11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Bjarni Jónsson:

Það eru ekki nema einstök atriði, sem eg ætla að gera örstutta athugasemd við. Eg þori ekki að segja, að eg taki þau í röð, vegna þess, að eg kom nokkuð seint og bið eg menn afsökunar á því, þótt upphafið verði nokkuð slitrótt.

Eg sé hér fyrst brtill. frá nefndinni við 15. gr., sem eg vildi mælast til að yrði feld. Háttv. Ed. hafði verið svo væn, að bæta úr skák þar sem aflaga fór hjá Nd. og hafði ætlað Einar Jónssyni 1200 kr. hvort árið, auk þess sem hún lét atanda fjárveitinguna til þess að landið keypti listaverk íslenzkra manna. Auðvitað var sú upphæð alt of lítil, en góð byrjun. Einari er erfitt að geyma þessi verk, eina og t. d. Skýstrokkinn, Nátttröllið o. fl. Þar hefir Ed. bætt úr skák með því að ætla honum 1200 kr. styrk á ári. En eg sé að nefndin hér hefir breytt þessu til hins verra og lagt til að hann fengi 1800 kr. fyrra árið, en auk þess ætlar hún 2000 kr. til þess að kaupa fyrir listaverk síðara árið. Eg gæti verið ánægður með að hann fengi 1800 kr. fyrra árið eða 900 kr. hvort árið, en 2000 kr. eru ekki andvirði margra listaverka, og þegar það er ekki tekið fram af hverjum eigi að kaupa, þá er ekki víst að stjórnin kaupi af Einari. Það getur eins vel verið að hún kaupi af einhverjum öðrum listamanni, og finst mér því fara betur á, að hann fái 1200 kr. á ári, eins og efri deild hefir ætlast til, því að þótt nú sé byrjað að veita sérstakan styrk til þess að kaupa listaverk, sem eg þakka fyrir, þá er rangt að láta Einar gjalda þess.

Þá er annað, sem eg get ekki kunnað efri deild neinar þakkir fyrir. Hún hefir fært niður styrkinn til eins af okkar ungu vísindamönnum, Helga Pjeturss, úr 2000 kr., eins og samþykt var hér í deildinni, niður í 1200 kr. Nefndin hefir ekki séð ástæðu til að lagfæra þetta, en það getur verið að hún ætli að fallast á tillögu háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) um, að færa þetta í samt lag aftur. Það er engin ástæða til að lækka styrkinn til þessa manns frá því sem hann hefir áður haft. Hann er jafngóður vísindamaður og áður, og fjáragur hans hefir ekki batnað, nema síður sé. Það er heldur engin ástæða til að draga af styrknum vegna þessa sjúkleika, sem maðurinn hefir haft, fyr en séð verður að hann geti ekki starfað vegna sjúkleikans. Nú vill svo til, að hann hefir verið í vísindaferðalagi í sumar. Eg veit ekki um árangurinn af þeirri ferð, en skýrsla hans verður væntanlega komin fyrir næsta þing, og þá geta menn af henni séð, hvort maðurinn hefir tapað sér eða ekki. Ef hann verður sjúkur til æviloka, þá verður þetta ekki skoðað sem vísindastyrkur, heldur sem eftirlaun.

Það sæmir ekki fyrir þingið, að kveða upp læknisvottorð yfir þessum manni með fjárveitingu sinni. Og að lækka veitinguna er alveg ástæðulaust, þar sem kjör manneins hafa versnað en ekki batnað. Hann á fyrir 4 börnum að sjá, auk þess sem hann þarf að stunda sín vísindi. Þar við bætist, að þessi vanheilsa hans hefir orðið honum tilfinnanleg, svo að það er, hvernig sem á er litið ranglátt að minka við hann styrkinn. Ef honum hefir áður verið nauðsynlegt að halda sér uppi, þá er honum það ekki síður nauðsynlegt nú. Þá fyrst, er það kemur í ljós, að hann geti ekki stundað vísindin, getur þingið tekið af honum styrkinn. Menn verða að vita það til fulls, að þessi vísindi eru starf, sem ekki gefa einn eyri af sér í aðra hönd, heldur eru útgjöld ein þeim samfara. Ef vísindamaður vill koma út ritgerð eftir sig, þá verður hann að borga með henni í stað þess að fá ritlaun. Þetta hygg eg að þurfi ekki að brýna fyrir þingmönnum, en eg áleit þó rétt að gera það, ef þeir skyldu hafa gleymt því, eða ekki athugað það í svip.

Þá hef eg sjálfur komið brtill. viðvíkjandi húsaleigustyrknum við háskólann. Í efri deild hefir verið bætt við styrkveitinguna ákvæði, sem getur orðið mjög óþægilegt, bæði fyrir pilta og kennarana, sem eiga að úthluta styrknum. Þar stendur:

»Húsaleigustyrk má venjulega að eins veita utanbæjarnemendum; innanbæjarnemendum því að eins, að þeir verði vegna námsins að kosta til húsnæðis síns sérstaklega á svipaðan hátt og utanbæjarnemendur«.

