24.07.1913
Neðri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (300)

69. mál, skipun sjávarútvegsnefndar

Flutn.m. Guðmundur Eggerz:

Við flutningsmenn þessarar till. förum fram á það, að skipuð verði sérstök nefnd til þess að íhuga sjávarútveg landsins, þessa atvinnugrein, sem framleiðir mest allra og leggur drýgstan skerf í landssjóð, en samt sem áður hefir verið höfð á hakanum alt til þessa dags. Það er sannarlega ekki vanþörf á því að löggjafarvaldið beini athygli sinni að þessum aðal-atvinnuvegi okkar, einkum þegar þess er gætt, við hve mikla örðugleika hann á að stríða að mörgu leyti. Eg skal að eins leyfa mér að drepa á einstök atriði. Kemur mér þá fyrst til hugar hættan, sem þessum atvinnuvegi fylgir. Raunar vofir hún yfir sjómönnum allra landa, en þó sérstaklega yfir sjómönnum Íslands. Eg hefi lesið skýrslu, sem landlæknir hefir skrifað hér að lútandi. Getur hann þess þar, að á árunum 1881–1910 hafi druknað hér á landi 1991 karlmaður og 101 kona. Þetta er hlutfallslega miklu meira en í öllum öðrum löndum. Það er ferfalt meira en í Noregi og kveður þó meira að sjóðdauða þar en í öðrum nágrannalöndum. Þetta atriði eitt ætti að vera ærin nóg ástæða til þess að nefnd yrði skipuð til að athuga hvort ekki yrði bót hér ráðin á. Eg skal ekkert fullyrða um það, hvort fleiri druknanir hér á landi en annarstaðar eiga rót sína að rekja til náttúrunnar, eða Verri útbúnaðar. Eg gæti hugsað, að þetta hvort tveggja eigi sök hér á. Erfiðleikar af náttúrunnar völdum hljóta að vera hér miklu meiri, vegna veðurlagsins og hafnleysis. Líka get eg trúað því, að útbúnaður íslenzkra skipa sé ekki eins góður og annara þjóða, enda er það ofur eðlilegt. Við erum miklu fátækari en nágranna þjóðir okkar og því ekki ólíklegt, að ýmislegt sé hér frekar af vanefnum búið.

Eg hefi veitt því eftirtekt, og það gladdi mig, að Fiskifélag Íslands hefir tekið til meðferðar eitt atriði, sem hér að lýtur, hirðing og viðhald á vélabátum. Það er eitt skilyrði til þess að sjómaðurinn geti verið nokkurn veginn öruggir á hafinu, að vélin sé í lagi, og er því gott og rétt, að Sjómenn fái tilsögn í meðferð véla. Þetta er líka fjárhagslegt atriði, því að ef vél er illa hirt, þá eyðilegst hún fyr.

Sjávarútvegurinn er miklu stopulli en landbúnaðurinn. Bóndinn veit, að túnið og engjarnar grænka, og þó að töluverður mismunur geti orðið á afurðum landsins eftir árferði, þá getur landbúnaðurinn þó aldrei brugðist með öllu. En sjávarútvegurinn getur alveg brugðist. Og enn má benda á eitt, sem hnekkir sjómanninum mjög mikið. Hann hefir enga atvinnu marga mánuði ársins. Frá því seint í Nóvember til þess seint í Febrúar getur hann ekki stundað atvinnu sína sökum íllviðra, og þó að einstöku sinnum gefi á sjó, þá er engan flak að fá á þessum tíma. Fátækir menn verða þannig að eyða því að vetrinum, sem þeir hafa aflað að aumrinu. Þetta er mikilsvert atriði, sem þyrfti að bæta úr á einhvern hátt, ef annars nokkur ráð eru til.

Þá er sjávarútvegurinn mjög margbrotinn. Hér er sjór stundaður bæði á opnum bátum og mótorbátum, seglskipum og gufuskipum, og veiðiaðferðirnar margvíslegar.

Nú er svo komið með landbúnaðinn, eins og við vitum og betur fer, að hann fær árlegan, fastan styrk. Það er öflugt og gamalt félag, sem styrkir landbúnaðinn. Þessu er öðruvís farið um sjávarútveginn; þar er alt í molum enn þá. Úr þessu verður að bæta. Landssjóður hefir miklar tekjur af sjávarútveginum, og er því sjálfsagt, að eitthvað sé gert til stuðnings þessari atvinnugrein.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta meira. Eg býst við að hv. deild verði á einu máli um að skipa 7 manna nefnd, eins og farið er fram á hér í brt. Eg býst ekki við að nefndin geti tekið alt til athugunar eða kipt öllu í lag, sem lagfæra þarf, en eg ætlast til að meira samræmi verði komið á, ef öllum málum, sem koma fram í deildinni viðvíkjandi sjávarútveginum, verður vísað til þessarar nefndar.