31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (418)

74. mál, járnbrautarlagning

Valtýr Guðmundsson:

Eg get ekki annað en látið í ljós gleði mína yfir því, að þetta frumvarp skuli fram komið hér í deildinni. Fyrir 19 árum lá þetta mál fyrir þinginu og tilboð um brautarlagningu, sem var svo gott, að það mundi vera gleypt við því, væri það fram komið nú. Ef því hefði verið tekið 1894, væru aðrar horfur í landinu og miklu betri en nú; en þá var fáfræðin svo mikil, að tilboðinu þá var ekki sint. Nú eru hugir manna farnir að breytast mikið til batnaðar.

Eg er samdóma háttv. þm. Vestm. (J. M.) um flest, sem hann sagði. Brautin hefir að mínu áliti svo mikla þýðingu, að undir henni er að miklu leyti ræktun landsins komin og tilvera Íslendinga sem Kultur-þjóð. Landið er of stórt til þessa að samgöngur á sjó nægi því að fullu; það kemst fyrst í gott horf, þegar járnbrautir eru lagðar um það, og verði ekki hægt að koma á járnbrautum hér, vegna þess að þær borgi sig ekki, liggur nærri að efast um að landið sé byggilegt. Mín trú er, að þá fyrst komi í ljós, hve gott landið er. Mér virðist að saman eigi að fara trú á þetta fyrirtæki og framtíð landsins.

Hins vegar er eg ekki alveg samdóma háttv. þm. (J. M.) um, hvar brautin eigi að liggja; mér virðist nauðsynin einna mest fyrir járnbraut til Norðurlandsins. Hér á Suðurlandsundirlendinu eru nú komnir góðir vegir víðast hvar og skamt frá bæjum til þeirra allvíðast, og eru þeir vel færir fyrir mótorvagna, og svo liggja þess ar sýslur tiltölulega nærri Reykjavík. Þessu er alt öðru vísi farið með Norðurland, þar geta t. d. ekki þrifist smjörbú vegna samgönguleysis. Af sögu landsins er líka hægt að sjá, að landið getur alveg lokast af ís fyrir skipagöngur, og þó að við höfum nú um tíma verið lausir við þann vágest, þá getur hann komið aftur þegar minst vonum varir. Járnbraut um Norðurland gerir tiltölulega meira gagn heldur en hér sunnanlands, því að hún getur haldið uppi samgöngum, þó að allar hafnir séu lokaðar af ís. Hér við Faxaflóa kemur aldrei ís, og þess vegna finst mér auðsætt, að járnbraut ætti fyrst að koma milli Norðurlands og Faxaflóa, því að þá yrði ísinn aldrei til hindrunar.

Hér er farið fram á, að einkaleyfistíminn sé 75 ár, en í frumvarpinu 1894 var tíminn að eina 30 ár. Í frv. 1894 var landssjóði gert árlegt tillag, ákveðið og lágt, 50 þús. kr., og í sambandi við það 50 þús. kr. til þess að haldið yrði uppi góðum og stöðugum ferðum milli Englands og Íslands og strandferðum. En eftir þessu frv. er ekki nóg með það, að tíminn er 45 árum lengri, heldur eru og kjörin stórum verri en eftir frumv. 1894. Eftir þessu frumv. er landasjóði ætlað að ábyrgjast félaginu 5% af stofnkostnaðinum og 1/2% að auki í varasjóð, auk rekstrarkostnaðarins, sem landssjóði er ætlað að ábyrgjast að svo miklu leyti sem tekjur brautarinnar hrökkva ekki til. Stofnkostnaðurinn vitum vér ekki hver verða muni. Raunar hefir landsverkfræðing urinn gert þar um áætlun og talið kostnaðinn mundu verða 3 milíónir og 500 þús. kr., auk hliðarálmu niður á Eyrarbakka, sem hann ráðgerir, að kosta muni 300 þús. kr. Þótt þessi maður sé fagfróður og ábyggilegur, þá hygg eg ettir reynslu vorri um áætlanir, að varlegra sé að áætla stofnkostnaðinn 200 þús. kr. hærra, eða alls að minsta kosti 4 milíónir kr., er kemur líka betur heim við frumvarpið frá 1894. 51/2% af 4 milíónum kr. eru 220 þús. kr. Sá kostnaður legst á landssjóð, að svo miklu leyti og svo lengi sem brautin ber sig ekki. En auk þess legst líka á. landssjóð rekstrar- og viðhalds-kostnaður brautarinnar, en hve mikill hann muni verða, vitum við ekki. Það er ekki nóg með þenna mun á þessu frv. og frumv. 1894. Í frumvarpinu 1894 var félaginu ætlað að kaupa alt land undir brautina og hús hennar, fyrir fult verð og greiða skaðabætur fyrir jarðrask. En eftir þessu frumv. er félagið losað við það. Landssjóði er ekki ætlað að borga það, heldur landsmönnum, eða réttara sagt sveitarfélögunum, þeirra sveita sem brautin liggur um. Þetta gerir kjörin enn óaðgengilegri. Og þar við bætist, að sveitarfélögin hafa alla ekki verið spurð um þetta. Það tel eg fullkomið gerræði. Hér er um að ræða beint tillag frá sveitarfélögunum. Og þótt ef til vill rétt væri að krefjast tillaga frá þeim, þá álit eg þó ekki hægt með lögum að leggja á þau tillög, án þess að þau séu að spurð fyrst. En hins vegar, ef vaknaður er áhugi og skilningur fyrir þýðingu járnbrauta, þá þykir mér ekki ólíklegt, að sveitarfélögin veiti samþykki sitt til þessa ákvæðis.

