28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (336)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Eg verð að segja það, að eg varð töluvert hissa þegar fyrirspurn háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) kom fram.

Háttv. ráðherra hafði þegar í þingbyrjun lýst yfir því á prívatfundi þingmanna, að hann ætlaði að gefa skýrslu um afdrif lotterímálsins o. fl. í sameinuðu þingi, og ins sama hafði hann getið hér í deildinni, að minsta kosti er hann lagði fjárlagafrumv. fyrir næsta fjárhagstímabil fyrir hana. Svo varð eg aftur hissa þegar fyrirspurnin var ekki tekin aftur, er dagskránni fyrir fundinn í samein. þingi 14. þ. m. var úttbýtt, því á henni stóð, að ráðherrann ætlaði að gefa skýrslu, og öllum var það ljóst, að það var um lotterímálið o. fl. Eg skal taka það fram, að dagskránni var útbýtt eftir að fyrirspurnin var prentuð, svo að það er eigi víst, að háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) hafi þá vitað, hvenær hæstv. ráðherra ætlaði að gefa skýrsluna, en mér er það persónulega kunnugt, að dagurinn var ákveðinn áður en fyrirspurnin var prentuð og henni útbýtt, og vænti eg að því verði trúað.

Mest var eg þó hissa, þegar fundurinn í Sameinuðu þingi kom og háttv. 9 þingmenn úr þessari deild gripu algerlega að nauðsynja- og ástæðulausu — til þess óyndisúrræðis að hlaupa af fundi til þess að gera fundinn óályktunarfæran.

Eg sagði, að nauðsynja- og ástæðulausu, af því að þeim var það vel kunnugt, að enga ályktun átti að taka á fundinum um lotterimálið, eða in önnur mál, sem hæstv: ráðherra ætlaði að gefa skýrslu um. Gátu því þeir háttv. deildarmenn, er sökótt þykjast eiga Við hæstv. ráðherra, alveg eins notað lotterímálið gegn honum síðar, t. a. m. eldhúsdaginn eða við annað tækifæri, ef þeir héldu sig hafa þar höggstað á honum. Lotterífrumvarpið var eins og öll önnur lagafrumv. samþykt af báðum deildum Alþingis og áttu því báðar deildirnar jafnan rétt á að fá skýrslu um málið. Hins vegar virtist það hagkvæmt að gefa skýrsluna í sameinuðu þingi í etað þess að gefa sams konar skýrslu í báðum deildum. Það sparaði tíma þingsins og stytti þingtíðindin.

Þá var það og ekkert annað en fyrirsláttur hjá inum háttv. þingmönnum, er þeir kváðust ekki vilja hlýða skýrslu um lotterimálið, er væri fjármál, í sameinuðu þingi, því að hana ætti að gefa fyrst í þessari deild. Það eru, eina og kunnugt er, að eins fjárlagafrumv. og fjáraukalagafrumv., sem eftir stjórnarskránni á að leggja fyrst fyrir í neðri deild, en ekki önnur lagafrumv., þótt venjan sé sú, að frumvörp um tekjur landsins séu fyrst lögð fyrir hana og alls ekki skýrslur.

Þótt fundurinn í sameinuðu þingi yrði óályktunarfær, gaf hæstv. ráðherra þó að sjálfsögðu skýrsu sína; hefir ræða hans síðar verið prentuð í blaðinu “Lögréttu„ og eg efast ekki um, að allir hv. deildarmenn hafi lesið hana.

Fyrirspurnin getur því nú alls ekki ekki verið borin fram til þess að fá upplýsingar um lotterímálið, heldur til þess að fá tækifæri til þess að gera einhverja deildarályktun út af afdrifum þess eða meðferðinni á því, enda sýnir dagakrá, sú sem fram er komin, að háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B ) að minsta kosti ætlast til þess, að deildin vegi að ráðherra þótt reyndar eigi nema með títuprjóni sé.

Eg vænti þess nú samt og treysti því, að þótt svo ólíklega kynni að fara, að meiri hluti deildarinnar vildi stinga ráðherra með títuprjóni með því að samþykkja þessa dagskrá, að hann muni ekki virða tilræðið meira en um er vert og íhuga það, að meiri hluti, sá er um það kann að safnast, er næsta sundurleitur og að einingin nær ekki lengra en til þess að stinga hann, og að hver sá af þessum væntanlega meiri hluta, er kynni að verða eftirmaður hans í ráðherrasætinu, ef honum kynni að detta í hug að víkja, má búast við því — já getur verið viss um, — að verða stunginn, ekki með títuprjónum, heldur lagður sveðju af miklum meiri hluta þessa væntanlega meiri hluta óðar en færi gæfist.

Hæstv. ráðherra verður að gæta þess, að þetta þing er svo margklofið, að til einskis flokks í því telst þriðjungur þingmanna, og eg að minsta kosti þykist ekki geta bent á þann mann, er líklegur væri til, hvað þá heldur víssa væri um, að gæti safnað um sig nokkrum ábyggilegum meiri hluta.

Ráðherraskifti nú mundu því tefja störf þingsins að mjög miklum mun og kosta landið ærið fé, og ættu sparnaðarmenn þingsins, er með miklum fjálgleik hafa talað um stórar álögur á þjóðina, sízt að stuðla að því, að þau yrðu.

Um lotterímálið sjálft, og meðferð hæstv. ráðherra á því, skal eg vera stuttorður. Það er enginn vafi á því, að þingið hefir gengið feti framar en góðu hófi gegndi, er það fór að setja ákvæði um athafnir, sem fara áttu fram í Danmörku, og setja á stofn nefnd manna þar til að skera úr málum, sem heyra undir dómstólana. En þetta kom til af því, að menn trúðu því, að málið hefði verið borið undir þá fjármálamenn, sem mestu réðu í Danmörku, og þeir ekkert fundið við það að athuga. Það var því ekki búist við því hér á þinginu í fyrra, að málið mundi mæta nokkurri mótspyrnu þar, en er það kom á daginn, að ekki var hægt að fá konungsstaðfestingu á lögin, skilst mér að ráðherra hafi haft ástæðu til þess að ætla, að það væri í samræmi við meiri hluta þingsins, að hann setti ekki málið á odd og beiddist lausnar, heldur léti málið bíða og gæfi sig að málaleitun, þeirri sem mikill meiri hluti þingmanna hafði falið honum sérstaklega.

Eg fæ því ekki séð, að hér sé ástæða til aðfinslu og tel það með öllu óforsvararlegt að nota þetta mál til þess að reyna að bola hæstv. ráðherra frá, eins og sakir standa nú.