30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (398)

7. mál, fasteignaskattur

Eggert Pálsson:

Það er að vísu samkvæmt þingsköpunum að umræðurnar við 2. umræðu skuli snúast meira um einstakar greinar en málið í heild sinni. Í þetta skifti hefir þó ekki verið farið eftir þessari reglu, heldur hafa menn aðallega rætt stefnu málsins yfirleitt fremur en um einstakar greinar. Þetta er eðlilegt, þegar á það er litið, að við 1. umræðu mun harla lítið hafa verið rætt um málið, en því vísað undir eins til nefndar. Af því leiðir að nú verður ekki hjá því komist að umræðurnar snúist eins mikið eða jafnvel meira um stefnu málsins, heldur en um einstakar greinar frumvarpsins. Býst eg því við að svo hljóti einnig að fara fyrir mér.

Hér er farið fram á með þessu frumvarpi að auka tekjur landssjóðs, að vísu ekki um mjög háa upphæð, en þó talsverða. Mér dylst nú að vísu ekki, að fyrir slíka tekjuaukningu hefir landssjóður jafnan fulla þörf, ef hann á að geta orðið við öllum eða flestum þeim kröfum, sem til hans eru gerðar. Eins og bent hefir verið á, liggja fyrir þinginu miklar kröfur um aukin útgjöld nú. Það hefir verið bent á styrkinn til Landsbankans og enn má nefna tillöguna um að landssjóður kaupi hluti í eimskipafélaginu, sem verið er að stofna og öllum þorra landsmanna virðist mjög hughaldið um. En eg get ekki með nokkru móti skilið að hægt sé að verða við þessum kröfum öllum, þótt tekjur landssjóðs væru auknar með þessum skatti eða sköttum einum saman. Til þess held eg að yrði að finna út einhverjar aðrar nýjar og meiri tekjur handa landssjóðnum. En það er hægra sagt en gert.

Það er vitanlega alt af óvinsælt mál, þegar á að auka tekjur landssjóðsins. Almenningi er illa við öll gjöld, þó að það sé misjafnt hversu illa þokkað gjaldið er. Og mér virðist svo, að allur þorri manna sé því yfir höfuð hlyntari að greiða gjöld sin í óbeinum sköttum eða tollum, heldur en í beinum sköttum, með öðrum orðum, að tollastefnan sé að skömminni til skárri og vinsælli hjá almenningi heldur en sú stefna, sem hallast að beinu sköttunum. Þetta er ekki nema eðlilegt, sérstaklega vegna breyttra kringumstæðna í þjóðfélagi voru. Beinu skattarnir voru miklu heppilegri áður, þegar meiri festa var í þjóðfélaginu en nú á sér stað. Nú þegar svo mikið los er komið á alt, að meir en annarhver maður hringlar fram og aftur landshornanna á milli, er ekki nema eðlilegt að hugir þeirra manna, sem fast aðsetur hafa, hneigist fremur að tollaprincipinu heldur en að beinu sköttunum, með það fyrir augum, að tollarnir komi þó jafnara niður. Ef meiri hluti skattanna væru beinir, mundi svo fara, að mikill hluti landsmanna kæmist hjá því, að greiða nokkuð verulegt til landsþarfa. En aðalþungi gjaldanna hvíldi á einstökum mönnum. Þannig lít eg á þetta mál. Og það er ekki að eins mín sérstaka skoðun, heldur má segja að það sé almenn skoðun allra landsbúa.

Eg man eftir því á þingmálafundi í Rangárvallasýslu fyrir mörgum árum, þegar þetta frumv. og önnur frumvörp skattamálanefndarinnar voru þar til umræðu, að þá voru allar hendur uppi með því, að hallast heldur að tollunum heldur en beinu sköttunum. En hvernig menn þar líta nú á þetta mál, get eg vitanlega ekki með neinni vissu sagt, með því að það hefir alls ekki komið til tals í kjördæmi mínu nú. Mönnum var ekki kunnugt og bjuggust víst ekki Við áður og um það leyti að þingmálafundir voru haldnir, að þetta frumvarp eða annað slíkt yrði lagt fyrir þingið, og svo mun víðar hafa verið. En þó að eg geti ekki sagt með vissu, hvernig kjósendur mínir líta á þetta mál nú, þá tél eg ólíklegt að hugir þeirra hafi breyzt í þessu efni, enda munu menn hafa búist við því alment, að ekki væri þörf á að auka skattana fram úr því sem gert var með vörutollslögunum í fyrra, nema þá því að eins að þeim yrði breytt til muna eða jafnvel afnumin.

