10.09.1913
Neðri deild: 56. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

118. mál, forkaupsréttur landssjóðs að jörðum um erfðafestuábúð

Bjarni Jónsson:

Eg ætla ekki að flytja langt mál, en þó langar mig til að segja örfá orð. Þó að ýmsar greinir hafi verið með okkur »nautunum«, þá verð eg að lýsa viðurkenningu minni á þessari tillögu háttv. þm. (S. S.). Eg hygg hana rétt upp borna og ekki of snemma, heldur miklu fremur of seint. En það er ekki honum að kenna. Eg er ósammála þeim er tala svo sem háttv. síðasti ræðumaður (St. St.). Þeir gera ekki annað en að tefja gott mál, með því að streitast við að halda í þveröfuga átt við það sem halda ber. Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) þarf ekki að ímynda sér, að við teljum þetta gott mál af því að það er útlent. Við getum þess að eins, að höfundur þess er útlendur, til þess að gera okkur ekki seka í því, sem kallað er hugmynda þjófnaður eða bókaþjófnaður. Og það er enginn hlutur verri fyrir það, þd að erlendur maður hafi hugsað hann upp.

Nú vill svo til, að Ísland er hér um bil eina landið, sem svo er sett, að það getur bókstaflega framfylgt þeirri hugsun, að landið eigi sig sjálft. Jarðeignir eru svo ódýrar hér, að landssjóður getur á skömmum tíma, sér að bagalausu, keypt alt landið. Og hér er sannarlega ekki til mikils mælst, að landssjóði sé leyfður forkaupsréttur að þeim jörðum, sem ganga kaupum og sölum. Hitt væri strangara, þó að það gæti talist réttmætt, að taka jarðirnar af mönnum eignarnámi eftir mati. Í því tilfelli væri rétt að tala um eignarnám, en ekki í sambandi við vatnsveitingar. Það verður því ekki annað sagt, en að hér sé farið hægt af stað.

Þegar menn eru að standa upp og segja, að sjálfsábúðarstefnan sé holl atefna og heppileg fyrir landbúnaðinn, þá eru það engin mótmæli á móti því sem við höldum fram. Okkur dettur ekki í hug að neita því, að sú stefna sé góð. En þetta er einmitt bezta ráðið til þess að koma á varanlegri sjálfsábúð. Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) sagði, að ábúðin á landssjóðsjörðunum hefði ekki gefist vel. Þetta sýnir, að hann skilur ekki, hvað hér er um að ræða. Hingað til hafa menn búið á jörðum landssjóðs eins og leiguliðar og ekki átt verk sín á jörðunum. En þegar um erfðafestuábúð er að ræða, þá er mönnum leigt landið eftir réttu mati og á þann hátt, að þeir eiga allar umbætur, er þeir gera á jörðunum. Þeir geta selt þær og veðsett og farið með þær að öllu leyti eins og eign sína. Þeir geta, meira að segja, látið þær ganga að erfðum. Auk þess er það sjálfsagt ákvæði, að ef ábúandi dæi eða yrði að fara af jörðinni nauðugur, þá tæki landið umbæturnar og borgaði þær út í hönd. Og í þessu er mesta tryggingin fólgin fyrir því, að menn bæti jarðirnar eftir því sem þeir frekast geta.

Með þessu móti er líka hægt að styðja þá stefnu tímans, sem rás viðburðanna hefir skapað, og hún er sú, að stórbúskapurinn er að breytast í einyrkjabúskap. Arðmiklar atvinnugreinir hafa komið upp á ýmsum stöðum, og það leiðir til þess, að fólkið flykkist úr sveitunum þangað sem atvinnan býðst. Við það verður tilfinnanleg vinnukraftaþurð í sveitunum. Nú er miklu almennara en áður var að hver maður stundi jörð sína sjálfur með sínu skylduliði og fái ekki vinnufólk. Og þetta heldur svo áfram. Það er ekki eingöngu að þetta sé svo hér á landi, heldur er það lögmál um allan heim, að fólkið þyrpist úr sveitunum til borgannna. Í öllum þremur Norðurlöndum er sterk hreyfing í þá átt að hjálpa einyrkjabúskapnum með því að fá mönnum smá grasbýli til afnota með sæmilegum kjörum. En versti þröskuldurinn, sem þar er í veginum, er það, að einstakir menn sitja yfir stórum landsvæðum, sem þeir nota ekki nándarnærri að hálfu leyti, en eru þó ófáanlegir til að sleppa nokkrum hluta af. Landið liggur ónotað og menn fá ekki að komast að því, þó að þeir séu fúsir til þess og hafi sára þörf á því. Allir sjá, hvað þetta er ranglátt.

Hér er ekki verið að tala um að taka eignir af mönnum, sem þeir hafa fengið eftir gildandi lögum. En réttast væri að landið ætti sig sjálft, því að hver maður, sem fæðist, á jafna kröfu til jarðarinnar. Sveitarómaginn, þó að hann sé kominn af sveitarómögum svo langt sem rakið verður, á jafnmikinn rétt til lífsuppeldis af landinu, sem hann er fæddur í, og sá maður, sem er fæddur af stórauðugri ætt og á margar jarðeignir, sem gengið hafa að erfðum mann fram af manni.

En þessu verður aldrei hægt að kippa í lag, nema með því, að landið eignist sig sjálft. Þá fyrst er hægt að láta hvern mann hafa þann hluta jarðarinnar, sem honum er fært að rækta, og fyrir það geldur hann landskuld. Þá þarf ekki að deila um fasteignaskatt, því að landskuldin er eini rétti fasteignaskatturinn, sem menn eiga að gjalda í sameiginlegan sjóð.

Þetta, sem eg hefi nú sagt, er svo augljóst mál og hverjum manni skiljanlegt, að ekki ætti að þurfa að vitna í fræðimenn. En þeim er vilja kynna sér þetta nánara fyrir næsta þing, ræð eg til að lesa eitthvað af ritum Henry George's, t. d. stutt bréf, er hann sendi páfanum hér um árið, þar sem hann gefur stutt yfirlit yfir kenningar sínar. Eg man ekki nákvæmlega, hvenær það kom út, en eg hygg, að það hafi verið um 1890.

Eg skal svo ekki þreyta menn á lengri ræðu. Málið er flókið, ef ætti að rekja það frá rótum. En til þess að segja aðalatefnuna, þarf ekki fleiri orð en nú hafði eg. Reynsla, er á móti þessu mæli, er ekki til, því að þetta hefir aldrei komið inn á reynslusviðið. Og jafnvel þó að eitthvað í þessu efni hafi reynst vel, er ekki þar með sagt, að þetta geti ekki reynst betur. Rökin liggja ljós, tvenn og þrenn á tungu hvers manns, sem þetta mál hefir hugsað og rétt kann að hugsa. Og svo bætist það við, að Ísland er það land, þar sem auðveldast er að framkvæma þessa hugmynd. Það er engin ástæða til að bíða lengi, þegar það sem beðið er eftir, er bæði þarflegt og nauðsynlegt.