10.09.1913
Neðri deild: 56. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

92. mál, sauðfjárbaðanir

Einar Jónsson:

Eg ætla ekki að tala langt mál, en með leyfi hæstv. forseta ætla eg að fara dálítið út fyrir efnið. Eg álít sem sé lítið gagn að þessum fyrirskipunum, þótt sauðfjárbaðanir séu í sjálfu sér góðar og eg því muni ekki setja mig upp á móti þessu frumv. En eg vildi minna á annað, og það er það, að í dag er 10. Septbr., 5 ára afmælisdagur okkar hérna. Það eru 5 ár síðan við vorum kosnir til þings síðast, flestir okkar, og þá finst mér það eiga vel við, að menn athugi það, hvernig þeir hafa staðið í stöðu sinni í þessi 5 ár. Eg býst nú við því, að eg þurfi ekki að minna háttv. þingm. á þetta. Þeir eru sjálfsagt allir svo samvizkusamir menn. En eg vil þó að minsta kosti nota tækifærið til þess, að þakka öllum góðum mönnum fyrir samveruna, og um leið biðja alla þess, að gera svo vel þennan stutta tíma sem eftir er, að gæta þess, jafnvel betur en hingað til, að reka ekki að ástæðulausu hnífla hver í aðra, eins og eg, því miður, varð var við að átti sér stað í gærkvöld.