11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2396 í C-deild Alþingistíðinda. (2635)

124. mál, íslenskur siglingafáni

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Það sem valdið hefir því, að við höfum leyft okkur að koma fram með þessa þingsályktunartillögu, er ferill fánamálsins á þessu sumri, utan þings og innan.

Menn muna atburðinn, sem varð 12. Júní og þarf eg ekki að endurtaka þá sögu. Þegar til þingsins kom, var borið fram frumv. um staðar- eða landafána, en það fullnægði ekki þeim kröfum, sem við flutningsmerin þessarar tillögu gerum með allan þorra þjóðarinnar á bak við okkur. Það var ekki þess konar fáni, sem þjóðin heimtar, er frumv. fór fram á, svo að það var ekki neitt svar við ofbeldisverkinu 12. Júní. Þegar svo frv. kom úr Nd. — í því formi, að það fór fram á landafána — til Ed., þrátt fyrir mikla mótspyrnu okkar flutningsmanna þessarar tillögu, lagfærði hún það svo, að hún tók orðið lands- framan af og getur það ekki hafa verið gert í öðrum-tilgangi en þeim, að frv. löghelgaði íslenzkan fána, eins og orðið fáni þýðir í málinu, með öðrum orðum: ríkis- eða siglingafána. Þetta var samþykt í háttv. Ed. við 2. umr. En þetta var aftur, illu heilli, felt við 3. umr. á þá lund, að háttv. þm., sem virðast alt í einu hafa fengið svo mikið traust á háttv. ráðherra til að fylgja málinu fram, fólu honum málið — að koma því á framfæri. Eg vil nú ekki undirskrifa þetta traust háttv. þm., en þó reyni eg að gera mér von um, að hann vinni það í þessu máli, sem hann getur, þjóðinni og sjálfum sér til gagns og sóma. Samt vildi eg og við flutningsm., að Nd. legði orð í belg og skýrði honum frá, hver væri vilji þings og þjóðar í þessu efni. Við Viljum hjálpa hæstv. ráðherra með því að benda honum á, hvers þjóðin krefst, svo að ekki slái í baksegl fyrir honum, þegar hann kemur með málið fyrir næsta þing.

Þess ber líka að gæta, að frumv., eins og það var samþykt í háttv. Ed., getur verið tvírætt. Það er hægt að leggja í það annan skilning en þann sem þjóðin vill. Á þessum misskilningi má hæstv. ráðherra ekki ala, þegar hann ber málið fyrir konung, og því viljum við nú þegar taka skarið af.

Þá er það og athugavert, að ekki er tekið fram í dagskránni, sem nauðsynlegt er, að áherzla sé lögð á það, að gerð fánans sé in sama og samþykt var í frumv.. Sé ekki haldið fast við gerðina, þá getur litið svo út sem dagskráin sé ekki annað en dulbúin tilraun til þess að vinna bug á fánahreyfingunni hér á landi — einkum ef ætlast er til að breyta litunum, sem hafa unnið ást og hylli þjóðarinnar og hlotið hafa vígslu við atburðinn, sem varð 12. Júní þ. á. Það væri því in versta fásinna að rugla frá þessari gerð og getur ekki skoðast á annan hátt en sem mótspyrna gegn þeim mönnum, sem uppáatunguna áttu um þessa gerð. En nú eru þeir horfnir. Nú er það þjóðin öll, sem heimtar þennan fána og engan annan.

Eg hef heyrt tvær mótbárur á móti þessum fána. In fyrri er sú, að hann sé svo líkur gríska fánanum, eða réttara sagt sjóliðsforingjamerki Grikkja, að hann verði ekki greindur frá því. En þetta er skakt. Gríski siglingafáninn er röndóttur og að eins kross í einum feldi uppi við stöngina, svo að ekki er á því að villast. Hitt merkið, sjóliðsforingjamerkið, er nú þessi krossfeldur úr fánanum, en það væri heldur ekki mikil mótbára, þótt þetta merki væri nokkuð svipað okkar fána, því að það er ekki siglingafáni, svo að ekki mundi það valda neinum misskilningi, þótt grísk herskip færu að sigla hér um norðurhöfin, enda er ekki sjóliðsforingi (aðmíráll) á hverju herskipi, eða íslenzk skip um Miðjarðarhafið, enda bera herskipin ekki merkið á aftursiglu, eins og öll skip bera siglingafána. Það er því ekki þörf að beygja sig fyrir þessari mótbáru.

