25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (318)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Benedikt Sveinsson:

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls nú, en orð háttv. umboðsmanns ráðherra neyða mig til að standa upp. Mér virðist hann, eins og aðrir, þeir sem lið hafa lagt

þessum launahækkunarfrv., helzt færa það til síns máls, hve mjög nauðsynjar allar hafi hækkað í verði in síðari ár. Mér finst ekki alls kostar rétt að miða launahækkun embættismanna við þetta, því að þess ber að gæta, að það er ekki eingöngu fyrir embættismenn, sem nauðsynjar hafa hækkað í verði, heldur kemur það niður á öllum landsmönnum; verða því embættismenn að sæta sömu kjörum sem aðrir í þessu. Ef sú regla ætti að takast upp, að miða launin við það, hve lífsnauðsynjar væri í háu verði í þann og þann svipinn, þá er eg hræddur um, að mörgum þætti slíkt nokkuð hvikull grundvöllur. Lægi þá einna næst að taka forna verðgjaldið og reikna launin samkvæmt verðlagsakrá, t. d. í svo og svo mörgum hveitisekkjum, sykurkössum, rúsínukössum, vættum af harðfiski o. s. frv. og tala þessara gæða væri ávalt in sama, hvort sem þær kostuðu mikið eða lítið, en þó býst eg við, að flestir yrðu óánægðir með þess konar greiðslu og þætti hún flókin og ótilhlýðileg.

HV. umboðsm. ráðh. (Kl. J.) kveinkaði sér undan einhverjum brigzlyrðum, sem á honum hefðu dunið úr ýmsum áttum, þar á meðal frá þm. N: Þing. (B. SV.). Fórust honum svo orð, sem eg hefði sagt, að það væri óheiðarlegt að biðja um launahækkun. Það hefi eg aldrei sagt, en við 1. umr. þessa máls fórust mér svo orð, að það væri óþarft að hækka laun embættismanna, einkanlega þeirra hálaunuðu, sem stjórnin hafði þó borið mest fyrir brjósti. Hann fór og mikillega að afsaka sig fyrir því að hann hefði beðið um nokkra launahækkun sér til handa. En þetta var reyndar óþarfi því að eg sagði aldrei að landritari hefði farið fram á launahækkun. Hitt er satt, að varla var hægt að skilja orð ráðherra öðruvísi en svo, að allir 25 embættismenn, sem frumvarpið telur upp, hefði sótt um launahækkun, nema biskup einn, því að hann tók það sérstaklega fram um hann einan, að hann hefði ekki sjálfur óskað launahækkunar, heldur verið tekinn með fyrir samræmis sakir. Í þessu virtist það felast, að hinir allir hefði einmitt sótt um launahækkun, úr því þessi einn var tekinn undan.

Um vinnutíma landritara hafði eg ekkert fullyrt. En þess hafði eg getið, að landritari auglýsti í blöðunum tveggja stunda viðtalstíma á dag í stjórnarráðinu. Það er skiljanlegt, þótt slíkt kveiki þá hugmynd manna á meðal, að landritari sé ekki í stjórnarráðinu lengri tíma, því að menn eiga bágt með að skilja, að hann sé svo heilagur, að ekki megi hitta hann til viðtals þegar hann er á annað borð viðstaddur í stjórnarráðinu og gegnir þar opinberum störfum á landsins kostnað.

Sjálfsagt má heldur ekki skilja það alt of bókstaflega, að landritari vinni ekkert annað en embættisverk, þegar hann er í stjórnarráðinu, því að kunnugt er t. d., að hann stefnir þangað til sín þeim mönnum, er skuldagreiðslur hafa með höndum eða önnur viðskifti við félög, þau sem hann er gjaldkeri fyrir.

