11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í C-deild Alþingistíðinda. (2665)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Valtýr Guðmundsson:

Eg skal ekki lengja umræðurnar að miklum mun. Eg ætla að eins að minnast á ritsímahúsið á Akureyri. Hæstv. ráðherra sagði, að simalagningar hefðu aukist svo mjög, að nauðsynlegt væri að byggja nýja símastöð.

Hví í ósköpunum valdi landsímastjórinn að hafa stöðina á þessum stað? Hann hefði þó átt að sjá það fyrir, að símalagningar mundu bráðlega aukast að man. Annars vil eg benda á það, að aukningin hefir ekki verið svo gríðarmikil; það eru einungis,12 menn, sem við hafa bæzt á síðasta ári, eftir því sem prentaðar skýrslur sýna. Svo breytingin getur ekki verið mikil frá því 1910, þegar landsímastjórinn lagði til að kaupa þetta hús. Það er vitanlegt, að Akureyri á fyrir sér að vaxa einmitt í þá átt sem símastöðin er nú. Hæstv. ráðherra sagði þá, að mikið þyrfti að gera við húsið. Eg hefi fengið símskeyti frá manninum sem bygði. húsið, Sigtryggi Jónssyni, smið á Akureyri, þar sem hann segir, að ritsímastöðin sé bygð 1903, sé vandað hús og þarfnist ekki viðgerðar.

Það er annars stundum skrítið, þegar landsímastjórinn vill fara að gera ritsímastöðvarnar »centralar«. Á Ísafirði var stöðin áður í miðju bæjarins; nú hefir hann fært. hana út á útjaðarinn.

Þá vil eg minnast ögn á Eimskipafélagið. Við 2. umr. benti eg á, hverja afstöðu eg áliti að landssjóður sem hluthafi ætti að taka við félagið.

Sumir álíta, að ef félagið tæki að sér strandferðir, þá yrði að halda sérstaka reikninga yfir þær. Eg vil taka það fram, að þetta var alls ekki meining samgöngumálanefndarinnar. Hennar meining var, að landssjóður yrði reglulegur hluthafi í félaginu, en ekki einungis hluthafi í strandferða-útgerðinni. En til þess að félagið geti þetta, ætlast nefndin til í síðara nefndaráliti sínu, að félaginu sé tryggt af landssjóða hálfu, ef það kann að tapa.