11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í C-deild Alþingistíðinda. (2639)

124. mál, íslenskur siglingafáni

Lárus H. Bjarnason:

Það er ofboð hægt að fara að dæmi ungra drengja og svara aðfinningum með því að segja: Þú getur sjálfur verið það og það. Eg hafði leyft mér að segja, að það væri leikspil hjá efri deild, að fela ráðherra þetta mál, en nú segir hann: »Þú leikur þér sjálfur«. Eg veit fleira í þessu máli, t. d. um viðskifti ráðherra og þm. Ísfjk., heldur en eg vil draga fram í dagsbirtuna, og meðferð meiri hluta efri deildar á því verður ekki kölluð vægara nafni en leikspil. Hæstv. ráðherra hefir margsagt, að Alþingi brysti heimild til að lögleiða fána, nú telur hann það vafasamt, og í prentuðu þingræðunum kemur vafalaust 3. útgáfan. Hér er ekki að ræða um tiltekin orð, framkoma hans öll í fánamálinu frá fyrstu byrjun er þannig vaxin, að honum er tæpast trúandi til að bera frumv. um það fram fyrir konung með von um góðan árangur.

Eg efast um, að nokkur danskur lögfræðingur hafi enn til skamms tíma talið okkur óheimilt að lögleiða landsfána. Eg get bent á bók, sem liggur hérna frammi á lestrarsalnum, með úrklippum úr dönskum blöðum. Meðal þeirra er löng ritgerð eftir próf, Knud Berlin um þetta efni. Hann dregur það ekki í vafa, að okkur sé heimilt að lögleiða staðarfána. En hitt er satt, að nú kvað Danir telja það vafasamt, hvort við höfum heimild til þess, og jafnvel próf. Knud Berlin kvað halda því fram nú, að alt flaggmálið sé sameiginlegt mál, en það hafa Danir ekki gert fyr en þeir fréttu af undirtektum hæstv. ráðherra undir málið hér á þingi.

Hæstv. ráðherra vildi bera brigður á að það væri rétt, að hann hefði verið mótstöðumaður fánana og íslenzku litanna, en það tjáir honum ekki, því að það er á vitorði allra kunningja hans, enda segir hann nú að hann hafi ekkert á móti, að við lögleiðum eitthvert íslenzt »merki«, líklega fálkann upp aftur eða ef til vill þorskinn ? Jú, ráðherra hefir sannarlega alt af verið á móti bláhvíta dúknum, kallað það ýmsum gælunöfnum, t. d. Tobbufána o. s. frv. (Ráðherrann: Nei, aldrei. Eg hefi ekki heyrt þetta nafn fyr).

Hæstv. ráðherra sagði, að það væri engin ástæða til að bera brigður á að hann legði fyrir næsta — Alþingi frumv. til laga um íslenzkan fána. Eg vona að svo sé, en af því að hann hefir stundum gleymt og stundum skift um skoðanir, þá skaðar tæpast að hann sé mintur á loforðið með þingsályktunartillögu. Ráðherra kannast ekki við þetta, en eg gæti mint hann á fjölda dæma, t. d. á lendingarstað sæsímans, skoðanaskifti hans í sambandsmálinu, farmgjaldinu, stjórnarskrármálinu og jafnvel í bannmálinu. Stjórnarskránni vildi hann hvorki hreyfa á þingmálafundum í vor né í þingbyrjun og atkvæðagreiðslu í bannmálinu vildi hann hafa fyrir norðan en ekki hér núna á dögunum. Eg er þó ekkert harður á þingsályktunartillögunni, og allra sízt nú, er eg hefi heyrt ráðherra segja, að engan veginn sé víst, að úrskurður konunga um fánamálið geti orðið heyrinkunnur fyrir kosningarnar. Eg skil að ráðherra muni ekki vera áhugamál að flýta fyrir honum, en þá er að sama skapi rýrð löngunin eftir tillögunni. (Ráðherra og forseti: Hvað kemur þetta umræðuefninu við ?). Ef forseta finst eg vera kominn út fyrir efnið, þá get eg gjarnan hætt. (Ráðherra: Upp með vasabókina!). Hún er heima, en eg skal finna hana og gjarnan láta prenta hana, ef hæstv. ráðherra vill kosta útgáfuna.

Hæstv. ráðherra sagði, að eg hefði verið að kasta auri á fjarverandi þingmenn, en það nær engri átt, enda hefir forseti ekki tekið fram í út af því. Eg mintist að eins lauslega á alræmdan snúning hjá einum háttv. þm. Ed., sem nú stendur hérna á gólfinu ekki alllangt frá mér. (Sig. Stefánas. hneigði sig).

Háttv. ráðherra sagðist ekki hafa meitt Philipsen og M. Stephensen, þó að hann kallaði orð þeirra »lygi«, sagði lygi vera baeði »objektiva« og »subjektiva«, en þar skjátlast lögfræðingnum enn einu sinni. Orðið »lygi« varðar alt af við lög, af því að það táknar »subjektiv« ósannindi, eða að maður hafi sagt víssvitandi ósatt, og má vitna til fjölmargra landsyfirréttardóma í því efni. (Forseti: Eg vildi mælast til þess, að háttv. þm. héldi sig við efnið. Þetta, sem háttv. þm. er að tala um, kemur málinu ekkert við). Eg er að svara hæstv. ráðherra, en get gjarnan farið að beiðni forseta, enda er eg nú að lúka máli mínu. Eg nefndi þetta síðasta atriði sérstaklega af því, að hæstv. ráðherra heimtaði það af háttvirtum þm. Sfjk. (V.G.) sem »gentlemanni«, að hann tæki aftur nokkur, að dómi ráðherra afbökuð, orð um hr. Henriksen, og finst mér að hæstv. ráðherra ætti nú að vera sami gentlemaðurinn og taka aftur þetta, sem hann sagði um þá félaga, Philipsen og M. St., eða þá að öðrum kosti taka á sig lagaábyrgð af áburðinum.

Skal eg svo ekki þreyta hæstv. forseta lengur, en þess óska eg að hann láti viðhafa nafnakall um brtill. mína.