11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í C-deild Alþingistíðinda. (2643)

125. mál, fella úr stjórnartíðindum dönsku þýðinguna á íslenskum lögum

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg skal vera stuttorður. Eg votta hæstv. ráðherra þakklæti mitt fyrir það, að hann ætlar að taka tillöguna til greina. Það er mergurinn málsins. Hitt skiftir ekki máli, hver faðir er að hugmyndinni. Þó fór ráðherra ekki rétt með það heldur, og sýnir það, eins og margt annað, að maðurinn er ekki víðlesinn. Eg hefi sem sé haldið þessari skoðun fram og ýmsum öðrum nýjum, síðan eg fór að fást við lagakenslu, svo sem viðstaddir laganemendur meðal skrifaranna vita.

Hitt mun satt vera, að fjársparnaðurinn verður ekki svo mikill sem eg bjóst við, en hann var ekki aðalatriðið fyrir mér, svo sem eg tók fram í upphafi, heldur hitt, að óþarft og óviðfeldið er að hafa útlenda þýðingu í íslenzkum bókum á, íslenzkri tungu. Að eins merkilegt, að jafnþjóðrækinn og nýmælaríkur maður og ráðherra, sbr. sérstaklega stjórnarfrv. á þessu þingi, skyldi ekki verða fyrri til.