30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (403)

7. mál, fasteignaskattur

Halldór Steinsson:

Eg skal að eins leyfa mér að gera grein fyrir atkvæði mínu, sem er einn úr minni hl. nefndarinnar. Tveir meðnefndarmenn mínir, sem talað hafa, hafa látið í ljósi sína skoðun á málinu og get eg verið þeim samdóma í flestu, sem þeir hafa sagt, svo eg þarf ekki að vera langorður. Eg skal kannast við það, að eg er háttv. meiri hluta samdóma í því, að stefnan, sem farið er fram á í þessum frumvörpum sé eðlilegri stefna en sú, sem nú er farið eftir í skattamálum, og eg get að því leyti felt mig við þau flest, nema frv. um fasteignaskatt. Mér virðist það gagnstætt allri réttsýni að leggja skatt á það, sem ekki er til. Það er alkunnugt að flestar, eða allar fasteignir eru svo veðbundnar, sem frekast er unt, en tilætlun frumvarpsins er þó sú að leggja skattinn á eftir virðingarverði, án þess að draga frá skuldirnar, og mætti því skatturinn með jafnmiklum rétti nefnast skuldaskattur sem fasteignaskattur. Tilætlunin er ef til vill sú, að menn verða þá eftirleiðis varkárari í því efni og safni minni skuldum, samt hefi eg litla trú á því. Önnur aðalástæðan, sem eg legg mikið upp úr að því er öll þessi frv. snertir, er sú, að á seinasta þingi var demt á þjóðina stórum sköttum með farmgjaldslögunum. Nýir akattar, nú þegar, mundu því koma mönnum mjög á óvart og óvænt, einkum þar sem ekki er knýjandi nauðsyn til þeirra.

Mig furðar á því, þegar verið er að leggja nýja skatta á, að þá er ekkert athugað gjaldþol þeirra manna, sem skattana eiga að greiða, heldur er þeim — þegar peninga þarf með — þegar demt á. Milliþinganefndin 1907 gerði sér far um að rannsaka þetta spursmál og var árangurinn af þeim rannsóknum sannarlega ekki glæsilegur. Niðurstaðan varð sú, að í samanburði við eignir einstaklinga í öðrum löndum, voru eignir okkar ferfalt, sumstaðar tífalt minni. Tekjurnar voru raunar dálítið hærri hlutfallslega, en þó ekki frekar en svo, að óhætt er að fullyrða, að hagur Íslendinga er miklu lakari en hagur manna í flestum löndum Norðurálfunnar. Þegar þessa er gætt, þá virðist ekki lítil ástæða til að fara varlega í sakirnar til þess að misbjóða ekki gjaldþoli manna. Það lægi nær að lofa mönnum að átta sig dálítið á málinu fyrst. Hæstv. ráðherra (H. H.) og 1. þm. Skagf. (Ól. Br.) hafa haldið því fram, að menn væru þegar búnir að átta sig fyrir löngu. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að málið hefði verið kunnugt flestum þingmálafundum í vor og þá hefðu menn getað tekið afstöðu til þess. Eg verð að mótmæla þessu, hvað flest héruð snertir. Það hefir áreiðanlega ekki verið kunnugt 1/3 þingmálafunda í vor. Það kann að vera að fregnir hafi borist í einhverju blaði um það, að stjórnin ætlaði að leggja þessi frv. fyrir þingið — en þá er þess að gæta, að það eru ekki nærri allir sem lesa blöðin og þó þeir lesi þau, þá er því nú svo farið, að ekki er að byggja á öllu, sem þar stendur eins og heilögum sannleika. Það er ekki nóg að segja, að það standi á prenti. Hv. ráðherra sagði líka, að einmitt nú væri tíminn kominn til að bera þessi frv. upp, því að nú hefðu menn áttað sig á þeim. Eg verð að mótmæla þessu. Ef menn hafa athugað frumvarpið, þá hefði það helzt átt að vera á árunum 1908–10, eftir að álit skattanefndarinnar kom út. En þegar málunum var alla ekki hreyft á þingunum 1911 og 12 hafa flestir — með réttu — álitið að frumvörpin væru lögð á hilluna og yrðu aldrei borin fram — og hefi eg engan heyrt kvarts yfir því. Ef þjóðin hefði átt að fá að átta sig á málinu og láta álit sitt í ljósi, þá hefði stjórnin átt að sýna þá hugulsemi að birta frumvörpin í tæka tíð: En það hefir hún ekki gert, hvorki með þessi frv. né önnur og því er það, að mörg af þeim frv., sem koma fram á þinginu, eru í óþökk við þjóðarviljann; og gengið frá þeim í hugsunarleysi og flaustri, og verður því oft að breyta þeim eftir 1–2 ár.

Eg er þakklátur háttv. þm. Dal. (B. J.) og fleirum þm., sem víttu þau ummæli háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.), að hér væri um samsæri gegn stjórninni að ræða.

Slík ummæli eru óþingmannleg, og ættu ekki að heyrast hér.