Enn fremur er félaginu ætlað fult skattfrelsi og tollfrelsi í 75 ár, og svo langt er gengið, að ef félagið kaupir eitthvað hér, meðan vörutollurinn er, þá á að endurgreiða félaginu verðmuninn á því Sem þegar er inn flutt. Það er mikið, að félaginu skuli ekki vera veitt undanþága frá bannlögunum og heimilað að selja áfengi á brautarstöðvunum !

Enn fremur er félaginu heimilað að setja upp sima og selja hverjum sem hafa vill flutning símskeyta bæði með ritsíma og talsíma og keppa þannig við landsímann. Það er ekki lítils vert og getur dregið drjúgan skilding frá landssjóði.

Þá á að sleppa félaginu hjá girðingarkostnaði. Það getur verið, að girðinga þurfi ekki alstaðar, svo að eg skal ekki frekara segja um það.

Enn fremur fær félagið forgangsrétt til að leggja aðrar járnbrautir í í 5 ár. Eg álít það nokkuð varhugavert, þótt nokkuð svipað væri í frumvarpinu 1894, en bæði er það aðgætandi, að tíminn var Styttri eftir því frumv. og svo stóð til, að leyfið væri þá veitt til að leggja líka braut beint norður til Eyjafjarðar.

Það, sem eg hefi sérsaklega að athuga við þetta frv., er það, að áhættan lendir öll á landasjóði, en engin á félaginu. Félagið getur engu tapað. Ef það aftur í móti græðir, þá fær landssjóður engan hluta af því. Eg verð að segja það, að mér er óskiljanlegt, að ekki megi fá aðgengilegri kjör en þetta. Eg álít miklu betra, að landið sjálft taki að sér járnbrautina, heldur en að ganga að þessum kjörum, þá yrði bæði áhættan og gróðinn á sömu hendi, en eftir þessu frumv. er sitt á hvorri hendi: gróðinn hjá félaginu, en áhættan hjá landssjóði. Þó er eg ragur við, að landið taki að sér járnbrautir. En betra er það samt en þetta. Eg skil ekki annað en hægt væri að fá betri tilboð. Það er líkt og um lánin, sem landssjóður hefir tekið á undanförnum árum. Alt af hefir verið leitað til Kaupmannahafnar, en hvergi annarstaðar reynt að fá þau, og er eg þó í engum vafa um, að vel hefði mátt fá betri kjör annarstaðar. 1894 lá tilboð fyrir frá Englandi. Þá sagði konungsfulltrúi, landshöfðinginn, að félagið væri ófætt, þótt stofnendurnir væru kunnir. En hér er hvorttveggja ófætt.

