23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (291)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Umboðsm. ráðherra (Kl. J):

Þetta frv. stendur í nánu sambandi við frumvarpið næst á undan (um 100 þús. kr. árstillag landssjóðs til Landabankans) og gildir nokkuð af því sem eg hefi áður tekið fram um það, einnig um þetta. Annars bið eg menn að athuga það, að alt, sem eg segi í þessum málum, segi eg fyrir minn eiginn reikning; eg hefi ekki átt kost á að bera mig saman við hæstv. ráðherra (H. H.) um þessi mál.

Eg fyrir mitt leyti verð að álíta þetta frumv. talsvert viðsjárverðara en frumvarpið næst á undan; það gæti verið landssjóði kleift, en þetta álít eg að geti orðið landssjóði stór-hættulegt. Það gefur að skilja, að ef landssjóður tekur á sig ábyrgð á sparisjóðafé Landabankans, þá verður landssjóður að liggja með jafn mikla fúlgu í lítt seljanlegum verðbréfum, sem bankanum er ætlað að hafa í varasjóði. Ella er ábyrgðin á pappírnum og sparisjóðseigendum engin trygging gefin fyrir innieign sinni. En eg get ekki séð, að landsajóði sé fært að leggja fram þá 1/2– 3/4 miljón kr., sem til þess þyrfti; nefndin hefði þá átt að koma fram með lánsheimild til handa landssjóði. Hugsum oss nú, að einhverjar þær byltingar yrðu, að sparisjóðseigendur tækju fé sitt úr sparisjóði; það mundi verka á landssjóð. Ef lán væri ekki tekið, — en lánstraust landssjóðs er lélegt nú, eins og háttv. 1. þm. S. Múl. (J. Ó.) tók fram áðan, — og ef landssjóður hefir ekki handbært fé, þegar bankann þryti, hvernig færi þá? Mér virðist sem sparisjóðseigendum sé miklu minni trygging að ábyrgð landssjóðs en því fyrirkomulagi, sem nú er lögskipað, nema því að eins að landssjóður hafi fyrirliggjandi létt seljanleg verðbréf til trygingar.

Viðvíkjandi því atriði, að Landsbankinn fái að hafa varasjóðinn í veltu, þá hefi eg ekki haft tíma til að rannsaka það mál. Mig minnir, að eg hafi heyrt, að gamla Glückstad hafi farist svo orð út úr Landsbankamálinu um árið, að ekkert væri á móti því, að bankar hefðu varasjóð sinn í veltunni, svo framarlega sem þeim væri stjórnað vel og gætilega, og það hugsa eg að háttv. þm. G.-K. (B. Kr.) áliti að eigi sér stað með Landsbankann. Því er líka hvískrað mér, að allir bankar hafi varasjóði sína að veltufé. Ef þetta er rétt, hví hefir þá ekki sú leið verið farin að út vega bankanum heimild til að brúka varasjóð sinn sem veltufé? Það gæti þó komið til álíta að veita heimild til þess.