13.09.1913
Neðri deild: 59. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í C-deild Alþingistíðinda. (2679)

127. mál, skipun nefndar í slysfaramálum

Sigurður Sigurðsson:

Í sjálfu sér gæti eg nú fallið frá orðinu. En úr því að mér hefir verið leyft orðið, get eg tekið það fram, að eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið við umræðuna, þá geti naumast verið ástæða til þess að samþykkja þessa tillögu um skipun milliþinganefndar. Reynslan hefir sýnt, að lítið vinst við þessar milliþinganefndir, er skipaðar hafa verið að undanförnu, og svo mundi fara um þetta mál. Þær hafa ætíð mikinn kostnað í för með sér og valda landasjóði útgjöldum, jafnvel úr hófi fram, og þau útgjöld hafa stöðugt farið hækkandi. Í fyrstu höfðu milliþinganefndarmenn 6 kr. á dag; siðan 8 kr., og eg þykist ekki geta rangt til, þótt eg segi, að þeir muni næst heimta 10 krónur. Og það er ekki nóg með þessa kauphækkun, heldur má búast við því, að milliþinganefndir muni ekki fara sparlegar með tímann en féð.

Hæstv. ráðherra hélt, að þessi nefnd, ef til þess kæmi að hún yrði skipuð, mundi ekki sitja lengi, en fyrir því er engin trygging. Þvert á móti. Reynslan frá þeim milliþinganefndum, sem skipaðar hafa verið áður, hefir einnig sýnt það, að þær hafa ekki einasta tekið kaup fyrir þann tíma, er þær hafa setið að störfum, heldur einnig hinn tímann, er liðið hefir milli fandarhalda þeirra. Og eg gæti hugsað mér, að líkt yrði tilfellið með þessa. En aðalatriðið er þó það, að með þessu vinst ekki meira en með því að leita blátt áfram upplýsinga til þeirra manna, sem eru jafnkunnugir þessum efnum eina og þeir, sem líkindi eru til að yrðu skipaðir í nefndina.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta, en get þess, að eg mun greiða atkvæði með dagskránni.