24.07.1913
Neðri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (305)

67. mál, líftrygging sjómanna

Umboðsm. ráðherra (Kl. J.):

Eg þarf í rauninni ekki að svara neinu sérstöku, því að háttv. flutningsmaður (M.Ól.) hefir upplýst nægilega, hvernig á því stóð, að stjórnin kom ekki með frumv. um líftrygging sjómanna. Að vísu lá fyrir stjórninni þingsályktun um þetta efni, og stjórnin hefir gert sér að reglu, að taka til greina þær þingsályktanir, sem til hennar er beint. Það er engin skylda stjórnarinnar að taka til greina allar þingsályktanir, sem ef til vill eru samþyktar með eins eða tveggja atkvæða meirihluta í annarri hvorri deildinni, og áliti hún þingsályktunina ástæðulausa eða ótímabæra, þá er engin von að hún fari að sinna henni.

Nú stendur svo á, að hér er um ung lög að ræða og að engin reynsla er fengin fyrir því, hvort þau séu heppileg eða ekki. Þar að auki eru skiftar skoðanir hjá sjómönnunum sjálfum um það, hvort heppilegt sé að breyta til nú þegar. Háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði að vísu, að það væri eindregin ósk sjómanna; það getur verið að svo sé í hans kjördæmi, en annarsstaðar er það ekki.

Af þessum ástæðum, sem nú voru taldar, fann stjórnin ekki ástæðu til að koma fram með frumvarp, en nú er það komið fram, og mun það þá koma í ljós, hvort þörfin hefir verið svo brýn, sem háttv. þm. Snæf. hélt fram.