30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (393)

7. mál, fasteignaskattur

Guðmundur Eggerz:

Eg verð þegar að játa, að eg skildi ekki sumt af því, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) sagði. Hann var að tala um þingmannslausan hatt, og tel eg slíkt hjal benda til höfuðlítis þingmanns. Eg var hissa á að heyra inn háttv. þm. tala um, að eini galli frumvarpsins væri sá, að það legði ekki nógu þungan skatt á þjóðina. Eg verð að segja, að mér virðist, eina og hagur þjóðarinnar er nú, að það geti ekki verið gallalaus þingmaður, sem talar þannig. Eg veit það reyndar að inn háttv. þm. er kaupmaður, og eg skil það að hann munar ekki mikið um að snara út nokkrum krónum. En fátæklingana. sem þurfa að fá peninga hjá kaupmönnum til að geta borgað þennan skatt, þá munar sannarlega um það. Til dæmis um það að þjóðin þolir ekki aukna skatta — í líkingu við nágranna-þjóðirnar, má benda á það, að samkvæmt skýrslu milliþinganefndarinnar 1908, er þjóðareignin talin 650 kr. á hvern mann á Íslandi. En í Danmörku er þjóðareignin 4140 kr. á mann. Eg skal svo snúa máli mínu frá þessum háttv. þm., en leyfa mér að víkja nokkrum orðum að háttv. frams.m. meiri hl. (Ól. Br.). Í sjálfu sér sagði hann ekkert nýtt, ekkert sem ekki er áður tekið fram í nefndarálitinu. En hann vísaði máli sínu til stuðnings til ýmsra þingmálafunda. Mér þykir það undarlegt, að vísa til þingmálafunda um þetta mál, sem alla ekki hefir legið fyrir fundunum. (Pétur Jónsson: Það hefir leg fyrir í mörg ár.). Hann var að vitna í þingmálafund í Suður-Þingeyjarsýslu. Mér er sagt að umboðsmaður Pétur Jónason hafi gylt frumvarpið mjög fyrir sýslubúum, og eg imynda mér að það hafi hjálpað því til að ná samþykki á fundunum þar í sýslunni.

Mér virðist það vera nokkurn veginn ljóst, að einn aðaltilgangur þessa frumvarps er sá, að auka tekjur landssjóða. Það er ekkert nýtt hjá stjórninni, og eg skal ekki álasa henni fyrir það í sjálfu sér. Þingmenn hafa líka oft og einatt farið fram á það, og nú hefir lengst af verið stefnan. En eg hygg að réttara væri að hugsa öllu fremur um það, hvort ekki væri hægt að spara eitthvað af útgjöldunum. Því ef alt af á að auka útgjöldin, og streitast við að útvega til þess meiri og meiri tekjur, hvar lendir þá, nema í enn þá meiri skuldasúpu, en vér erum þegar komnir í? Nú er ekki heldur jafnmikil nauðsyn fyrir tekjuauka, eins og oft áður, það játar bæði meiri og minni hl. nefndarinnar. Þá vildi eg og líka mega benda á það, að þessi tekjuauki er ekki áætlaður nema einar 50–60 þús. kr., og það er ekki svo ýkja mikið fyrir landssjóð.

Þá er líka annar tilgangur með þessu frumvarpi, sem sé sá, að breyta til í skattalöggjöfinni í áttina til fastra skatta og munu ýmsir telja þá stefnu heppilega ef skatturinn kemur sanngjarnlega niður. En allir hygg eg þó að verði á einu máli um það, að betri sé engin breyting, en sú sem ekki bætir, heldur skemmir. Eg endurtek það, að það er marg-fengin reynsla fyrir því, að þjóðin er mjög óánægð með þessi frv. milliþinganefndarinnar frá 1907, og hví á þá að óþörfu að demba öllum þessum skattalögum á okkur?

Í tilefni af því, að hv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.) virðist vera á þeirri skoðun að bændum mundi þægilegra að fá þenna nýja skatt, heldur en búa við ábúðarskattinn, vil eg geta þess, að ábúðarskatturinn er lítill skattur saman borið við þann sem hér er um að ræða. Gerum t. d. ráð fyrir 50 hndr. jörð, sem virt væri með húsum á 10 þús. kr. Ef alinin væri 60 aurar, þá væri nú ábúðarskatturinn af henni 12 kr. En þessi nýi skattur, 2 pró mille virðingarverðs, yrði af sömu jörð 20 kr. Bóndann munar um 8 kr. skatthækkun, ef til vill ekki á Norðurlandi, en í þeim héruðum sem eg þekki til. Eins vildi eg taka fram, að ekki mundi húsaskatturinn koma létt niður í kauptúnum. Þar sem nú eru borgaðar kr. 2,50 af húsi, mundi skatturinn verða 6 kr. eftir þessu frv.

Eg er samdóma háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) um það, að þessi frv. standa öll í svo nánu sambandi innbyrðis, að ef ið fyrsta fellur, þá hljóta hin að falla, og það þegar af því, að tekjuskatturinn, ef frumvarpið um fasteignaskattinn félli, mundi gefa 11 þús. kr. minna í landssjóð, en nú fæst af tilsvarandi gjaldstofnum.

Þá skal eg drepa á það, að hingað til hafa þessir föstu skattar lítið breyzt árlega. En nú er hér gerð byrjun til þess. Það liggur í loftinu að þeir eigi fyrir sér að hækka, og það fljótt, sbr. ákvæðið í 7. gr. um að hækka megi og lækka skattinn með fjárlagaákvæði í hvert sinn. Þetta ákvæði er óhafandi í skattalöggjöf. Það er alt af nokkuð fyrirhafnarmeira að breyta skattinum, ef til þess þarf venjulega lagabreytingu. Því vil eg ekki gefa heimild til að hækka og lækka skatta með fjárlagaákvæðum.