Fyrst og fremst er svona náin athugasemd við styrkveitingu alveg óþörf. og gengur næst því að vera nærgöngul við kennara, þá sem í hlut eiga. Og í öðru lagi, þó ekki sé hægt að sýna eða sanna, að pilturinn sjálfur leigi sér herbergi, þá getur engu að síður vel verið, að foreldrar hans eða aðstandendur þurfi að kosta einhverja sérstöku til húsaleigu vegna þess að hann er við nám. Það getur verið, að fátæk fjölskylda þurfi að leigja meira húsrúm vegna þess að pilturinn stundar nám, en þetta myndi ekki verða talið til þess, að hann þyrfti sérstaklega að kosta til húsnæðis síns. Eins er það, ef fátækmóðir með 3 sonu, sem stunda nám, býr í þriggja herbergja íbúð, þá gæti hún leigt eitt herbergið, ef piltarnir væru ekki að læra. En þeim mætti ekki veita húsaleigustyrk. Eg gæti komið með miklu fleiri dæmi til að sýna, að það getur ekki hjá því farið, að einhverjum verði gert rangt til, ef athugasemdin atendur. Mér er kunnugt um styrkveitingar til fátækra nemenda, og eg veit, að þingmenn geta ekki gert sér neina grein fyrir því, hvað fyrir kann að koma. Það getur ekki verið vilji þingsins, að utanbæjarmenn, sem betur eru staddir, fái fremur styrk heldur en illa staddir innanbæjarpiltar. Þetta er erfitt að meta, og þingið ætti ekki að gera það. Kennararnir eru undir öllum kringumstæðum miklu betra þing til að úthluta styrknum. Eg segi þetta ekki af því, að eg vilji láta innanbæjarpilta ganga fyrir utanbæjarpiltum, en eg vil ekki binda hendur þeirra, sem styrknum eiga að úthluta. Eg ætlaði annara ekki að koma með neina brt. við þessa umræðu fjárlaganna, en þegar eg sá þetta, vildi eg þó reyna að lagfæra það. Eg veit það af reynslunni, hvað ilt það er að vera bundinn af einhverjum blindum ákvæðum, og eg vona að háttv. fjárlaganefnd fallist á þessa brt. mína.

Af öðru, sem eg ætlaði að minnast á, man eg í svipinn eftir brimbrjótnum í Bolungarvík. Eg hefi frá því fyrsta verið honum fylgjandi alveg á sama hátt og eg fylgi lendingarstað við Ingólfshöfða og hafnargerð í Vestmannaeyjum og yfir höfuð öllum nauðsynjafyrirtækjum, sem miða að því, að draga úr lífshættu manna. Eg heyrði um daginn kunnugan mann í efri deild lýsa lendingunni í Bolungarvík, og skildist mér af ræðu hana, að hér væri um brýna nauðsyn að ræða, og jafnvel þótt eitthvað mætti draga frá og eigna mælsku, þá voru þó rökin fullnægjandi. Að binda Bolvíkinga við að leggja fram 2/3 hluta kostnaðarins finst mér vera mjög ósanngjarnt, og eins að líkja þessu fyrirtæki við bryggjugerð. Það mætti miklu fremur líkja nauðsyn þessa verks við brúargerð yfir ófæra á. (Jón Ólafsson: Eða vitana). Já, eða við vitana, eins og háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) segir. Þingið gæti líka sagt, að til Brimbrjóta í Bolungarvík veitti það svo eða svo margar þúsundir, og svo gætu Bolvíkingar lagt fram það sem á vantaði. Þetta fyrirtæki ætti ef til vill helzt að kosta að öllu leyti af landsfé, en nú bjóðast Bolvíkingar til að leggja fram helming kostnaðarins, og ætti þá þingið ekki að láta á sér standa að leggja fram hinn helminginn. Eg segi þetta ekki af því, að eg sé í vinfengi við þennan þingmann, sem eg gat um áðan, né heldur við Bolvíkinga. Eg þekki kannske einn mann í sjón úr Bolungarvík, en ekki fleiri. En hitt er það, að eg er sjálfur uppalinn að miklu leyti á sjó, og veit, um hvað er hér að ræða, því að eg þekki lendingu í brimi. Það er rétt, sem Steingrímur sálugi kvað:

Milli fjörs og feigðar

er fjalborð allra veikast.

Eg held að það sé rétt af þingmönnum að setja ekki nein skilyrði um þetta, en láta mennina sjálfráða um, hvað mikið þeir leggja fram; það mega allir vita, að það er ekki mikil samkvæmni í styrkveitingum hér á þinginu. Það hefir verið Veittur styrkur til alls konar fyrirtækja í landinu, svo sem til smjörbúa. (Sigurður Sigurðsson: Ekki lengur). Það hefir verið gert, og eg ætla að sum þeirra njóti styrks enn. Til túnræktunar er líka veittur styrkur og til svo marga og margs, en hér á að skera styrkveitingu við nögl, þó um lífsnauðsynlegt fyrirtæki sé að ræða. (Pétur Jónsson: Það er ekki verið að tala um að draga af styrkveitingunni) Það er verið að tala um að binda styrkveitinguna skilyrðum, sem hlutaðeigendum myndi verða erfitt að uppfylla. Eg veit að það hefir verið veitt fé til miklu ómerkari fyrirtækja, sem menn hafa getað unnið að í ró og næði heima hjá sér, en hér er um það að ræða, að draga úr lífshættu fyrir marga menn. Það er einhver sérstök blindni, sem sækir á þá menn, sem sjá ekki, hvað það er óviðeigandi, að setja þessi skilyrði á þessum stað.

Áður en eg sleppi þessu atriði, skal eg taka það fram, að þessi brimbrjótur á ekki einungis að vera þeim til góðs, sem þarna búa, því að þangað sækir fjöldi manna úr öðrum landsfjórðungum, og þeir leggja ekki til neitt af þessum 2/3 hlutum kostnaðarins, sem Bolvíkingingum er ætlað að leggja fram.

Eg man svo ekki í svipinn eftir öðru, sem eg þyrfti að minnast á, en eg hef rétt til að taka til máls aftur, ef eg skyldi hafa gleymt einhverju.

Umr. var eigi lokið kl. 8 síðd.; gaf forseti því enn fundarhlé til náttmála.

Kl. 9 síðd. Var fundur settur á ný og umræðum fram haldið.