11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Lárus H. Bjarnason:

Eg var að bíða eftir því, að háttv. 1. þm. S.-MúI. (J. Ól.) tæki til máls, þar sem mér var kunnugt um, að hann átti breytingartillögu við frumvarpið. Eg ætti ef til vill að vera hæstv. ráðherra þakklátur fyrir að hann tekur upp orði til orðs ákvæði, sem eg hafði áður sett í frumv. En eg er það nú samt ekki, vegna þess, að eg tel ekki líklegt að það ákvæði nái nú fram að ganga í háttv. efri deild. Hæstv. ráðherra hélt því fram, að fyrir sér væri það aðalatriðið í frumvarpinu, og minsta kosti annað aðalatriðið, að sendiræðismenn fengju leyfi til að flytja inn vín til heimilisþarfa. Fyrir mér var það ekki aðalatriði. Það má að vísu segja, að það sé sanngjarnt, en aðalatriðið fyrir mér var að fá nauðsynlegar bætur á þeim göllum á aðflutningsbannslögunum, sem fundist hafa, en Alþingi er nú svo skipað, að þeim einum út af fyrir sig hefði ekki orðið framgegnt. Nú verð eg að vera á móti tillögunni á þgskj. 806, og af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að eg tel vonlaust um, að hún nái fram að ganga í efri deild, en tel hins vegar tillöguna á þgskj. 792 ugglausa til framgangs þar. Og í öðru lagi af því, að eg vil girða fyrir að leyfi til innflutnings á áfengi verði ranglega veitt, eins og komið hefir fyrir áður, en fyrirbyggingarákvæði í því skyni hefir ráðherra felt úr inu upprunalega ákvæði.

Svipuð tillaga og hv. 1. þm. S.-MúI. (J. Ól.) ber nú fram, féll fyrir vangá í efri deild, en nú veit eg að tillaga hans mundi ganga fram. Hins vegar veit eg að tillaga hæstv. ráðherra nær ekki samþykki deildarinnar. Reyndar veit eg, að, hæstv. ráðherra getur fengið þingm. Ísf. til þess að hringja með atkvæði sitt eins nú og á Mánudaginn var; en honum nægir ekki fylgi hans.