En jafnvel þó að eg hallist fremur að því, að ná tekjum handa landssjóði með óbeinum Sköttum heldur en með beinum sköttum, vil eg þó ekki, að svo vöxnu máli, setja mig beint á móti frumvarpi þessu. Veldur því þá einkum það að mér dylst ekki, að ef út á þessa braut er gengið, gæti það orðið til þess, að útvega hreppa- og sýslusjóðum tekjur á líkan hátt. Eins og öllum er ljóst, er hagur þeirra sjóða mjög bágborinn og illur með því fyrirkomuilagi, sem nú er, þar sem þeir hafa engar fastar tekjur, sem hægt er að byggja á, heldur verður að afla þeirra því nær allra með eintómri handahófs-niðurjöfnun. Ef gengið er út á þessa braut á annað borð, sem felst í þessu frumvarpi, þá mætti ekki með neinu móti sleppa að útvega sýslu- og hreppasjóðunum tekjur á sama hátt. Það má nú máske segja,.að þetta sé óbeinlínis spor í áttina og að frumv. eða lög, sem útvega hreppa- og sýslusjóðum tekjur á sama hátt, mundu fylgja bráðlega á eftir. Eg skal nú ekki neita því, en þó hefði það óneitanlega verið viðkunnanlegra og tryggara að slíkt frv. hefði verið samferða þessu. — Eg mun nú samt sem áður greiða atkvæði með frumvarpi þessu nú Við þessa umræðu. En þó að eg greiði atkvæði með frumvarpinu nú, vil eg ekki að það sé skoðað svo, að eg með því hafi bundið atkvæði mitt Við 3. umr. Eg greiði atkvæði með því nú einungis til þess, að bæði mér og öðrum gefist kostur á að hugsa málið betur, menn hafa haft nóg að gera í nefndum, og ekki haft tíma til að Setja sig inn í jafnflókið mál og þetta er, ásamt öðrum nefndarstörfum.

Svo að eg gangi ekki alveg fram hjá að minnast á einstakar greinar frumvarpsins, akal eg leyfa mér að vekja athygli á 2. málsgr. 1. gr. Mér duldist ekki að háttv. frsm. minni hl. nefndarinnar (Kr. D.) leit Svo á að prestum, sem hafa margar kirkjujarðir undir höndum, bæri að greiða skatt af þeim öllum, og ekki einungis að hálfu leyti, heldur að öllu. Því að þó að það standi í frumvarpinu að svo skuli ekki vera, nema þar til nýr samnigur er gerður, þá skilst mér að það geti dregist nokkuð. Eg skil ekki að hægt sé að neyða leiguliða til þess að gera nýjan samning og þá yrði umráðandi jarðarinnar að greiða allan skattinn, sem yrði óhæfilega hátt einstaklingsgjald. Aftur á móti heyrði eg að hæstv. ráðherra sagði, að þessi skilningur gæti ekki komið til nokkurra mála. Landssjóður eða kirkjujarðasjóður yrði að sjálfsögðu sem eigandi kirkjujarðanna að greiða slíkt gjald, en ekki prestarnir. En þessi mismunandi skilningur háttv. frsm. minni hl. (Kr. D.) og hæstv. ráðh. sýnir að minsta kosti, að greinin er óljóst orðuð, og væri því vel til fallið, að nefndin kæmi með breytingartill. við hana til 3. umr.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið að sinni. Eg greiði atkv. með frumvarpinu til 3. umr., hvað sem þá í skerst. Það læt eg að svo stöddu ósagt.