11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2490 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg býst nú ekki við að geta svarað öllum þeim mótbárum, sem till. fjárlaganefndarinnar hafa fengið. Eg ætla að drepa á þær helztu og svara þeim í sömu röð, sem þær hafa komið fram, án tillits til efnis þeirra.

Háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) talaði fyrstur og kvartaði mjög yfir meðferð fjárlaganefndarinnar á sér út af skilyrðinu fyrir veitingunni til brimbrjótsins, og fanst honum sú framkoma eitthvað svo sérstakleg, að hann taldi hana fágæta í þingsögunni.

En eg get bent á annað, sem hefir verið mjög fágætt hér á þingi, viðvíkjandi framkomu háttv. þingmanns N.-Ísf. Hann, fjárlaganefndarmaðurinn, hefir fult eins oft greitt atkvæði móti tillögum fjárlaganefndarinnar eins og með þeim, (Skúli Thoroddsen: Þetta eru ósannindi) — án þess að hafa gert ágreiningsatkvæði áður í nefndinni nema í fáum tilfellum. Það er nú samt ekki af hefnd fyrir þetta, sem meiri hlutinn hefir haldið fram þessu skilyrði, heldur af alt öðrum ástæðum og kem eg síðar að bylgjubrjótsmálinu.

Háttv. 1. þingm. G.-K. (B. Kr.) mintist fyrst á vegabreytingartillögu frá þeim þingmönnum sýslunnar og kvartaði yfir meðferð efri deildar á þessu kjördæmi, sem væri ið eina, er synjað hefði verið um allan vegabótastyrk. Sams konar kvörtun kom og fram frá háttv. þingm. A.-Sk. (Þ. J.).

Þetta er að vísu svo, að efri deild strykaði út fjárveitinguna til vega í báðum þessum sýslum. En þetta er þó ekki ósanngjarnt, því að ef gætt er að, hvernig haga skal vegagerð af landssjóðs hendi, þá er auðsætt, að fara verður eftir einhverju ákveðnu plani, veita ríflega til þeirra vegagerða, sem mest er þörfin á, en brytja ekki fjárveitingarnar í smá stykki til hinna og þessara vegaspotta, og það er réttara að byggja á tillögum verkfræðings en annara, því að hann hefir langmestan kunnugleik og getur litið óhlutdrægara á málavöxtu en nokkur einstakur þingmaður. (Björn Kristjánsson: Nei!) Mér er sama hvað þingmaðurinn segir.

Það er »plan« verkfræðingsins, sem hann gerði nákvæma grein fyrir 1907, að láta einkanlega flutningabrautir og akfæra þjóðvegi sitja fyrir, eftir sem eðlilegastri röð, en láta sér síður ant um þá vegi, sem að eins verða gerðir reiðfærir og takmarka því mjög kostnað til þeirra þangað til hinir væri frá hendi. Nær þetta að minsta kosti til veganna í Auatur-Skaftafellssýslu. En hvað snertir veginn milli Keflavíkur og Grindavíkur, þá er á það að líta, að þetta kjördæmi hefir á undanförnum árum fengið svo ríflegan styrk og setið fyrir öðrum kjördæmum um fé til sýsluvega, að það er ekki nema sanngjarnt og eðlilegt, að nú verði nokkurt hlé á.

Báðir inir háttvirtu þingmenn Gullbringu og gjósarsýslu töluðu um skilyrðin, sem efri deild setti Eimskipafélaginu. Eg hefi sloppið að mestu við að tala um þetta mál, því að háttv. þm. Sfjk. (V. G.) svaraði þeim að mestu og sömuleiðis tók hæstv. ráðherra í sama strenginn. Röksemdir háttv. þingmanna G -K. voru að mestu inar sömu, sem fram komu við aðra og þriðju umræðu, og ekkert nýtt fram komið frá þeim, þó að ný atriði hafi á hinn bóginn komið fram í málinu. Áður virtist ekki óhugsandi, að fleiri kosta væri völ, en nú engra, nema taka sjálfir við strandferðunum — ásamt millilandaferðunum að nokkru leyti.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) hefir að undanförnu í samgöngumálunum viljað láta landssjóðinn taka að sér strandferðirnar. Hann hefir talið það auðvelt fyrir landssjóð að kaupa skip til strandferða. Það mætti fá lán út á hálft verð bátanna, og ef um þrotnaði, mætti leita til bankanna hér, sem hlaupa mundu undir bagga með hinn helminginn. En nú telur hann öll tormerki á að stjórnin geti fengið lán til hluttöku í Eimskipafélagi Íslands. Þetta er hrein og bein mótsetning, og undarleg fávizka að halda því fram, að þetta sé torveldara heldur en að kaupa skipin.

Nei, þessi framkoma þingm. öll er næsta undarleg og undarlegt að byggja rökfærslu á svona grundvelli.

Hinu trúir enginn, að stjórnin vilji ekki styðja þetta mál þegar menn hafa heyrt undirtektir hæstv. ráðherra og vita vilja þjóðarinnar. Það er undarleg framkoma, að vera jafnan að núa hæstv. ráðherra þessum tilefnislausu getsökunum um nasir. Það er sifelt látið klingja, — að skilyrði efri deildar um styrkinn til Eimskipafélagsins sé sett inn til að drepa og eyða og spilla fyrir málinu. En þessu mætti fremur snúa til bráðabirgðastjórnar Eimskipafélagsins. sem ekki hefir gert það í máli þessu, sem henni bar að gera, heldur agíterað á móti þessu skilyrði. Hún átti að leita sér upplýsinga um vilja þjóðarinnar, eins og henni hafði verið innan handar.