Þá hefir það verið sagt, að það væri ókurteisi við konung, að samþykkja ákveðinn fána, án þess að honum gæfist kostur á að láta álit sitt í ljós. Þessi ástæða er ekkert annað en uppspuni og ber enn minna gildi en in fyrri: Raunar er það svo, að flestra þjóða fánar eru svo gamlir, að þeir eiga sögu sína til einvaldra konunga að rekja, en það stafar ekki af því, að það liggi í hlutarins eðli, heldur hinu, að konungarnir voru einvaldir og réðu því þessum málum sem öðrum, og jafnframt af því, að þeir voru sjálfkjörnir herforingjar. Eg get líka nefnt að minsta kosti einn fána, sem aldrei hefir komið undir konungs-atkvæði. Hann er rauður með hvítum krossi og er fallinn af himnum að tilhlutun guðs almáttugs, sem alls ekki spurði Danakonung neinna ráða. Það er alls ekki hægt að segja, að Alþingi sýni nokkra ókurteisi, þótt það ákveði gerð fánans. Þess er líka að gæta, að við höfum þingbundna konungsstjórn, og það er því ekki konungur, sem á endilega að eiga frumkvæðið að þessum málum, heldur sá sem ábyrgð ber á stjórnarathöfninni. Það eitt nægir, að ráðherra skýri konungi frá, að Alþingi óski eftir þessari gerð á fánanum, og eg er þess fullviss, að konungur er oss svo góðviljaður, að hann setur sig ekki á móti óskum Alþingis í þessu efni.

Eg endurtek það, að það liggur í hlutarins eðli, að það er siglingafáni, sem íslenzka þjóðin krefst. Það er Íslendingum enginn sómi, að það standi í lögum, að þeir megi draga upp einhverja blæju, sem enga þýðingu hefir. Við þurfum engin lög til þess — það er hverjum manni heimilt. Og við þurfum ekki að semja lög um eitthvert merki, sem auðkenni okkur t. d. frá Grænlendingum. Við höfum okkar þjóðareinkenni í tungu okkar og fari.

Það er ekki að eins þjóðarmerki, sem við krefjumst — það sjá allir, að við erum sérstök þjóð — nei ! það er merki þess, að við séum sjálfstætt ríki. Eigi fáninn að tákna þetta, þá er óþarfi að vera nokkuð að bisa við málið.

En sé hitt vilji okkar, þá þýðir ekki að vera koma fram með neitt tvírætt, því að það eru til aðrir okkur jafnfínir í hártogunum og því gefur að skilja, að skilningur þess sterkara hlýtur að ráða. En sé málið skýrt frá upphafi, þá hljótum við, þótt ekki verði það strax, að sigra um síðir.

Þessar upplýsingar vil eg gefa stjórninni, þegar hún fer með erindi Ed. til konungs. Og breyti hún samkvæmt þeim, þá á hún von á þökkum allra Íslendinga. Eg veit það líka, að eg og meðflutningsm. mínir eigum þökk skilið fyrir það, að gefa stjórninni færi á að ganga hreint að verki og þurfa ekki að vitna til tvíræðra orða háttv. Ed. Og eg tala hér ekki fyrir hönd mína og flutningsm. einna, heldur tala eg erindi allra þeirra mörgu, sem okkur eru sammála. Og þótt gengið væri til atkvæða núna um þetta mál, þótt aðrir hafi ekki heyrt ræðu mína, en þeir háttv. þingm., sem hér sitja og beygja sig svo mjög fyrir góðum rökum, þá mundu áreiðanlega 9/10 af allri þjóðinni greiða atkv. með þessari till. okkar.