11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í C-deild Alþingistíðinda. (2666)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ráðherrann (H. H.):

Eg get svarað hv. þm. Stjk. (V. G.) því, að með því að engin mótmæli hafa komið fram hér í deildinni né í Ed. móti tillögum nefndanna, sem hafa verið valdar af báðum deildum, þá telur stjórnin að henni sé heimilt að fara eftir því, er nefndarálitið tekur fram og háttv. framaögum. nú hefir skýrt. En stjórnin getur enga ábyrgð á sig tekið um það, hvort strandferðirnar bera sig eða ekki hjá félaginu; það kemur sjálfsagt mikið undir því, hvernig þær eru reknar. Og að landssjóður beri skaðann, sem verða kann á strandferðum Eimskipafélaga Íslands, eða lofi að bæta upp allan halla, hvað sem honum kann að valda, getur stjórnin ekki gengið inn á fyrir fram.

Að því er snertir hluttöku landssjóðs sem hluthafa í atkvæðisrétti um félagsmál; tel eg það eftir nefndarálitinu og yfirlýsingu framsögumanns vilja þingsins, að ekki sé heimtuð tiltöluleg hluttaka eftir fjármagni, og að heimilt sé að ganga að þeim takmörkunum í því, hve mörg atkvæði hann megi hafa mest, sem venjulega er hér um hámark- atkvæðamagna eina hluthafa, og að það sé yfirleitt meiningin, að áskilja ekki landssjóði svo mikið atkvæðamagn, að fulltrúi hans verði einráður á fundum gegn öllum, er ætla má að mæti eða mæta láti.

Yfirleitt mun stjórnin taka bendingar háttv. nefndar til greina eftir föngum.