11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Lárus H. Bjarnason:

Hæstvirtur ráðherra kom með alveg nýja ekýring á exterritorialréttinum, sem hvern löglesinn mann má undra að heyra.

Hæstv. ráðherra heldur því fram, að þeir sem þessa svo kallaða ezterritorialréttar njóta, séu undanþegnir bannlögunum og öðrum landslögum. Þetta er in mæta kórvilla. Þeir menn mega ekki fremur brjóta bannlögin en drepa mann eða stela.

Exterritorialrétturinn lýsir sér eigi í því, að þeir sem hans njóta, séu undanþegnir lögum dvalarlandsins, því að allir eru háðir lögum þess lands, sem þeir dvelja í, jafnvel konungar, hvað þá aðrir — heldur lýsir þessi réttur sér að eins í því, á hvern hátt brot slíkra manna verði átalin. Vitanlega verða þeir ekki látnir sæta ábyrgð fyrir dómi dvalarlandsins, heldur einvörðungu fyrir dómstólum heimalandsins, og af því getur eðlilega orðið allerfitt að koma fram ábyrgð gegn slíkum mönnum. En það er sitt hvað, hvort manni er leyfilegt að gera tiltekið verk, og svo hitt, hvar koma eigi fram ábyrgð fyrir verkið.

Slíkar fáránlegar kenningarætti enginn maður að þurfa að heyra af lögfræðingi og sízt af lögfræðingi í ráðherrasessi, sem ætti að vera innan handar að afla sér jafnalþektrar fræðslu hjá aðstoðarmönnum sínum, hafi hann hana ekki sjálfur.