Sæmra væri mönnum að taka þetta samgöngumál rólega og í sannri eindrægni í stað þess að skemta Samein. félaginu með því að láta það fréttast, að alt þetta mál strandi hér á sundrung og ósamlyndi. Eg veit það gæti ekki fengið betri fréttir, en að alt þetta fyrirtæki færi nú í mola fyrir tómar hnippingar. Og það er forgöngumönnunum að kenna, ef svo fer, því að þjóðin hefir tekið svo vei í þetta mál og þingið hefir sýnt svo mikla rausn og djarfleik, sem frekast er unt að vænta.

Þá vík eg að því, sem háttv. þm. A.- Sk. (Þ. J.) sagði um vegabætur í sinni sýslu. Eg hefi svarað því áður. En honum fanst eg hafa talað af nokkuð miklum þjósti, og ef svo er, þá hefir mér orðið það óvart, og get fúslega beðið velvirðingar, ef eg kann að hafa móðgað hann. Það var hreint ekki ætlun mín. Fjárlaganefndin vill ekki taka upp þessa fjárveiting aftur, fyr en verkfræðingur hefir athugað vegarstæðið og gert kostnaðaráætlun.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) minnist á skilyrðin, sem efri deild setti fyrir náms- og húsaleigustyrk til nemenda háskólans. Nefndin hefir ekki viljað fella þetta skilyrði. Og mér er kunnugt um, að þetta er ekki sett inn í Ed. til að sýna innanbæjarmönnum ósanngirni. Hins vegar lítur hún svo á, að það sé yfir höfuð miklu erfiðara fyrir utanbæjarnemendur að komast hér áfram. Finst ýmislegt benda á, að léttara sé fyrir þá menn að stunda hér nám, sem eiga aðstandendur eða foreldra í Reykjavík, og á það bendir sá mikli fjöldi, sem héðan sækir í skólana.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) töluðu báðir um brimbrjótinn í Bolungarvík. Það er að nokkru leyti framhald inna miklu fyrirlestra, sem haldnir voru í Ed. um það, hve óskaplegt verk það væri, að beinast gegn slíku nauðsynjamáli. Þeir hafa sýnt fram á nauðsynina og þá miklu nytsemd og arð, sem af fyrirtækinu leiddi. En um þetta hefir aldrei verið ágreiningur, og fjárlaganefndirnar hafa aldrei lagt ilt til málsins, svo að allar þessar ræður voru að því leyti ónauðsynlegar. En þær hafa viljað haga þessu máli eins og öðrum slíkum, að láta eitthvað koma í móti frá hlutaðeigendum, og ef fyrirtækið er svo arðvænlegt, sem af er látið, þá lendir sá arður auðvitað hjá þeim, sem að brimbrjótnum búa, og er þar fengin sönnun fyrir, að þeir geti talsvert á sig lagt. Svo liggur engin kostnaðaráætlun um það fyrir þinginu og enginn veit, hvar lenda muni með kostnaðinn til þess að fyrirtækið komist fram.

Hv. þm. Sfjk. (V. G.) mintist á símastöðina á Akureyri og landssímastjórann og fór ómildum og jafnvel móðgandi orðum um hann, og bar þar fyrir sig skjöl þess máls. Hæstv. ráðherra svaraði þessu svo ítarlega, að eg finn ekki ástæðu til að vera fjölorður um það, enda stendur málið stjórninni nær. Eg var upphaflega kunnugur þessu máli, og símastjórinn hefir ekki farið með rangt mál það sem minn kunnugleiki nær, nema þar sem hann talar um, að þingið hafi felt tillögu sína um húskaupin, þá er það misskilningur, því að það var stjórnin sem gerði það.

Þá mælti háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) enn með brúnni á Þverá, og trúði eg hverju orði sem hann sagði um nauðsynina á brúnni og miklum framlögum Eyfirðinga til vegagerða, trúði því alveg eins vel nú eins og þegar hann sagði það fyrst. Og eg trúi því ekki betur þó að hann segi það í þriðja sinn. En það er ekki þetta sem áveltur hér, heldur hitt, hvort að ástæður leyfa að leggja úr landssjóði til hvaða hreppavega sem vera skal og brýn þörf er að bæta. Þar sér nefndin ekkert vit í.

Loks skal eg minnast fám orðum á styrkveitinguna til Guðm. Finnbogasonar. Það hefir verið sagt hér í þinginu, að ef tillögur nefndarinnar yrði samþyktar, þá væri hann ver farinn en áður. Þetta er ekki rétt. Samkvæmt stjórnarskrárfrumv. átti hann að hafa 1500 kr. í laun og 600 kr. til ritstarfa. En eftir nefndartill. 1800 kr. í laun og sami styrkur til ritstarfa. Eg skil ekki, hvernig menn fara að halda því fram í fullri alvöru, að hann sé ver farinn en áður með tillögu nefndarinnar. Það var svo fjarri því, að fjárlaganefndin vildi sýna þeim manni nokkurn vansa, hún vildi einmitt með tillögu sinni um persónulega launaviðbót sýna, að hún teldi mikilsvirði fyrir bókasafnið að halda í hann.