24.07.1913
Neðri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (303)

67. mál, líftrygging sjómanna

Halldór Steinsson:

Eg Vil taka undir það með háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.), að mér brá í brún þegar eg kom suður og sá, að ekkert frumv. um líftrygging sjómanna lá fyrir frá stjórninni. Eg get ekki annað sagt, en að stjórnin hafi gengið slælega fram í þessu máli. Mér virtist háttv. seinasti ræðumaður vilja telja stjórninni það til afsökunar, að málið hefði komið of seint frá Fiskifélaginu. En það er engin afsökun fyrir stjórnina, og eg get ekki séð, að Fiskifélagið sé æðsti dómstóll í þessu máli. Það var búist við því af sjómannastéttinni, að málið yrði afgreitt á þessu þingi.

Þetta frumv., sem nú er hér fram komið, bætir að vísu talsvert úr ástandinu, sem nú er, en eg þori að fullyrða, að það bætir hvergi nærri til fullnustu úr þeim göllum, sem mest er um vert. En eg vona, ef það verður sett í nefnd, að að það verði lagað svo, að það geti fullnægt jafnt sjómönnum á opnum bátum eins og á þilskipum. En eins og það er nú, snertir það miklu minna hag sjómanna á opnum bátum. Eg vil leyfa mér að styðja uppástungu háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) um 7 manna nefnd.