11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í C-deild Alþingistíðinda. (2641)

125. mál, fella úr stjórnartíðindum dönsku þýðinguna á íslenskum lögum

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Tillagan er stutt og hljóðar svo: »Neðri deild Alþingis ályktar að skora á landstjórnina að fella úr stjórnartíðindunum dönsku þýðinguna á íslenzkum lögum«.

Meðan eg man ætla eg að biðja hæstvirtan forseta að viðhafa nafnakall um tillöguna.

Eg skal vera stuttorður. Fái tillagan byr deildarinnar og verði stjórnin við henni, þá fæst það fyrst og fremst, að útgáfukostnaðurinn við A-deild Stjórnartíðindanna sparast að miklum mun. Þetta er þó engan veginn aðalatirðið, heldur það, að birting þessi kemur engum að neinum notum, hvorki Íslendingum eða Dönum. Hún kemur Íslendingum ekki að notum, af því að þeir þurfa ekki útlenda þýðingu á máli sínu, og hún er óþörf Dönum, af því að þeir eiga aðgang að þýðingum á íslenskum lögum í stjórnartíðindum sínum eða »Lovtidende« sem svo eru kölluð. Hér við bætist, að útlend þýðing á íslenzkum lögum í íslenzkri bók er óviðfeldin íslenzku auga og íslenzkri tilfinning.

Loks vil eg geta þess, að það er laust við, að þessi birtingarmáti styðjist við lög, heldur þvert á móti; hann er ekki annað en gömul og úrelt tízka. Því til sönnunar vil eg leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp 2. gr. úr lögum frá 18. Sept. 1891. Hún hljóðar svo:

»Um leið og lög verða staðfest, annast stjórnarráðið fyrir Ísland um opinbera þýðingu á þeim á dönsku og löggildir hana; skal hún almenningi birt í konungsríkinu á þann hátt, sem þar tíðkast um birtingar laga. Þurfi danskir dómstólar og stjórnvöld að beita lögunum, má byggja á þýðingu þessari«.

Með orðinu »konungsríkinu« er átt við Danmörku gagnstætt Íslandi.

Í sambandi við þetta get eg þess, að eg hafði ásett mér að skora og á stjórnina að hætta að láta auglýsingar frá alríkisstjórninni birtast undir nafni forsætisráðherrans, með því að réttara er að ráðherra landsins annist birtingu slíkra auglýsinga undir sinu nafni, en mér láðist að taka þetta upp í tillöguna og verður nú við það að sitja.

Annað hefi eg ekki að segja um tillöguna, legg það á vald deildarinnar, hvort hún vill samþykkja hana eða hafna henni.

Ráðherrann (H. H.): Það er svo að heyra á háttv. 1. þm. Rvk., að honum finnist hann hafa gert hér nýja uppgötvun. En það er ekki hann, sem hefir gert uppgötvunina, heldur er það þingmaður Dalamanna, sem á heiðurinn fyrir að hafa fyrstur vakið máls á þessu atriði, í frumvarpi, því sem hann bar fram hér í deildinni. Og þótt í því frv. væri farið fram á meira en hæfilegt var, þá var það þó gott að hann vakti um leið athygli á þessu atriði og gat með því vakið enn þá nýjar hugsjónir hjá þessum hugsjónaríka manni, háttv. 1, þingm. Rvk.

Það er ekki rétt, sem háttv. þingm. sagði, að útgáfuréttarkostnaðurinn við við íslenzku stjórnartíðindin sparaðist með þessu um helming. Því fer mjög fjarri. Eftir lögunum er landstjórninni skylt að birta í Danmörku danska þýðingu á öllum íslenzkum lögum, og hún verður að láta prenta danska þýðingu vegna konungs og hæstaréttar. Þetta hefir verið gert hingað til í niðauka við »Lovtidende« A, þannig, að notaður hefir verið sami »sats« eins og við prentun dönsku þýðinganna í A-deild íslenzku Stjórnartíðindanna, því bæði ritin eru prentuð í sömu prentsmiðju. Þótt nú yrði hætt við að prenta dönsku þýðinguna í íslenzku Stjórnartíðindunum, þá yrði þó að borga setningar og prentunar kostnaðinn af þeim fyrir því eftir sem áður. Það yrði því að eina pappírinn í A-deildinni, sem sparaðist um helming með þessu, og nemur það ekki miklu. En þótt sparnaðurinn sé nú ekki meiri en þetta, þá er eg alls ekki á móti því að hætt verði að prenta dönsku þýðinguna í Stjórnartíðindunum. Eg tel það óþarfa fyrir flesta menn hér á landi, og þeir sem nota íslenzk lög í Danmörku munu fremur leita þeirra í Lovtidende en í íslenzku Stjórnartíðindunum hvort sem er. Þó það kannske geti gert útlendingum, er fá Stjórnartíðindin héðan, eitthvað léttara fyrir, að hafa danska þýðingu við hliðina á íslenzkunni, þá geri eg ekki svo mikið úr því.

Úr þörf þeirra manna, sem þurfa að sjá dönsku þýðinguna hér á landi, má bæta með því, að láta taka sérprentanir úr Lovtidende, þar sem íslenzku lögin eru birt, og hafa þær til sölu í bókaverzlunum hér á landi. Eg get því vel gengið að því, að frarukvæma þessa breytingu, en vil að eins leiða athygli manna að því, að þeir geti ekki vænst neins verulegs sparnaðar með því.