29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (362)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Þó að svo líti út, sem hér sé um nýmæli að ræða, þá er því ei svo farið í raun og veru. Því að það er vitanlegt, að landssjóður ber nú óbeinlínis alla ábyrgð á sparisjóðsfé og öllu öðru fé, sem inn í bankann kemur. En svo sérstaklega stendur á hér, að ofan á landssjóðsábyrgðina, sem vitanleg er, liggur Sú kvöð á bankanum, að hann verður að binda 20% af því fé, sem lagt er inn í sparisj., í verðbréfum, sem standi til tryggingar frá bankans hálfu. Þetta hindrar bankann frá því að geta notað allmikla peningafúlgu til eflingar og stuðnings almennra viðskifta og fyrirtækja. Þó að eg segi, að vitanlega beri landssjóður ábyrgðina nú, þá er svo ekki í meðvitund fólksins. Með þessu frumv. er því ekki farið fram á annað en það, að þau lög, sem hingað til hafa verið óskrifuð, verði skráð lög. Við 1. umr. málsins hreyfði háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) mótmælum gegn frv., en eg hygg að hann eina og fleiri hafi ekki gætt þess, að ábyrgðin hvílir að mínu áliti á landssjóði nú. Hann sagði, að ef þetta frumv. yrði að lögum, þá neyddist landssjóður til þess að kaupa mikið af obligationum til þess að hafa alt af til taks. En hér er ekki farið fram á það, að landssjóður greiði upphæðina strax út, ef bankinn getur ekki borgað — það er alls ekki meiningin —, heldur hitt, að því sé slegið föstu, svo að fólk viti það, að það getur ekki tapað sínum peningum. Það er svipuð ábyrgð og ríkissjóður Dana, ásamt 5 bönkum, tók á sig með lögum 15. Febr. 1908, til þess að hlaupa undir bagga með tveim bönkum, sem þá voru ill staddir. Það er því misskilningur, að landssjóður þurfi að hafa tilbúið fé, ef inneigendur kalla eftir því, það er að eins um öldungis almenna ábyrgð að ræða.

Það er ekki langt síðan að rífa átti alt út úr sparisjóði bankans í þeim tilgangi, að neyða hann til að hætta störfum. Það er því full ástæða til að gera lög um þetta til að fyrirbyggja uppþot, og þetta frumv. miðar að eina til þess, að bankinn geti starfað örugt. Það liggur í augum uppi, að við verðum að styrkja bankann, þar sem hann er alþjóðareign. Og það er fyrir þá sök sérstaklega, sem þarf að tryggja það, að bankinn geti starfað hindrunarlaust og sé ekki nokkurs konar bolti milli flokka. Við höfum átt því óláni að fagna á síðari árum, að landstjórnin hefir ekki veitt þessum banka þann stuðning sem hún hefði átt að gera. En það verður alt af svo, að stjórnin verður ýmist hlynt eða ekki hlynt bankanum, þrátt fyrir það þótt bankinn sé þjóðareign. Og það er líka af þessari ástæðu brýn þörf á að sjá bankanum fullkomlega borgið. Svo skal eg líka benda á það, að þó að þetta frumvarp verði samþykt, verður bankinn að hafa alt það veltufé, sem honum var lagt upphaflega, að veði fyrir veðdeildum. Hann þarf nú að hafa yfir 700 þús. kr. standandi í verðbréfum fyrir veðdeildum, sem ekki losna að öllu úr veði fyr en eftir 40 ár, og þar að auki 200 þús. kr. í konunglegum ríkisskuldabréfum, sem ekki verða seld vegna markaðsástandsins, og eru afleiðing af þessu veði.

Eg vona að háttv. þingm. skiljist, hvað hér er á seiði. Það er ekki um neina nýja ábyrgð að ræða, heldur að eins að létta af bankanum kvöð, sem stjórnin hefir lagt á hann.