Eg get ekki látið vera að minnast á einstök atriði frumvarpains við þessa umr., sem sum eru mjög varhugaverð, t. d. það, að stjórnarráðið ákveði lagningarkostnað fyrir hvern km. Þetta er mjög óheppilegt og óhyggilegt. Stjórnarráðið reynir að hafa kostnaðinn sem lægstan vegna landssjóðs, og getur þá svo farið, að járnbrautin verði illa gerð, og alt lendi síðan á landssjóði. Félagið sjálft er óhult, hvernig sem fer, því að landssjóður borgar brúsann. Eg álít það líka varhugasert, að stjórn járnbrautarinnar sé svift valdi til að ákveða fargjöld og flutningsgjöld, og að það sé falið 5 manna nefnd, sem stendur fyrir utan járnbrautina; því þá er hætt við, að of mjög yrði farið eftir miður sanngjörnum kröfum um lág flutningsgjöld, en þetta gerir félaginu ekkert, því landssjóður borgar allan tekjuhallann. En þessa gerist ekki þörf. Almenningur lætur vera að nota brautina, ef of hátt er farið í fargjöldum og flutningsgjöldum. Það er stjórn brautarinnar, sem hefir bezt vit á að ákveða þetta, og mundi fljótt sjá, ef út í hófleysu færi, yrði brautin minna notuð; hún yrði neydd til að haga sér eftir eftirspurninni. Enn er um lestaferðir. Í frumv. 1894 var áskilið, hve margar ferðir farnar væru á viku, á hverjum árstíma. Hér er ekkert þvílíkt ákvæði. Og yfirleitt er svo að sjá sem engar skyldur séu félaginu á herðar lagðar; allar skyldurnar hvíla á landssóði. Eg sé hér ákvæði um það, að að eins skuli brúka innlent verkafólk. Það getur verið ofboð fallegt að ætla vinnuna að eina innlendum. En vinnan getur í byrjuninni orðið dýrari og verr unnin, meðan menn. kunna ekki til hennar. Það var annað hljóð í strokknum 1894; það var ein aðalástæða andmælanda frumv. þá, að það dragi verkakraftinn frá landbúnaðinum og sjávarútveginum. Eg man það enn, hve aumir bændur hömuðust út úr þessu. Eg fyrir mitt leyti tel sjálfsagt, að innlendir menn njóti vinnunnar, eftir því sem við verður komið, en eg kann ekki við að einskorða það ákvæði, því að vitanlega verður að fá eitthvað af útlendingum til vinnunnar, meðan Íslendingar eru að læra hana. Alveg vantar ákvæði um það, að verkið skuli fullgert innan ákveðins tíma. Um það var ákvæði í frumv. 1894, og þætti mér slíkt ákvæði viðkunnanlegra.

Þær einu tekjur, sem eg sé landssjóði ætlaðar, eru gjöldin fyrir verðhækkun landsins. Svo sýnist sem flutningamenn geri ráð fyrir, að þær tekjur verði miklar, sbr. orðin: verðhækkunargjaldið skal fyrst og fremst ganga til að endurgreiða landasjóði o.s.frv. Mér þykir mjög ólíklegt, að verðhækkunartekjurnar verði svo miklar, þegar litið er til þess, að landssjóði eru að eins ætlaðar 2% af verðhækkun landsina. Mér þykir það gjald of lágt sett það ætti að vera 10% eða jafnvel 50%, því að þess ber að gæta, að landeigandi hefir hér ekkert til lagt. Eg skal játa það, að eg geri mér miklar vonir um verðhækkun landsins fram með brautinni. En bæði er það, að fyrst í stað mundi verðið ekki breytast nema næst brautinni, og í annan stað er brautin fyrirhuguð mestmegnis um óbygðir, þangað til komið er austur í Árnessýslu. Eg veit ekki, um hve margar jarðir þar brautin kynni að liggja, en ef þær yrðu að eins 15, eins og eg heyri sagt, þá má ekki gera ráð fyrir miklum tekjum af verðhækkun, ef landssjóði eru að eins ætlaðar 2% af henni.

Eg skil það vel, að Reykvíkingum sé það áhugamál, að járnbrautin komist á, því að það er víst satt, að Reykjavík er brautin lífsspursmál, ef höfnin á ekki að sliga bæinn. Það var aldrei vit í því að leggja út í svo dýra hafnargerð. Eina ráðið til þess að frelsa bæinn er sjálfsagt járnbraut. Eg vil leggja lið til að hjálpa bænum, en eg verð þó að taka mér í munn orð Franklíns og segja, að hljóðpípuna má kaupa of dýrt. Og hér virðist mér satt að segja hljóðpípan í dýrara lagi. Eg vil þó ekki segja, að eg sé andvígur þessu frumv., þvert á móti, eg ber velvild til málsins og vil láta athuga það sem bezt, og þó að eg geri ekki ráð fyrir, að það nái fram að ganga nú, þá getur við nánari athugun fengist góður grundvöllur til að byggja á. Enn álít eg lífsspursmál fyrir oss, að vér höldum áfram og hættum ekki fyr en vér höfum fengið járnbraut.