28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (338)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Mér finst alveg þýðingarlaust að fara að svara lið fyrir lið ræðu háttv. fyrirspyrjanda (L. H. B.), sem átti að vera svar upp á skýrslu, þá er eg gaf í Sameinuðu þingi.

Aðallega hnigu orð hans að því, að Alþingi hefði ekki farið út fyrir valdsvið sitt. En eg he8 alls ekki skelt skuldinni á þingið né lagt áherzlu á, að Alþingi hafi farið út fyrir valdsvið sitt, svo að þessi röksemdatilraun hans er óþörf gagnvart mér. Þvert á móti hefi eg reynt að draga fjöður yfir það atriði, og leiða á allan hátt athygli frá því, er ábótavant kann að hafa verið í því efni. Eg hefi einmitt bæði utanlands og innan talið þá ástæðu eina fyrir afdrifum frumvarpsins, að kringumstæðurnar voru breyttar áður málið kom fram fyrir konung.

Eg hefi sýnt í skýrslu minni, að eg hafði fulla ástæðu til þess að fresta því að bera málið upp fyrir konungi í fyrra haust, og að eg hafði fullan rétt samkvæmt stjórnarskránni til að bíða með að koma fram með frumvarpið og nota ekki þann tíma, sem eg áleit óhentugan.

Þessar eru varnir mínar, hitt læt eg liggja milli hluta.

Eg vil að eins stuttlega minnast á það, sem háttv. fyrirspyrjandi (L. H. B.) gaf í skyn, að það væri mér að kenna, að ástæðurnar breyttust, eg hafi fyrirfram vitað, að dómamálaráðherrann hafi ætlað sér að breyta dönsku lögunum um lotterí, og þessu til stinnunar segir hann, að eg hafi átt að segja 2 eða 3 mönnum frá því einhvern tíma í Kaupmannahöfn í fyrra haust, að Bülow væri að búa til frumvarp, sem kæmi í bág Við lotterifrumvarpið.

Þetta er það, sem á íslenzku er kallað lygi. Eg hefi ekki talað þetta við neinn mann, og gat það ekki af þeirri einföldu ástæðu, að eg hafði ekki hugmynd um að dómsmálaráðherra Bülow ætlaði Sér að búa til nokkurt frumvarp í þessa átt. Mér datt möguleikinn í hug, og þess vegna spurði eg dómsmálaráðherrann um leið og eg kvaddi hann í lok Nóvembermánaðar í fyrra, hvort von væri á nokkrum lagabreytingum út af hæstaréttardómum þeim í Sænska lotteríhlutamálunum, er þá voru nýfallnir, og að vísu snertu ekki beint þá spurningu, sem okkur greindi á um, en kemur þó við skylt efni; en hann kvað nei við því, að nokkuð hefði verið um það talað eða nokkur líkindi til þess. Bæði þá og síðar fullyrti hann við mig, að hann væri alveg hárviss um, að hæstiréttur mundi nú skilja in gildandi lotterílög á sama hátt og hann hélt fram að rétt væri. Eftir því var ekki líklegt, að hann þættist þurfa lagabreyting okkar vegna, enda bera lögin frá 1. Apríl það með sér, að það er ekki tilefni laganna, þó að það slæðist með.

Háttv. flutningsmaður (L. H. B.) var að tala um, að eg hefði fengið áskoranir í vetur um að flýta því, að frumvarpið ræði staðfestingu. Eg kannast við það, að eg fekk bréf í þessa átt frá herra Philipsen einhvern tíma í vetur, þar sem hann sagði mér frá því, að frumvarp væri fram komið í landsþinginu, og bað mig að reyna að stoppa það. En það var hvorttveggja, að eg gat ekki fengið lotterífrumvarpið staðfest fremur þá en í haust, og í annan stað þótti mér ekki hlýða, að eg færi að sletta mér fram í innanríkismál Dana; það hefði ekki verið gott fyrirdæmi né oss sjálfum hentugt, enda sjálfsagt lítils árangurs að vænta.

