28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (333)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Flutningsmaður (L. H. Bjarnason):

Hæstv. ráðherra hefir kosið að svara í dag lotterífyrirspurn minni á þingskj. 53, útbýttri 12. og leyfðri 14. þ. m. Ráðherra einn ræður því, samkv. 31. gr. þingskapanna, sbr. 37. gr. stj.skrárinnar, hvort og hvenær hann svarar leyfðum fyrirspurnum þingmanna. Eg verð því að rökstyðja fyrirspurnina í dag, hvort sem mér þykir það leitt eða ljúft, og hv. deild verður að taka afstöðu til fyrirspurnarinnar, eftir að deildin hefir heyrt svar hæstv. ráðherra við henni.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, var með lotterífrumvapi Alþingis 1912, þingskj. 326, stofnað til stórtekna fyrir landssjóð í 30 kr.

Lotteríið átti að gjalda landssjóði 4% af andvirði seldra seðla, 1. gr. f. Það mátti selja 50,000 seðla á misseri eða 100,000 seðla á ári hverju, 1. gr. a, og mátti selja hvern seðil við 150 franka verði + 2%, eða hvern seðil fyrir samtals 110 kr. 16 au. í hérlendri mynt. Hefði lotteríið selt alla seðla sína, hefðu árstekjur landssjóðs af því numið 440,- 640 kr., auk helmings þeirra vinninga, sem ekki kynni að hafa verið vitjað, 1. gr. c, 4. málsgr. Svo mikilla tekna hefði nú landssjóður tæpast mátt vænta, sízt í upphaf. En honum voru samt trygðar mjög miklar tekjur af lotteríinu, hvort sem það hefði selt mikið eða lítið af seðlum sínum. Það átti sem sé að greiða landssjóði tiltekinn lágmarksskatt á misseri hverju, 138,000 franka, eða árlega 276,000 franka, eða 198,720 kr. á ári í hér gjaldgengum peningum, eða sem næst 200,000 kr. á ári, eða um 400,000 kr. um fjárhagstímabil hvert.

Og þessi mikla upphæð hefði verið sama sem fundið fé fyrir landssjóð, því að hann átti ekkert í móti að láta.

Þessu mikla gróðafrumvarpi byrjaði svo vel á Alþingi, að einir 3 alþingismenn greiddu atkvæði á móti því í báðum deildum, 2 í hv. Neðri deild, Alþt. 1912, B II, bls. 541, og 1 í hv. Efri deild, Alþt. 1912, B I, bls. 187. Sjálfur ráðherrann mælti eindregið með því. Hæstv. ráðherra mælti meðal annars við 3. umr. um frumvarpið hér í deildinni 9. Ágúst í fyrra á þessa leið:

Eg stend að eins upp til að lýsa ánægju minni yfir því, hvað þetta mál er vel á veg komið . . . . Með þessum þætti nást dágóðar tekjur í landasjóð, án þess að leggja nokkurn skatt á almenning. . . . Mótbárurnar, sem komið hafa fram gegn þessu frumv. . . virðast koma meira frá einhverju öðru líffæri en höfðinu, vera bygðar meira á tilfinningum en á skynsamlegri hugsun. (Alþt. B II, bls. 637–538).

Nú er þessum stórgróða landssjóðs kastað á glæ.

Það er ein af aðal-ástæðum mínum til fyrirspurnarinnar og jafnframt ein afleiðing þess að frumvarpið féll niður.

Samkv. 1. gr. stjórnarskipunarlaganna 1903 á ráðherra, að “bera upp fyrir konungi í ríkisráðinu lög og miklvægar stjórnarrástafanir„.

Ráðherraábyrgðarlögin 4. Marz 1904 leggja ábyrgð við uppburðarleysi mála af hendi ráðherra, 2. gr. a: Það varðar ráðherra ábyrgð eftir lögum þessum; ef hann lætur farast fyrir að bera upp fyrir konungi lög, tilskipanir eða aðrar ályktanir, er konunga undirskift útheimtist til, eftir stjórnarskipunarlögunum. Viðurlögunum við broti þessu geta menn kynst í 5. gr. ráðherraábyrgðarlaganna.

Hér liggur þannig fyrir brot á stjórnarskránni og ráðherraábyrgðarlögunum.

Það er önnur ástæðan til fyrirspurnar minnar og jafnframt önnur afleiðingin af uppburðarleysi ráðherra.

En svo er ótalið þriðja atriðið, og ekki ómerkilegasta. Hver verður afleiðingin, haldist ráðherra uppi átölulaust að stinga undir stól alþingisfrumvörpum, jafnvel þeim sem hann hefir mælt sterklega með ? Sú, að úti væri um þingræðið, áhrifum Alþingis á lagasetningu landsins væri spilt. Hyrningarsteinninn undir þjóðfélagsskipuninni væri brotinn.

Það er þriðja ástæðan til fyrirspurnar minnar, og um leið þriðja afleiðingin af uppburðarleysi ráðherra.

Þegar litið er til nefndra þriggja afleiðinga: tjóns landssjóðs, stjórnarskrásbrotsins og þingræðisskemdarinnar, og svo til þess, að slík hegðun er eins dæmi í þingfrjálsu landi alt til þessa dags, þá er fyrirspurnin væntanlega ekki ófyrirsynju, enda hefir háttv. deild í einu hljóði talið fyrirspurnina sjálfsagða, þrátt fyrir skýrslu ráðherra í sameinuðu þingi 14. þ. m.

Að svo mæltu vænti eg skýrslu hæstv. ráðherra um það, hví hann greip til þess óyndsúrræðis að bera ekki lotterífrumvarp síðasta Alþingis upp fyrir konungi til staðfestingar.