10.09.1913
Neðri deild: 56. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

118. mál, forkaupsréttur landssjóðs að jörðum um erfðafestuábúð

Framsm. (Sigurður Sigurðsson):

Eg get ekki leitt hjá mér að segja nokkur orð út af framkomnum andmælum, sérstaklega frá háttv. 2. þm. Eyfirðinga og háttv. 2. þingm. Húnv. Um það er eg ekki í neinum vafa, að sala þjóðjarða og kirkjujarða leiðir ekki til neina góða í landbúnaðinum. Landbúnaðinum væri það langhollast, að landið ætti sig sjálft. En eg veit, að þegar eg og aðrir halda fram þeirri skoðun, þá særir það tilfinningar þeirra manna, sem drukkið hafa í sig þá skoðun, að sjálfaábúðin sé in eina rétta til umbóta og leiðréttingar landbúnaðinum; en það er langt frá að svo sé.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) vék að því, að umbætur væri meiri hjá sjálfseignarbændum en leiguliðum. En eg vil segja, að eftir minni þekking og athugun, þá er þetta mjög svo upp og niður. Eg fullyrði, að víða verði ekki gert upp á milli sjálfseignarbænda og leiguliða í þessu efni.

Eg get nefnt dæmi þessu til sönnunar. Maður, sem mældi jarðabætur allra bænda í upphluta Árnessýslu, rannsakaði, hvorir meira hefði gert, sjálfseignarbændur eða leiguliðar, komst að þeirri niðurstöðu, að það munaði á öllu þessu svæði til jafnaðar tveim, segi og skrifa tveim, dagsverkum að meðaltali. Og eg hygg ,að sama yrði ofan á, ef þetta væri víðar athugað og mælt. En ef Árnessýsla er einsdæmi í þessu efni, þá verð eg að segja, að Árnesingar eru meiri föðurlandsvinir og viðsýnni jarðabótarmenn en aðrir landsmenn.

Að búskapur sé yfir höfuð nokkuð betri hjá sjálfseignarbændum en leiguliðum, það held eg sé líka alveg upp og niður. Eg veit ekki betur en búskapur á þjóðjörðum sé víða mjög góður, og þegar menn eru að fjölyrða um, hvað leiguliðabúskapur sé bágborinn, þá er það oft og einatt bygt á misjafnlega ábyggilegum sögusögnum af Snæfellsnesi. En eg er kunnugur þar og veit, að landssjóðalandsetar þar standa ekki sjálfseignarbændum að baki yfir höfuð tala. Og þó að jarðir hafi þar sumstaðar verið miður vel setnar en áður, þá hafa framfarir orðið þar á síðustu árum og víða er þar góður búskapur.

Mér er líka kunnugt um, að jafnvel í Eyjafirði, kjördæmi háttv. 1. þm. Eyf., var búskapur sjálfseignarbónda þar á jörð nokkurri ekki betri en það, að ekkert hafði verið gert á jörðinni til bóta um mörg ár, og við það bættist svo það, að partur af túninu stóð jafnvel í sínu, og hafði þó jörðin verið lengi í leiguábúð þessa manna. Hins vegar má benda á jarðir, sem lengi hafa verið í sjálfábúð, sem bættar hafa verið til mikilla muna, og eg vil benda á það, að margir, sem fengið hafa verðlaun úr styrktarsjóði Kristjáns IX, hafa einmitt verið leiguliðar meðan þeir gerðu mestu jarðabæturnar, og sumir allan sinn búskap. Því segi eg það, að leiguliðar jafnast fullkomlega á við sjálfaeignarbændur og standa þeim jafnvel framar sumir hverir. Eg skrifaði fyrir 11/2 ári grein í »Frey« um »fyrirmyndarbændur«, fátæka leiguliða, sem mikið lá eftir. Sumir höfðu verið á landssjóðsjörðum, sumir á kirkjujörðum, sumir leiguliðar bænda. Þó að sumir þeirra hafi síðan fest kaup á jörðum sínum, þá hafa þeir gert mestar jarðabæturnar meðan þeir voru leiguliðar. Faðir minn var einn þeirra manna, sem verðlaun hlaut úr styrktarsjóði Kristjáns IX, og skal eg geta þess, að hann var leiguliði meðan hann gerði sínar jarðabætur eða mestan hluta þeirra, og sama er að segja um marga aðra bændur og jarðabótamenn fyr og síðar.

Lögin um sölu þjóðjarða og kirkjujarða voru tilraun til þess að fjölga tölu sjálfseignarbænda, en það var tilraun, sem aldrei gat eða getur náð tilgangi sínum. Og það eru einmitt þessi lög, sem ef til vill fremur öðru hafa staðið í vegi fyrir því, að gerð væri breyting til batnaðar á kjörum leiguliða, og störf þingsins til umbóta leiguliðaábúðinni undanfarin þing hafa meðfram strandað á kenningunum um sjálfseignarábúðina. Þessi Sjálfsábúðarhugmynd er hugsjón, sem erfitt og jafnvel ómögulegt verður að koma í framkvæmd eins og nú er ástatt. Betra og eðlilegra að landssjóður eignist nú aftur þær jarðir, sem hann hefir illu heilli látið af hendi.