Viðvíkjandi tillögu þeirri til rökstuddrar dagskrár, sem fram er komin, skal eg taka það fram, að þó að eg eftir öllum undirbúningnum geti rent grun í, hvað flutningsmaður ætlast til að hún merki og hverju hann vonast eftir að ná með henni, þá, er hún hins vegar svo tvíræð, að eg get ekki gert honum né öðrum það til geðs að taka þetta sem vantraustsyfirlýsing. Tillagan kemur mér svo fyrir sjónir sem höfundur hennar Vilji halda sér opnum bakdyrum til þess að geta skotið því við eftir á, ef hún yrði samþykt og eg færi frá vegna hennar, að það hefði aldrei verið meiningin. Það er eins og það hafi átt að hafa vaðið fyrir neðan sig til þess að geta sagt, ef kjósendum út um landið ekki líkaði þetta eins vel og þeir nú vona: Hann þurfti alls ekki að fara frá vegna tillögunnar, það var traustayfirlýsing ! Það er einkennilegt, hve vel orðalag þessarar tillögu fellur við lygasögu, þá sem borin hefir verið út um alt land í vor, að eg ætlaði að nota “þetta ómerkilega lotterímál„ til að fá átyllu til að leggja niður embættið og taka við náðugri stöðu í Íslandsbanka með afarháum launum. Þetta hefir verið rækilega innrætt fólkinu víðsvegar. Eg hefi fengið að minsta kosti 10–20 bréf með fyrirspurnum um, hvort þetta væri satt. Það er alveg eins og sagan hafi verið útbreidd í því skyni að undirbúa svona lagaða grímuklædda og tvíræða vanþóknunarlýsing. En ósönn er sagan, bæði um fyrirætlan mína og þessi sældarkjör, sem eigi að bíða mín í háum launum í Íslandsbanka. Eg hefi ekki ætlað mér og ætla mér ekki að hörfa af hólmi um sinn, meðan meiri hluti þingsins óskar ekki stjórnarskifta, og eg vík ekki nú, nema að meiri hluti þjóðkjörinna þingmanna að minsta kosti lýsi yfir ósk um að eg fari frá. Eg veit það vel, að svo framarlega sem meiri hluti í þessari deildinni, þó ekki sé nema 1 manns munur, getur gert mér lífið súrt með því að drepa mál, sem miklu varða eða samþykkja hin og þessi frumvörp, sem ekki væri unt að fá Staðfest, eins og t. d. þetta lotterímál, sem ef til vill hefir líka verið samþykt í þeim tilgangi, en eg á eftir að sjá, hve margir af mínum gömlu vinum og samherjum, sem nú hafa skipast í andþófsflokk, vilja ljá sig til þess konar stjórnmálareksturs. Mér er að vísu kunnugt um það, að sumir mínir gömlu vinir segja mig nú öllum heillum horfinn, telja mér hafa mislánast alt nú á síðari tímum og því ekki bindandi trúss við mig lengur. Eg skal ekkert á móti þessu bera. Það er satt, að margt hefir blásið á móti, og öðruvís farið, en ætlað var. En þrátt fyrir alt þá er eg samt þeirrar skoðunar, að eg standi enn svo á fornum merg, að til séu nokkur þau mál, Sem eg enn þá ef til vill geti gert eins mikið gagn í eins og flestir heiðraðir mótstöðumenn mínir eða keppinautar, og að eg geri því ekki rétt í að leggja strax árar í bát út af því, þótt nokkrir þingmenn hér í deildinni, sem ekki eru meira en þriðjungur þingsins að höfðatölu, séu eitthvað óánægðir með mig. Og eins og þessi óákveðna tillaga er orðuð, lýsi eg yfir því, að eg tek hana ekki sem Vantraustsyfirlýsingu eða ósk um stjórnarskifti, og þar af leiðir, að þó að hún væri samþykt í einu hljóði, þá mundi eg ekki segja af mér hennar vegna.