29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (364)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Jón Ólafsson:

Hr. forseti! Hæstv. ráðherra fann það meðal annara þessu frv. til foráttu, að ef það yrði samþykt, þyrfti að auka eftirlit með Landsbankanum að miklum mun. Mér er ekki annað kunnugt, en að landsstjórnin geti haft alt það eftirlit, sem henni þóknast, með bankanum. Og mér er það kunnugt, að hún lætur skoða gerðabækur bankans vikulega og getur kynt sér eftir vild alt, sem gerist í bankanum. Auk þess veit eg ekki betur en að landsstjórnin geti, ef henni þykir bankanum illa stjórnað, sett bankastjórana frá. Hún hefir ekki haft ástæðu til að nota þetta vald hingað til, en þegar landsstjórnin sjálf skipar bankastjórana, ætti hún að geta valið góða menn í stöðuna. Eg sé því ekki betur en að landsstjórnin hafi alla þá tryggingu, sem hún þarf að hafa og getur haft, fyrir því, að eftirlitið með bankanum geti verið nægt. Auk þess skipar stjórnin annan endurskoðunarmann bankans. Hitt vildi eg taka fram, að þó að frumvarpið verði samþykt, þá mundi bankastjórninni ekki detta í hug að selja verðbréfin, heldur er ætlunin að fá þau þannig losuð, að hægt sé fá lán út á þau nokkurn tíma árs. Það er eins og allir vita, að eftirspurnin eftir peningum eykst að áliðnum vetri og vorinu og heldst fram eftir sumri; þannig er t.d. um lán til útgerðar og til fiskkaupa; en lánin eru svo aftur borguð inn að haustinu, þegar útgerðarmenn fara að fá inn peninga fyrir seldan fisk. Bankastjórnin vill fá verðbréfin losuð til þess, að hún geti fengið lán út á þau yfir sumarið, svo að hún geti fullnægt þörfum viðskiftavina bankans. En að losa þau til að selja þau, dettur bankastjórninni ekki í hug. — Eg sé ekki, að það standi nokkuð í sambandi við þetta mál, að seðlar bankans eru ekki innleysanlegir. Í þau 26–27 ár, sem bankinn hefir staðið, hefir hann ávalt innleyst seðla sína, þegar um hefir verið beðið. Eg ímynda mér að hæstv. ráðherra hafi gert sér óþarfar grýlur út af afleiðingum þessa frumvarps. Neinar slæmar afleiðingar af því held eg að geti ekki átt sér stað í raun og veru.