Háttv. umboðsm. ráðherra gerði lítið úr verði frímerkjanna og eftir því sem hann sagði, virðist hann hafa verið furðu óheppinn með markað fyrir þau síðustu árin. Hann sagði, að burðareyrir undir manntalsskýrslurnar hefði að eins orðið 700 kr., er þær voru sendar út um landið og hefði þær þó að mestu eða öllu leyti verið sendar út með landpóstum, en aftur komið með skipum, og þá hefði burðargjaldið undir þær verið miklu minna. — En þetta hlýtur að vera sprottið af misminni háttv. landritara, því að það er áreiðanlegt, að megnið af manntalsskýrslunum fór einmitt út með skipum, sem og er og auðséð af því, að ekki kostaði undir þær héðan nema 700 krónur samkvæmt játning landritara, en hefði ella átt að kosta um 3000 krónur eða meira, því að nálægt 3000 pundum var sent út. Aftur kom. megnið af skýrslunum til baka landveg og því með hærra burðargjaldi, því að menn voru ekki að eltast við skipið, sem flutti þingmennina um veturinn og að eins kom á örfáar hafnir. Þetta hefir alt ruglast í höfði háttv. landritara. Skýrslurnar voru um 3000 pund, er þær voru sendar héðan, og ætti þá burðar eyririnn ekki að skeika miklu frá því sem eg hafði sagt. Hér er um dýr frímerki að ræða, þjónustufrímerki, sem ættu að seljast nálega við frumverði er því harla ótrúlegt, að andvirði þeirra skuli að eins hafa orðið 300 kr.

Háttv. umboðsmaður ráðherra þóttist hafa orðið fyrir aðkasti sakir þess, að hann hefði ætlað að krækja sér í atvinnu sem endurskoðandi Íslandsbanka. En þetta er misskilningur. Eg hafði alls ekki veitzt að honum persónulega, heldur lutu orð mín að því að sýna, hversu vel landritarinn situr fyrir hlunnindum, þar sem þau ber jafnvel upp á reka hans, án þess hann geri nokkuð til þess sjálfur.

Eitt, sem flýtur af stöðu landritara sem Slíks, eru skipanir hans í milliþinganefndir. (Umboðsm. ráðh.: Nei !). Landritari neitar þessu, og er reyndar óhægt að greina hann svo sundur, að ákveðið verði með vissu, hvort hann er í nefndunum sem slíkur eða sem prívatmaður. Eg held þó fremur að það sé hlunnindi af stöðu hans að eiga sæti í milliþinganefndum, eins og t. d. kolanefndinni, sem sat afarlengi, með 8 kr. dagkaupi. Eg nenni ekki að fara að telja upp önnur störf landritara, t. d. aukaskriftir hans, svo sem embættismannstalið. Meira er varið í tekjurnar af formensku hans í bankaráðinu í forföllum ráðherra, sem veittu honum 500 kr. aukatekjur á ári, þegar Björn Jónsson var ráðherra, og 250 kr. í tíð Kristjáns Jónssonar; nú er mér sagt að þetta sé aftekið; núverandi ráðherra vildi ekki greiða honum þetta gjald, taldi starfið við bankann eitt af skyldustörfum, þeim er landritaraembættinu fylgdu. En nú hefir háttv. landritari leitað í aðra átt og fengið því framgengt í utanför inni við hluthafana erlendis, að bankinn sjálfur greiðir honum framvegis 200 krónur á ári fyrir þann tíma, sem hann kann að gegna störfum ráðherra í bankaráðinu. Til allra slíkra hlunnina verður að líta, þegar verið er að meta nauðsynina á launahækkun.

Mér fanst landritari hneykslast á því, að talað var um afnám landritaraembættisins; þó skildist mér sem ekki væri langt í milli skoðana okkar um það embætti; á það benda þau ummæli hans, að þetta embætti væri hvorki fugl né fiskur.

Eg get alla ekki fallist á, að viðurkvæmilegt sé, að landritari eigi sæti í bæjarstjórn, því að hún getur iðulega átt talavert undir stjórnarráðinu; það verður oft að fella úrskurði um gerðir hennar, og fer það þá ekki vel saman, að stjórnarráðið sitji í bæjarstjórn.