30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (401)

7. mál, fasteignaskattur

Þorleifur Jónsson:

Þetta mál er í raun og veru ekki nýr gestur hjá þjóðinni, þótt nýr sé á þinginu. En þó að þjóðin hafi haft góðan tíma til að athuga þetta mál, skattamálið, þá er hún þó ekki fylgjandi frumv. þessum, og hygg eg, að meiri hluti landsmanna áliti þetta kerfi ekki heppilegra en það gamla. Eg hefi reynt að gera mér grein fyrir málinu, og eftir rækilega íhugun hefi eg komist að þeirri niðurstöðu, að þetta kerfi standi ekki framar því gamla. Þó kemur mér ekki til hugar að lá stjórninni það, að hún ber þessi skattalög fram, en hins vegar álít eg það ósæmilegt, að bera andstæðingum hennar á brýn, að þeir risi á móti þeim af því að þeir vilji fella stjórnina og gera henni óleik, því að þetta mál ætti sízt að vera hita- eða tilfinningamál.

Milliþinganefnd sú í skattamálum, sem skipuð var 1907, hafði upphaflega ætlast til, að skatturinn ykist frá því sem var eftir gamla kerfinu, yrði þrefaldur, sem sé fasteigna-, eigna- og tekju skattur. Það var vorkunn þótt nefndin fyndi ekki annað ráð þá til þess að aflalandssjóði tekna heldur en þetta. Lengi höfðu verið skiftar skoðanir um það, hvora leiðina ætti að velja, beinu skattana eða óbeinu, og nefndin tók þann kostinn að leggja til, að skattarnir yrðu fyrst og fremst beinir. Nú er þetta breytt; nú hefir landssjóði verið séð borgið með vörutollslögunum, enda hefir og landsstjórnin slept einum lið úr kerfi skattanefndarinnar, eignaskattinum, auðvitað vegna þess, að hún hefir ekki álitið þess eins mikla þörf að auka skattana og þegar skattanefndin sat á rökstólum.

Eg álít að það sé til bóta, að skatturinn sé að eina tvöfaldur, en það veit eg, að sú stefna, að hrúga skatti á skatt ofan, verður óvinsæl og leiðir til undanbragða, auk þess sem það veitir mönnum litla hvöt til að afla eigna. Gjaldþoli almennings er líka alveg nóg boðið með þeim sköttum og tollum, sem fyrir eru, þótt ekki sé enn bætt á byrðina.

Mín skoðun er sú, að ekki sé nauðsyn á að afla landssjóði nýrra tekna í bráð. Vörutollurinn, sem nú er kominn á, veitir landssjóði 300 þús. kr. tekjur á ári. En eftir þá hækkun lífsnauðsynja búast landsmenn ekki við nýjum álögum bráðlega. Það eru einkum beinu skattarnir, manntalsþingagjöldin til landssjóðs og sveitarútsvörin, sem menn kveina undan, eins og Ameríkufarar oftast og mest taka sér í munn. Undan tollunum kveina menn síður. En því fremur er óforsvaranlegt að hækkað að óþörfu þá skatta, sem mönnum er verst við og tilfinnanlegastir eru. Og þar sem fjárhagur landsins virðist nú bærilegur, sé eg enga knýjandi nauðsyn til að auka tekjur landssjóðs.

En auk þess sem nú var talið, er eg á móti þessu skattakerfi, af því að eg álít það fyrirkomulag engu betra en það gamla. Ábúðarskatturinn er grundvallaður á jarðamati, sem ef til vill má nú finna einhverja annmarka á, en var þó á sínum tíma vandlega samið. Lausafjártíundin grundvallast á framtali fjáreigenda. Þó að þetta hafi nú sína annmarka, þá efast eg fyrir mitt leyti stórlega um, að grundvöllur þessara nýju skatta verði nokkuð öruggari.

Nú er ætlast til, að skattanefndir verði skipaðar í hverjum hreppi, er meti eignir til skatts, og skapi mönnum tekjur. Eg get nú ekki búist við, að mat þeirra nefnda yrði betra en t. d. jarðamatið gamla. Að því leyti mundi eg miklu betur fella mig við það, að ein nefnd í hverri sýslu væri látin meta allar jarðir innan sýslunnar. Verksvið þessara skattanefnda á að vera, að skapa skatt. Það er kunnugt, að ofan úr fornöld hafa tollheimtumenn verið síður en ekki vinsælir, en það er trúa mín, að þessir skattskapendur yrði álitnir algerlega óalandi og óferjandi, ef þeir ræktu starf sitt með þeirri trúmensku, og eg vil segja með þeirri harðneskju, sem trúmenska í þeirri stöðu útheimtir. Það hefir stundum heyrst, að virðingamönnum hafi verið mislagðar hendur í mati eigna, ef t.d. svo hefir staðið á, að æskt hefir Verið láns úr bönkunum út á fasteignir. Þess hefir líka sést getið í blöðunum, að einstöku maktarmenn hafi fengið sér seldar Við ótrúlega góðu verði opinberar eignir eða parta úr þeim eftir mati tveggja eða fleiri manna. Þetta geta verið góðir menn, þótt verða kunni fyrir áhrifum, er vinir eða nákomnir menn eiga í hlut, svo að matið fari í handaskolum. Þess vegna verð eg að vera á móti því, að ið opinhera eigi það undir 3 manna nefnd í hverjum hreppi, hverjar tekjur landssjóður fái. Mér skilst ekki, að það fyrirkomulag reynist ábyggilegra en það fyrirkomulag sem nú er. Það er sjálfsagt, að þessar skattanefndir hljóta að kosta mikið, þótt óvíst sé hversu mikið þær eti upp.

Þá hefir það líka verið tekið fram, og undir það tek eg, að óviðkunnanlegt er að heimta skatt af veðsettri eign jafnt og óveðsettri.

Um tekjuskattinn af búskap vil eg taka það fram, að það hlýtur að vera afar-erfitt bæði fyrir skattanefndir og og framteljendur að gera sér grein fyrir því, hve miklar tekjur hvert bú eða framteljandi hefir. Það er öllum kunnugt, að þeir menn eru örfáir á þessu landi, sem halda svo nákvæma búreikninga. að þeir viti t. d. hve mikið hver skepnutegund gefur af sér, þegar allur tilkostnaður er dreginu frá. Í þessu efni mundu skattanefndarmenn líklega ekki Standa framar öðrum yfirleittt, fyr en þá eftir mörg ár Og þótt skattanefndarmenn væru betri í búreikningum en framteljendur, mundi þá þó kosta langan tíma að reikna út tekjur og gjöld hvers einstaks framteljanda og mundi það tefja þá ekki all-lítið, og þar með auka að mun kostnaðinn við þessar nefndir.

Allur þessi tekjureikningur landssjóðs álít eg því að sé í lausu lofti bygður. Yfirleitt þykja mér agnúarnir svo miklir á þessu skattakerfi, að eg álit ekki rétt að lögleiða það.