt nú ólíku sé saman að jafna, slíku banni sem frumvarpið fór fram á og þessu banni, sem komið er á, þá er samt ekki mikill vandi að sjá, að hér er verið að stiga spor í áttina til þess að halda áfram þessum ófögnuði. Eg hefi jafnvel heyrt menn segja, að nauðsynlegt væri að setja bannlög um innflutning á kaffi og ýmissi annari munaðarvöru. Eg er nú reyndar ekki sérlega hræddur um að kaffibann verði nokkurn tíma lögleitt, því að, eg hugsa, að um það leyti sem fitjað; verður upp á því, verði kvenfólkið búið að fá kosningarrétt, og þá er ekki svo mikil hættan: þær munu kunna betur við að vera ekki kaffilausar, blessaðar dúfurnar!

Það getur vel verið, að tillaga okkar fái ekki mikið fylgi nú, en sá tími mun koma, að bannið verður upphafið, og það er ekki víst að þess verði langt að bíða. Það líða áreiðanlega ekki mörg ár þangað til hróflað verður við bannlöggjöfinni.

Eg skal taka það fram, að þótt eg sé því fylgjandi, að bannið verði numið úr gildi, þá vil eg ekki hafa gömlu áfengislöggjöfina eins og hún var. Hún þarf þvert á móti margvíslegra breytinga við.

Eg er viss um það, að þegar reynslan hefir fært Good-Templurum heim sanninn um, að ekki er nokkur kostur að hefta innflutning á áfengi með bannlögum, þá verða þeir eins fúsir á að afnema það, eins og þeir voru á að koma því á. Við flutningsmenn þessarar tillögu sjáum það fullvel, að ekki er þess nokkur kostur að við losnum við innflutning á áfengi og þess vegna viljum við afnema bannið, til þess að halda tollinum.

Eg mintist á það áðan, að eg væri engan veginn viss um, að tillaga okkar fengi fylgi í þetta sinn. Getur margt borið til þess, sem hér er óþaft að telja. En við flutningsmennirnir teljum langréttast, að allir yrðu þessari tillögu fylgjandi, jafnt »Good-Templarar« sem aðrir. Því að hafi bannvinum fjölgað síðan 1908, þá er það »Templurum« og þeirra málstað gróði, að atkvæðagreiðsla fari fram. Ef hitt aftur á móti yrði ofan á að þeir væru nú orðnir í minni hluta, þá er ekki nema sjálfsögð skylda afnema lögin. Eg og mínir líkar teljum það alveg efalaust, að bannvinum hafi fækkað til stórra muna og þess, vegna viljum við láta atkvæðagr. fara fram

Eg mun að svo komnu ekki tala meira um tillöguna, en biða átekta, ef einhver hreyfir mótmælum gegn ræðu minni.