11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

124. mál, íslenskur siglingafáni

Bjarni Jónsson:

Eg veit ekki, hvort eg hefi haft í minni ræðu nokkur óhæversk orð í garð hæstv. ráðherra. Gerði eg það? (Ráðherrann: Hefi eg ráðist á þingm.?) Já, eg kalla það óhæversku í minn garð að segja, að þetta sé leikspil frá minni hendi, og ósæmilegt að gera mér þær getsakir. Eg er ekki tvítyngdur, og hann hefir enga ástæðu til að segja, að eg geri þetta af leik, og eg vil engum láta haldast það uppi. Það er mín meining, að eg hjálpi stjórninni með því að leggja ákveðinn skilning í þetta, og eg hefi látið hana vita það sem satt er, að bak við þetta standi þjóðarviljinn. Hæstv. ráðherra vitnaði til orða, sem atanda í efri deildar nefndarálitinu, en eg er viss um, að ef frumv. hefði verið samþykt og hann hefði átt að skýra það á eftir, þá hefði hann skýrt það eftir lögunum, en ekki eftir því sem í nefndarálitinu stendur. Það eru svo skynsamir menn í efri deild, að þeir hljóta að hafa haft einhvern ákveðinn tilgang með því að taka »lands« framan af, og þá ekki til að stytta orðið, heldur til að leggja í það þann ákveðna skilning, að þetta ætti að vera fullkominn fáni, eða með öðrum orðum siglingafáni. Þá fyrst getur stjórnin haldið þessu máli fram með fullum krafti, þegar hún veit, að á bak við það stendur ótvíræður vilji þjóðarinnar.

Hæstv. ráðherra var að tala um, að hann hefði ekkert á móti að lögleiða eitthvert merki. Ef það merki á að vera siglingafáni, þá er alt gott, en ef það á að vera eitthvað annað, þá fullnægir það mér ekki, og ekki íslenzku þjóðinni, og þarf þá heldur ekki að bera það fram fyrir konung. Hæstv. ráðherra ætti að beita sér fyrir þetta mál, og það því fremur, sem hann hefir sjálfur játað, að það sé ekkert unnið, nema með því að fá siglingafána, því að hér er ekkert þriðja til. Annaðhvort verðum við að fá siglingafána eða ekkert. Heimafáni eða staðarfáni, eða hvað menn vilja kalla það, er þá bara það sem eg nefndi í sumar skattlandssvuntu. Eg hefi ekki borið þessa tillögu fram af neinum leik, heldur af því að eg veit, að það er ekki til neins gagnvart þjóðinni að halda öðru fram en þessu, og það skal ganga fram, þótt ekki fáist samþykt nú.

Stjórnin má þakka fyrir að hafa hreinlyndan mann, sem segir henni eins og er, og eg get sagt henni, að þetta er vilji þjóðarinnar að undanteknum örfáum hræðum. Um gerð fánans hefi eg ekkert að segja. Það má gjarnan leita atkvæða þjóðarinnar um það atriði, og mun þá hæstv, ráðherra sjá, að stúdentafélagsfáninn, sem hann kallar, er orðinn að íslenzkum fána í meðvitund þjóðarinnar.

Það sem eg vildi segja, þegar eg talaði um gerð fánana, var það, að eg teldi það skyldu hæstv. ráðherra, að halda því fram við konung, að gerðinni yrði ekki breytt. Mér gekk enginn leikur til að bera fram þessa tillögu, enda er þetta ekki mál til að leika sér að. Með því standa menn og falla hér á landi, hvort menn eru óvinir íslenzka fánans eða ekki. Sá sigurkraftur fylgir ekki neinum viðrinisfána, og við ætlum okkur ekki að hafa þann fána, sem ekki táknar það, sem hann á að tákna.