11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg skal ekki fara í persónulegar orðahnippingar við háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.); eg ætla ekki að fara út í persónulegar illdeilur við hann. Hann gerði mér alt of mikinn heiður með því að telja mig fyrir framan í öllu í fjárlaganefndinni. Eg er ekki neitt hræddur við að eiga undir dómi deildarmanna okkar framkomu beggja á þingi hér fyr og seinna. Eg sagði, að þetta bylgjubrjótsmál væri órannsakað að miklu leyti. Eg hefi heyrt, að 80 þús. krónur mundu þurfa til viðbótar því sem áður hefir verið veitt til þessa brimbrjóts og gerir hann ráð fyrir, að 17 þús. kr. muni nægja í þann stúf sem hann hefir mælt, en hann er eitthvað 20–30 metra. Þetta er alt og sumt, sem málið hefir verið rannsak að, það eg veit til; getur vel verið að það hafi verið eitthvað meira athugað; en það hefir ekki komið fram í bréfi landsverkfræðingsins eða á annan hátt fyrir þingið. Hér er því farið út í bláa óvissu.

Háttv. þm. vildi ekki kannast við að hann hefði greitt atkvæði móti fjárlaganefndinni að jafnaði í sumar; það eru víst aðrir óhlutdrægari dómarar í því máli, heldur en hann, og víst er um það,, að fleiri hafa tekið eftir því, hvernig hann hefir greitt atkvæði, heldur en eg.