23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (286)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Umboðsm. ráðherra (Kl. J.):

Háttv. 1. þm. S. Múl. (J. Ól.) lagði fyrir þá spurningu, hvort landið hefði efni á, að bankinn hætti að lána út fé. Nei, auðvitað ekki. En er nú ástandið eins slæmt og hv. þm. vill gera það ? Eg efast stórlega um það. Eftir því sem eg hefi heyrt, hefir bankinn staðið sig vel með útlán nú, að minsta kosti á inum síðustu tímum. Það mætti líka spyrjast fyrir um, hvernig hagur hans er nú gagnvart Landmandsbanken. Landsbankinn hefir oft verið þar í mikilli skuld og þá notað það fé, sem hann hefir fengið þar, til útlána eða annara viðskifta. En eftir því sem eg hefi heyrt, kvað skuldin nú ekki vera ýkja mikil, og mætti þá eitthvað auka hana. Bendir það ekki á það, sem háttv. 1. þm. S.- Múl. (J. Ól.) sagði, að bankinn hlyti nú að hætta.

Eg ætla svo að minnast á það, sem háttv. frams.m. (B. Kr.) sagði, að stjórninni bæri að styrkja Landsbankann. Það er öldungis rétt, og það hefir hún gert og gerir, en um leið verður hún að líta á ástæður landssjóða. Það má eigi styrkja svo Landsbankann, að landssjóður fari á hausinn.

Að vísu er, eins og eg gat um áðan, hagur landssjóðs ekki nú sem allra verstur; eg býst við að vörutollurinn verði talavert hærri, en ráð er gert fyrir í fjárlagafrumvarpinu, þó eigi sé hægt að segja um það með vissu, því upplýsingar um hann eru enn ekki komnar alstaðar frá, en samt sem áður er hagur landsjóðs áreiðanlega ekki sá, að hann þoli þessa blóðtöku.

Háttv. framsögum. sagði, að það þyrfti að auka tekjur, ef útgjöldin væru aukin. Á síðasta þingi komu fram margar tilllögur í þá átt, en sú sem loks var tekin, var alls ekki heppileg, sízt til frambúðar. En það er ein leið til, og ef hún er farin er auðgert að auka tekjurnar að miklum mun. Það er að afnema aðflutningsbannslögin, en hvort háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) vill beitast sérstaklega fyrir því, veit eg ekki, og enn síður, hvort Alþingi vill samþykkja þetta er 1. umr. málsins og á það því eftir að verða rætt ýtarlega ekki einungis hér í deildinni, heldur og í Efri deild. Vona eg, að frumv. fái þær undirtektir hér á þinginu, að það ekki leggi landssjóði of þungar byrðar á herðar.