09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) leyfði sér að bera það fram, þvert ofan í það sem háttv. deildarmenn hafa heyrt, að eg væri að skjóta mér undan ábyrgðinni: þessu máli. Allir sem heyrðu mál mitt, hljóta að hafa tekið eftir því, að eg sagði að auðvitað bæri eg ábyrgð á, þessu, þótt eg hefði ekki persónulega tekið þátt í þessum stjórnarathöfnum. Mér hefir ekki dottið í hug að skjóta mér undan neinni ábyrgð, og eg lýsi yfir því að eg er algerlega samþykkur þessum ráðstöfunum, og mundi hafa gert einmitt það sama, sem gert hefir verið, ef eg hefði verið viðstaddur. Eg mótmæli því, að ráðherrann sé umboðsmaður þingsins á þann hátt að honum beri að beygja sig fyrir lögfræðislegum sleggjudómum einstakra þingmanna. Í lögskýringum er engin stjórn skyldur til að fara eftir öðru en því sem hún sjálf hyggur réttast vera. Þetta tvent, sem hér hefir verið dregið fram, er ekkert leyfi eða undanþága frá bannlögunum, heldur hefir stjórnin litið svo á, að það kæmi bannlögunum ekki við. Hvort það er rétt álitið, er dómstólanna að úrskurða.

Þá fór inn háttv. þm líka skakt með það, að eg hefði sagt að þjóðarréttur og exterritorial réttur væri eitt og ið sama. Slík fásinna hefir mér aldrei dottið í hug. Hann sagði, að um exterritorialrétt geti ekki verið að ræða nema milli framandi ríkja. Hann var að fetta fingur út í það að danskt herskip væri þá talið til framandi ríkis. En hér er um tvö löggjafarsvið að ræða, hvað sem ríkiseiningunni líður. Það löggjafarsvið, sem dönsk herskip heyra undir, er alveg laust við bannlögin. Okkar land er eina löggjafarsviðið í veröldinni, sem verður að lúta slíkum lögum. Það er því ekkert óeðlilegt við það, að dönsk herskip njóti frelsis frá þeim lögum, eins og herskip allra annara þjóða. Um innflutninginn á Akureyrarhöfn er það að segja, að ölið átti að flytja úr skipi yfir í herskipið, úr Ingólfi yfir í Islands Falk. En á leiðinni var eitthvað af því lagt upp á bryggjuna rétt sem snöggvast, og að vöru spori tekið þaðan aftur og flutt í herskipið.

Að kalla þetta innflutning í landið, er sama sem að snúa öllu öfugt og nær ekki neinni átt. Háttv. 1. þingm. Rvk. (L. H. B.) lét fyrst svo sem stjórnin hér hefði vanrækt að koma fram ábyrgð út af þessum »innflutningi«, en hann sansaðist síðar á, að það væri vitleysa tóm að stjórnin færi að hegna sjóðliðsforingjanum fyrir þetta. Hann áttaði sig á því, að baeði Fálkinn og mælingadeildin hlíta sínum hegningarlögum og standa fyrir utan okkar dómsvald í því efni. En hann vildi þó ekki láta mig sleppa ábyrgðarlausan fyrir þetta, og sagði, að það væri fádæma-uppburðarleysi af mér að klaga það ekki fyrir hermálastjórninni dönsku, að herdeildin hefði fengið þessar 13 flöskur af vini og fyrir flotamálastjórninni, að Fálkinn hefði fengið öl. En hvernig átti mér að detta slíkt í hug, þar sem eg álít ekki um neitt brot að ræða? Það skiftir væntanlega engu máli og eg veit ekki, hvort eg á að voga að stynja því upp vegna væntanlegra ásakana frá háttv. 1. þm. Rvk. um, að eg vilji skjóta mér að baki annara, að þó eg hefði viljað skýra þessum herstjórnarvöldum frá þessu, þá var mér það ómögulegt, því eg vissi ekkert um þessa merkisatburði fyr en mér var sagt, að hv. þm. Rvk. ætlaði að koma með fyrirspurn og greipilega vantraustsyfirlýsingu út úr þessu »vítaverða« athæfi mínu. Í stjórnarráðinu hafði engum þótt þetta svo markvert, að neinum hefði dottið í hug að segja mér frá því. En aðrir kraftar höfðu verið í hreyfingu. Leynilegar njósnir höfðu farið fram bak við tjöldin, til þess að reyna að finna einhverja átyllu, sem nota mætti til andróðurs og æsinga, einhverja yfirtroðslu-vitund, sem sletta mætti framan í stjórnina, þó ekki væri nema til þess að skaprauna henni, og var þó lagst lágt þarna, að lúta að því að taka þessi tvö atriði, sem inn háttv. þm. hefir þó hlotið að vita, að gátu ekki snert persónulegt traust mitt til eða frá.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meir a, eg mótmæli því algerlega, að sýndur hafi verið nokkur slæleikur í að framfylgja bannlögunum, þegar verið hefir að ræða um brot á þeim lögum. En hitt getur verið, að þau hafi verið brotin á laun, en brot, sem ekki er kært fyrir, getur stjórnarráðið ekki ráðið við.