29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (379)

34. mál, lán til byggingar íbúðarhúsa á prestssetrum landsins

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Þetta frv. er stjórnarfrumv. og hefir gengið í gegn um Ed., sbr. nefndarálit á þgskj. 51. Nd. kaus nefnd í málið (nefndarálit á þgskj. 162) og hefir hún leyft sér að gera við það nokkrar breytingar.

Nefndin álítur að hámark lána til húsabygginga á prestssetrum beri að fara upp í 5 þús. kr. virðist upphæðin ekki mega vera minni vegna þess að ætlast er til að húsin séu úr steinsteypu. Eins vildi nefndin stuðla að því að húsin yrðu að öðru leyti sem bezt úr garði gerð.

Nefndin vill leggja til að 2. gr. falli burt, þar sem hún virðist vera alveg óþörf. Það virðist hverjum manni augljóst, að presti, sem tekur sér aðstoðarprest, mundi alls ekki meinað að flytja sjálfum á aðra jörð, ef inn starfandi prestur byggi á prestssetrinu, svo það er óþarfi að gera lagabreyting vegna þess. Auk þess er stjórninni fengið of mikið vald í hendur með þeim ákvæðum, sem nú standa í þessari grein.

Þá virðist nefndinni réttast að stryka út niðurlagsorð 4. gr.: og líklegt til sæmilegrar endingarg. “Orðin eru óþörf, en virðast heldur draga úr því sem felst í orðinu vandað„.

En leggur nefndin til að feld sé 7. gr. Eftir greininni á landssjóður að leggja til alt efni og smíði til endurbyggingar á húsi, er ónýtist af náttúrunnar völdum, en prestinum ætlað að bera annan kostnað. Þegar um er að ræða steinhús eða timburhús, þá verður það óverulegt, sem lagt er á prestinn. Leiguliðar eiga að leggja til veggi og þök í torfhús og er það ólíku meira, því að þar leggja þeir fram bæði efni (annað en timbur, járn og gler) og vinnu við húsagerðina um alt það er að torfverkinu lýtur. Þessi “annar kostnaður„, sem talað er um, getur ekki verið annað en aðflutningur efnisins, en það virðist engum manni ætti að vera ofætlun að sjá um smíðið á húsinu, er hann fær efnið ókeypis.

Nefndin leggur svo til að frumvarpið verði samþyt með þessum breytingum.